Beint í efni

Óskilamunir

Óskilamunir
Höfundur
Eva Rún Snorradóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur er óvenjuleg frásögn af hversdagslegum atburðum. Sagan er í 33 stuttum köflum sem hver um sig gæti staðið einn og sér. En eftir nokkra kafla er ljóst að frásagnirnar mynda eina heild sem hefst þó alls ekki á byrjuninni heldur flakkar fram og aftur í tíma á óreiðukenndan hátt. Í fyrsta kaflanum er söguhetjan kynnt til leiks, hún fer ásamt konunni sinni í bíltúr út fyrir borgina. Þær reyna að leiða hugann frá því hvort tæknifrjóvgun í beri árangur. Í framhaldinu hefst svo sundurlaust ferðalag um minningar söguhetjunnar og lesandinn fylgir henni stefnulaust um líf hennar þar sem frásagnir frá barnæsku og unglingsárum blandast saman við fullorðinsárin.

Hún elst upp í litlum bæ, upplifir sig utanveltu og þráir að komast í burt, í fyrstu til Reykjavíkur og síðar til útlanda. En flóttinn sem hún upplifir verður aldrei sá sem hún óskar sér. Í mörgum frásagnanna er söguhetjan inni í skápnum, setur upp grímu og læst vera önnur en hún er.

Víst þekki ég skápana, veit hvernig við erum forrituð til þess að endurskapa þá í hverju augnabliki. Öryggishólfin sem við smeygjum okkur inn í. (85)

Vegna þess hversu sundurlaus frásögnin er birtast atburðirnir sem móta söguhetjuna lesandanum ekki í réttri tímaröð og hann áttar sig ekki á því hvers vegna hún forðast átök innra með sér og við manneskjur í kringum sig. Hún er stöðugt að brynja sig fyrir sársauka sem býr djúpt innra með henni. Það er þó ekki ólíkt því þegar við kynnumst nýju fólki – við fáum ekki að heyra alla sólarsöguna frá upphafi, heldur verðum að komast inn fyrir brynjuna hjá fólkinu. Þegar lestrinum lýkur og púsluspil frásagnarinnar sýna heildarmyndina áttar lesandinn sig á því að þó verkið einkennist af ringlureið er það afar heildstætt.

Eftir að hún opnar skápinn og byrjar að vera með konum er ein kærastan hennar ósátt við kynlíf þeirra og segir: “Þú sefur hjá eins og þú sért að þurrka af styttum á ókunnugu heimili” (76). Söguhetjan viðurkennir fyrir lesandanum að ummælin særi hana en engu að síður biður hún kærustuna afsökunar. Slík viðbrögð hjá söguhetjunni eru gegnumgangandi í sögunni, lesandinn fær að heyra langar innri samræður hennar við sjálfa sig þar sem hún fer yfir marga hluti sem hana langar að segja en þegar á hólminn er komið byrgir hún allt inni. Þannig upplifir lesandinn það að hann kynnist söguhetjunni betur en aðrar persónur sem þekkja hana.

Söguhetjan er gegnumsýrð af sársauka sem hún reynir oftast bara að ýta frá sér og tekst ekki á við ónotin sem honum fylgja. Í sumum kaflanna reynir hún að takast á við hann en hann gýs samt alltaf upp aftur og aftur. 

Sársauki í óskilum hverfur bara sífellt lengra inn í þig, grasserar þar og rís svo upp á óvæntum augnablikum. Verkefnið þitt er að sjá hann. Taka hann inn. Heilsa honum: Halló, þú gamli sársauki. Leyfa honum að hneggja svoldið, sýna sig, montinn og rismikinn eins og hvítur hestur og þjóta svo inn í eilífðina. (17)

Óskilamunirnir sem vísað er til í titli bókarinnar kjarnast í söguhetjunni, hún er týnd, hún er í óskilum við sjálfa sig og samfélagið í kringum sig. Brotakennt form frásagnarinnar ýtir undir það hversu óheilsteypt hún er og hrífur lesandann með sér í óreiðuna sem býr innra með henni. Hver og ein frásögn er eins og óskilamunur sem bíður eiganda síns, týndur, og segir aðeins hluta af heildarsögu þess sem hann tilheyrir. Þegar allar frásagnirnar koma saman er óskilamununum skilað á sinn stað og lesandinn skynjar þroska persónunnar, hvernig hún reynir að skilja sjálfa sig og þann sársauka sem býr innra með henni, þó það takist misvel.

