Beint í efni

Persepolis: The Story of a Childhood

Persepolis: The Story of a Childhood
Höfundur
Marjane Satrapi
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Um daginn birtist í Morgunblaðinu grein eftir Heimi Snorrason um fimm bestu myndasögur ársins 2003. Þeirra á meðal var saga sem ég kannaðist ekkert við, Persepolis: The Story of a Childhood, eftir Marjane Satrapi. Þegar ég fór að kanna málið kom í ljós að bókin hafði orðið undir í jólabókaflóðinu: bókstaflega, því í aðfangadeild Borgarbókasafnsins hvarf hún bakvið jólabókafjöllin og var því ófrágengin. En ég hef góð sambönd og áður en varði var ég komin með gripinn í hendurnar. Og í stuttu máli sagt þá átti þessi saga ekki skilið að falla í skuggann af íslenskum jólabókum.

Þetta mun vera fyrsta bók Satrapi sem nú býr í París og starfar þar sem myndlýsir og birtir myndasögur eftir sig í blöðum og tímaritum. Sagan kom upphaflega út á frönsku en var sumsé þýdd á ensku í fyrra og gefin út af Pantheon, bara nokkuð virðulegri útgáfu, enda er vel til verksins vandað, bókin er innbundin og útlit og hönnun sérlega falleg, og verkið í heild er sérlega vel heppnuð blanda af hinu austræna og því vestræna.

Sagan sjálf er síðan ekki síður falleg en jafnframt hræðileg og átakanleg. Eins og titillinn gefur til kynna er þetta sjálfsævisöguleg lýsing á lífi ungrar stúlku í Íran, en hún er níu ára gömul þegar íslamska byltingin verður árið 1979. Bókin hefst á því að fjalla um slæðurnar sem konur á öllum aldri þurftu að taka upp og þannig erum við strax leidd inn í hringiðu átaka um tilvist og trúarbrögð. Stíll Satrapi er einfaldur, dálítið barnalegur og glaðlegur og fyrsta myndin sem við sjáum er af henni sjálfri, tíu ára gamalli, með slæðu og ekki sérlega glöð á svipinn. Á næstu mynd sjáum við röð af stelpum á hennar aldri, allar með slæður, og sú mynd kemur eins og framhald af hinni í fyrstu línunni á síðunni.

Í næstu línu sjáum við mynd með svörtum bakgrunni af hópi fólks sem reiðir hnefann á loft: þetta er byltingin. Í rammanum við hliðina er svo mynd af litlum stúlkum með frjálst hár að fara í skólann, fyrir utan dyrnar stendur slæðuklædd kona og réttir þeim slæður: verið í þessu. Yfir skólavegginn gægist lítil stúlka; okkur grunar strax að þetta sé sögukona vor. Í neðstu línunni sjáum við stelpurnar í leik í skólagarðinum, þeim líkar ekki við slæðurnar og skilja ekki ástæðuna fyrir því að vera með þær. Og við sjáum þær leika sér að þeim, ein felur sig í henni og segist vera skrýmsl, önnur leikur ofsatrúarkonu og þykist kyrkja aðra, sú þriðja hefur bundið saman nokkrar slæður og sippar með þeim. Myndirnar eru svarthvítar og Satrapi leikur sér með að hafa litla eða skerta fjarvídd svo myndirnar taka á sig mjög sérstaka stemningu. Eftir þessa kynningu komumst við að ýmsu um söguhetjuna. Hún hafði verið heittrúuð sem barn og trúað því að hún yrði næsti spámaður íslam, og þegar eitthvað bjátar á talar hún við guð. Foreldrar hennar og amma skilja ekki mikið í þessu, þau eru frjálslynd, vinstrisinnuð og afkomendur síðasta keisara Íran, þeim er meinilla við byltinguna og þau reyna eftir mætti að lifa sínu eigin lífi áfram þrátt fyrir hana.

Smátt og smátt kynnumst við þessari ákaflega ákveðnu stúlku betur og sjáum að hún á erfitt með að fóta sig í þessu samfélagi, því líkt og foreldrarnir vill hún lifa sínu eigin lífi, en sem uppreisnargjarn unglingur á hún erfiðara með að fela það. Samhliða þessu er svo sögð saga Íran, og sagt frá stríðinu við Írak og átökum innanlands, meðal annars pyntingum á vinum og ættmennum stúlkunnar. Allt er þetta myndbirt á einstaklega áhrifamikinn hátt, og minnti á köflum á söguna Barefoot Gen eftir Keiji Nakazawa, en þar er sagt frá Hírósíma sprengingunni í álíka einföldum og hráum, en þó mögnuðum myndum. Stíll Satrapi er þó mun fágaðri og fínlegri en Nakazawa og hún beitir meiri stílbrögðum. Dæmi um slíkt er síðan sem lýsir stríðinu en aðdragandi hennar er sá að unglingspiltum af lágstéttum er gefinn lykill áður en þeir fara í stríðið og þeim sagt að þessi lykill sé lykillinn að paradís sem sé full a konum og pálmatrjám og dásemdum. Þeir fara því viljugir í stríð. Í stórum ramma sem tekur yfir tvo þriðju síðunnar sjáum við svo sprengingu og skuggalínur af mannslíkömum sem fleygjast upp í loftið, þeir engjast og eru allir með lykil um hálsinn. Fyrir neðan er svo einn rammi en þar segir Satrapi frá því að á meðan hafi hún fengið að fara í sitt fyrsta partý, í peysu fullri af götum sem mamma hennar prjónaði handa henni. Pönkið er komið og Satrapi er verulega svöl. Á myndinni sjáum við hóp af ungu fólki fettast og brettast í pönkdansi: stellingarnar minna ekki lítið á stellingar unglingspiltanna sem engjast í sprengingunni.

Á þennan hátt dregur Marjana Satrapi upp einstaka mynd af þjóðfélagi sem við á vesturlöndum höfum almennt fremur einsleita hugmynd um. Hún lýsir daglegu lífi, gleði og sorg, og speglar allt þetta í stærra sögulegu samhengi. Fyrir myndasöguáhugafólk er þetta skyldulesning, fyrir hina er þetta kjörinn staður til að byrja.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2004