Beint í efni

Petsamo

Petsamo
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Í Petsamo heldur Arnaldur Indriðason áfram að miðla til lesenda rannsóknum sínum á íslensku samfélagi á hersetuáránum. Það er ljóst að mikil söguleg rannsóknarvinna býr að baki síðustu þremur glæpasögum sem Arnaldur hefur sent frá sér en Petsamo er, líkt og þær, söguleg glæpasaga. Allar fjalla þær um áhrif hersetunnar á íslenskt samfélag og um samskipti herliðsins við íbúa landsins, ekki síst íbúa höfuðborgarinnar Reykjavíkur. Og hér eru þeir Flóvent og Thorsson mættir á nýjan leik en félagarnir komu fyrst við sögu í Skuggasundi sem kom út árið 2013. Flóvent er fyrsti íslenski rannsóknarlögreglumaðurinn, fæddur og uppalinn í Reykjavík, en Thorsson er Vestur-Íslendingur sem starfar fyrir herlögregluna. Þeir eru fulltrúar andstæðra hópa, annars vegar herliðsins og hins vegar íbúa hins hernumda svæðis, en saman vinna þeir að því að leysa þau glæpamál sem upp koma og leita réttlætis fyrir samtímamenn sína.

Petsamo hefur að geyma þrjá frásagnaþræði sem fléttast saman þegar líður á söguna. Ungur maður verður fyrir heiftarlegri líkamsárás á Klambratúni og lætur lífið í kjölfarið. Hann er klæddur í hermannabúning, en reynist vera Íslendingur við nánari eftirgrennslan, og þeim Thorsson og Flóvent grunar að um hatursglæp sé að ræða. Um svipað leyti finnst sjórekið lík í Nauthólsvík af manni sem talið er að hafi framið sjálfsmorð. Þriðji frásagnarþráðurinn fylgir ungri íslenskri konu frá finnsku borginni Petsamo til Íslands en hún er í hópi þeirra sem fóru með í síðustu ferð Esjunnar áður en skipaleiðinni var lokað í stríðinu. Stúlkan hafði mælt sér mót við unnusta sinn um borð í skipinu en sá lætur ekki sjá sig og missir af ferðinni. Það veldur stúlkunni miklu hugarangri og hún tekur að gruna það versta.   

Líkt og áður tekst höfundi að skapa sannfærandi söguheim utan um sögupersónur sínar. Það er ekki síst fyrir tilstilli sögulegra smáatriða sem höfundur virðist hafa kynnt sér í þaula og notar til að styrkja sögusviðið og hefur þau áhrif að Reykjavík eftirstríðsáranna birtist ljóslifandi fyrir augum lesenda. Lýsingar á staðháttum í borginni, og á veitingahúsum og börum, eru nákvæmar og sannfærandi en einnig mætti nefna lýsingar á mat og drykk sem hermennirnir kynna fyrir bæjarbúum. Svonefndar „spakhettur“ með kjötbollum eru í miklum metum hjá herliðinu en Íslendingarnir virðast ekki eins hrifnir. Þá er líka skemmtilegt að lesa um kaffipokakinnalitinn sem ein sögupersónan brúkar. Eða eins og segir í sögunni þá var ein tegund af kaffibæti í sérstöku uppáhaldi hjá kvenþjóðinni sem nuddaði kinnar sínar með fagurrauðum umbúðunum. 

Arnaldur hefur komið sér vel fyrir á þessu tímabili Íslandssögunnar en umgjörðin sem hann hefur skapað gefur honum færi á að kafa í mestu umbrotatíma sem orðið hafa í íslensku samfélagi. Í Petsamo fjallar höfundur um þá fátækt sem margir bjuggu við á þessum tímum og endurspeglast til að mynda í aðstæðum íbúa Pólanna, en svo kallaðist fátækrahverfi skammt vestan við Öskjuhlíð. Þegar þeir Flóvent og Thorsson rannsaka mál unga mannsins sem barinn var til óbóta leita þeir þangað og við það fá lesendur innsýn inn í líf og kringumstæður íbúanna sem bjuggu í bráðabirgðahúsnæði sem reist var af borgaryfirvöldum. Hverfið var þannig viðbragð við þeim húsnæðiskorti sem myndaðist í borginni þegar Íslendingar tóku að flykkjast úr sveitum og á mölina. Margir hugsuðu sér gott til glóðarinnar með komu hersins og Bretavinnunar, nýttu sér tækifærið til að komast í álnir og hagnast dálítið. En sú vinna sem fylgdi herliðinu var ekki alltaf heiðarleg og í Petsamo koma bæði smygl og ólögleg sala á áfengi og tóbaki við sögu.  

