Beint í efni

Randalín og Mundi í Leynilundi

Randalín og Mundi í Leynilundi
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Hér er komið sjálfstætt framhald af bókinni Randalín og Mundi eftir Þórdísi Gísladóttur, sem kom út í fyrra. Í þeirri bók fengu lesendur að kynnast tveimur krökkum úr Reykjavík, vinunum Randalín og Munda, og merkilegum atburðum og ævintýrum í hverfinu þeirra. Þá fóru þau til dæmis í strætóferð í miðbænum, versluðu í fornbókabúð, bönkuðu uppá hjá spákonu og skipulögðu hverfishátíð. Í fyrri bókinni var þannig fjallað um lífið í borginni en í Randalín og Mundi í Leynilundi gerast flest ævintýrin hins vegar fjarri borginni í hálfgerðri sveitasælu.

Randalín býr hjá pabba sínum Konráði Lúðvík og þegar honum býðst óvænt að fara í nokkurra daga ferð til útlanda ákveður hann að senda hana í pössun til vina sinna Adams og Þrastar sem búa í gömlum sumarbústað einhverstaðar rétt fyrir utan Reykjavík. Randalín tekst svo að koma því í kring að Munda er boðið með. Þó að Mundi sé efins í fyrstu um að fara í margra daga heimsókn til ókunnugs fólks á ókunnugan stað endar það með því að þau skella sér bæði í ævintýraferð í sveitina. Þar tekur við þeim falleg náttúra og spennandi dýralíf en líka annað merkilegt eins og hengirúm í garðinum, en þau eru nú ekki á hverju strái í borginni. Bókin spannar dvöl þeirra í bústaðnum og segir frá því sem á daga þeirra drífur. Þau bjarga dýrum, fara á sveitamarkað, hitta merkilegt fólk og baða sig í útisturtu svo fátt eitt sé nefnt. Gegnumgangandi í sögunni er náttúran og nálægðin við hana í sveitinni, allt dýralífið og maturinn sem náttúran býður upp á svo sem sveppir í sveppamauk, ber í sultur og saft, matjurtagarðar og fiskurinn sem þau veiða.

Randalín og Mundi eru bæði mjög sjarmerandi persónur og vinátta þeirra er mikilvægur þáttur bókarinnar. Randalín er ákveðin og sjálfstæð, fer sínar eigin leiðir, hefur sterkar skoðanir og er bæði hugmyndarík og frökk. Mundi er hins vegar rólega týpan, hann lætur lítið fara fyrir sér, er kannski svolítið feiminn og alvarlegur í bragði, en með stórkostlegt ímyndunarafl. Þau vinirnir eru algerar andstæður og vega hvort annað upp.

Myndskreytingarnar í bókinni eru stórskemmtilegar og ómissandi partur af sögunni enda gæða þær bæði persónur og hugmyndir þeirra lífi. Þar má sjá svipmyndir úr sögunni og ýmsar útgáfur af nábítnum ógurlega eins og vinirnir tveir ímynda sér hann. Myndir af fuglum eru rauður þráður og kallast á við atburði, svo sem ugluna sem Randalín og Mundi sjá í spákúlu í upphafi sögunnar, starana í kamínunni hjá Adam og Þresti (!) og gamla, skrítna fuglafræðingin sem þau rekast á þegar þau fara í skógargöngu.

Randalín og Mundi í Leynilundi er afar hugljúf bók þar sem er fjallað um stór mál og smá af innsæi og virðingu fyrir lesandanum. Þetta eru mál sem börn ræða sín á milli og sem þau pæla í, svo sem foreldrar og heimilisaðstæður, sorg og fólk sem deyr og velferð bæði manna og dýra. Öll þessi atriði eru þannig fléttuð inn í söguna að þau verða eðlilegur hluti lífsins og ekki vandamál, sem er bæði mikilvægt og viss kúnst að gera. Bókin er ætluð yngri lesendum og má jafnvel sjá fyrir sér að þeir sem eru orðnir sæmilega læsir gætu lesið hana sjálfir; hún er mátulega löng, textinn er ekki of smár og með ágætu línubili. Sagan er bæði svolítið spennandi og svolítið sorgleg en líka full af bjartsýni og húmor, eins og sést á lokalínunum sem Randalín ritar í dagbókina sína. Hún hefur áður prófað að skrifa fyrirfram í bókina það sem muni gerast og fengið það uppfyllt. Þá er ekki úr vegi að enda góða ferð á eftirfarandi spádómi: Í dag komu pabbi minn og Hannes heim frá London með lakkrískonfekt handa okkur Munda.

María Bjarkadóttir, desember 2013