Fremst í bókinni eru þrjár myndir af friðarlilju. Á þeirri fyrstu eru blöðin niðurlút og plantan er þyrst. Á næstu mynd hafa blöðin risið örlítið og á þeirri síðustu stendur plantan sperrt og falleg og líður greinilega vel. Þessar myndir tekur lesandinn með sér inn í lestur bókarinnar en það er svo ekki fyrr en undir lok sögunnar að friðarlilja verður á vegi söguhetjunnar. Hún er þá nýskilin við eiginkonu sína og dvelur í íbúð sem vinkona hennar lánar henni. Þar þarf hún að hugsa um friðarlilju sem er á staðnum.

Þegar ég kom í íbúðina var friðarliljan alveg niðurlút, blöð hennar með blómunum drupu niður á hvítan eldhúsbekkinn. Mér fannst hún pirrandi, svo dramatísk og full sjálfsánægju. Tók mynd af henni. Eins og sársauki hennar fróaði mínum stundarkorn. Svo gaf ég henni vatn. Að kvöldi næsta dags var hún full reisnar. (130)

Söguhetjan lætur skjótan bata plöntunnar fara í taugarnar á sér og orðar það við aðra vinkonu sem kemur að heimsækja hana. Sú segir þá:

Er ekki bara frábært að vera svona skýr? Sýna bara hvernig þér líður svo hægt sé að bregðast við því strax? Svo er hún ekki langrækin eða rætin, hún tekur strax við sér. (130)

Þarna hafa myndirnar fremst í bókinni loksins fengið samhengið sitt rúmum 100 blaðsíðum síðar. Þetta er leiðandi þráður í gegnum frásögnina. Höfundur kynnir stef til sögunnar og sleppir því svo lausu en kemur svo aftur að því mörgum blaðsíðum seinna. Frásagnir hanga í lausu lofti blaðsíðum saman. Sumar þeirra fá að fjara út án þess að að þeim sé komið aftur á meðan aðrar fá óvænta endurkomu seinna í verkinu þegar lesandinn á síst von á því.

Þrátt fyrir að sögurnar í bókinni séu oft átakanlega sorglegar er aldrei langt í húmorinn. Evu tekst vel að flétta saman erfiðum augnablikum og spaugilegum aðstæðum. Margar frásagnirnar eru glettilega fyndnar og lesandinn stendur sig að því að brosa út í annað þrátt fyrir að efnistökin geti verið erfið. Söguhetjan er gjörningalistakona og í bókinni er mörgum gjörninga hennar lýst. Þessar lýsingar verða stundum farsakenndar þegar eitthvað fer úrskeiðis, eins og þegar hún þurfti að aflýsa sýningum á gjörningi þegar köttur sem var partur af leikmyndinni réði ekki álagið, missti vitið og byrjaði að klóra og bíta þátttakendur.

Eva brýtur textann upp með ljóðum á nokkrum stöðum í bókinni en það skín einnig vel í gegnum prósann hversu gott ljóðskáld hún er. Frásögnin er einstaklega ljóðræn og orðum listilega raðað saman í setningar sem lesandinn freistast til þess að lesa aftur til að ná alveg utan um áhrif þeirra. Óskilamunir er saga sögð á áhrifaríkan hátt, hún hrífur lesandann með sér og höfundi tekst á einstakan hátt að halda þræði í gegnum óvenjulega uppbygginguna og ólínulega framvinduna þannig að það er ómögulegt að leggja bókina frá sér.

 

Kristín Lilja, nóvember 2021