Þá fjallar höfundur einnig um vændi, sem verður meðal annars að birtingarmynd hins margumrædda ástands, en einnig um þær saklausu sveitastúlkur sem urðu einfaldlega ástfangnar af glæsilegum mönnum, vildu skemmta sér dálítið, jafnvel flýja átthagafjötra og fá tækifæri til að kynnast umheiminum. Áhugi og rannsóknir á ástandinu og stöðu kvenna á tímum hersetunnar hefur aukist mjög á síðustu árum. Sem dæmi mætti nefna heimildarmyndina Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu fyrr á þessu ári og fleira sem horfir til tímans með gagnrýnum hætti og setur hann í samhengi við stefnur og strauma í kvenréttindamálum. Ástandskonurnar voru litnar hornauga af samtímamönnum sínum og eins og höfundur hefur bent á í síðustu sögum, fengu þær feðraveldið upp á móti sér með því að eiga í samskiptum við hermenn. En hernámið bauð íslenskum konum ekki aðeins upp á möguleg ástarævintýri heldur gerði það þeim kleift að sækja launaða vinnu utan heimilisins í ríkari mæli en áður og verða sjálfstæðari fyrir vikið. Og ekki voru allir sáttir við það. Í Petsamo kemur höfundur einnig inn á fleiri mál sem hafa verið þögguð eða lítið rædd í samtímanum, til að mynda stöðu samkynhneigðra á fyrri hluta aldarinnar og starfsemi nasista á Íslandi.

Arnaldur er einn vinsælasti höfundurinn á Íslandi í dag og jafnframt einn sá þekktasti erlendis, en eins og lesendur vita vel hefur hróður hans borist víða og hann hlotið margvísleg alþjóðleg verðlaun fyrir verk sín. Hann er einnig afar afkastamikill en Petsamo er tuttugasta skáldsaga hans á jafnmörgum árum. Það er því ekki á neinn hallað þegar hann er kallaður konungur íslenskra glæpasagna, hann hefur einfaldlega slík tök á forminu. Þá skrifar hann afar myndrænan og fallegan texta, fjallar um sögupersónur sínar af virðingu og tilfinningu og virðist eiga auðvelt með að setja sig í spor þeirra, en það gerir honum kleift að skapa djúphugaða umfjöllun um erfið viðfangsefni eins og sorg og missi. Þessa lofræðu skrifa ég til að minna á að Arnaldur er yfirburðahöfundur, en einnig til að minna á þá staðreynd að lesendur gera miklar kröfur til hans og hafa miklar væntingar, meðvitaðar og ómeðvitaðar, til nýrra verka sem koma út eftir hann.

Það er ljóst að höfundur er farinn að leggja meiri áherslu á sögusviðið og tíðarandann en glæpina sjálfa, og ekki ætla ég að kvarta yfir því, en stundum er eins og sagnfræðileg smáatriði taki skáldskapinn yfir sem kemur niður á sálfræðilegri dýpt aðalsögupersónanna, þeirra Flóvents og Thorssons. Petsamo er þriðja sagan sem fjallar um þá félaga og nokkurs konar framhald af því sem á undan hefur komið. En þrátt fyrir það fá lesendur ekki frekari bakgrunnsupplýsingar um þá félaga heldur aðeins endurtekningar á því sem þeir vissu fyrir og fengu að vita í fyrri bókum. Flóvent og Thorsson eru margræðir karakterar, nokkurskonar aldarspeglar og veita áhugaverð sjónarhorn á tímarýmið, þ.e. reykvískt samfélag á hernámsárum. Í Skuggasundi var til dæmis sérlega áhugavert að fá að kynnast persónunum á ólíkum tímasviðum sem höfundur fléttaði saman, en þar fóru atburðir fortíðar saman við rannsókn í samtímanum.

Að því sögðu er rétt að ítreka að Petsamo glæsileg og vönduð söguleg glæpasaga. Hún er bæði fróðleg og skemmtileg aflestrar og á köflum mjög spennandi.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2016