Ég man enn þegar ég, nýkomin í menntaskóla, las í fyrsta sinn ljóð eftir Ísak Harðarson. Ég var á vappi um bókasafnið mitt, Sólheimasafn, og fannst ég vera orðin gasalega fullorðin og til að sanna það gekk ég rakleitt að ljóðahillunni og lét greipar sópa. Mig minnir það hafi verið Ræflatestamentið (1984) sem ég las fyrst og varð fyrir ljóðrænni opinberun, eða eitthvað.
Nokkrum árum (!) síðar var ég að lesa bók Ísaks, Hjörturinn skiptir um dvalarstað (2002) og lýsti hrifningu minni við félaga minn sem hnussaði við og sagðist vera búinn að fá alveg nóg af þessari nútímafóbíu skáldsins. Ég hikaði við, vissulega er ég ekki sammála þeirri blossandi andúð á hið rafræna og skjávæna samfélag sem birtist í ljóðum Ísaks, en það breytir þó ekki því að hann skrifar sterk og flott ljóð.
Sama á við um nýjustu ljóðabók Ísaks, Rennur upp um nótt. Í fyrsta hlutanum, “Fyrirsjáanleg blinda”, sem ber einkunnarorðin “Ó, dýrð! / - einmitt núna er verið að finna upp enn einn hlutinn / sem við getum ekki verið án!” ber mikið á þessari nútímafóbíu, sem birtist hvað greinilegast í stuttum stefljóðum sem nefnast “Fjölmennið” (1-5), en þar er til dæmis bent á að “það sem vekur athygli” er “alls ekki endilega / það sem skiptir máli”. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað nýstárleg gagnrýni og það er líklega það sem félagi minn átti við þegar hann kvartaði yfir ljóðunum í Hirtinum, að þar birtist fóbía frekar en málefnanleg gagnrýni og er vissulega ýmislegt til í því. Hinsvegar er ég ekkert endilega viss um að fóbía sé verra efni í ljóð en málefnanleg gagnrýni. En það sem hefur gerst hér er að kreppan hefur bæst við. Svo nú blandast nútímafóbía Ísaks andúð á græðgisvæðingunni svo úr verður bara ansi hressileg blanda, mun málefnanlegri en fóbían fyrr. Vissulega snýst meirihluti ljóðanna enn um tómarúm sjónvarpsins og andleysi fólks sem lifir lífinu í heimi ímyndanna, en svo koma guðdómleg augnablik andstyggilegrar ádeilu eins og í “Öld vatnsberans”, en því lýkur svo:
Já, góðir fávitar, þið neitið því ekki
að við erum sammála um að aukinn hagvöxtur
er það sem allt snýst um
og að til þess dó Jésús að feðgarnir í Baugi
og Landsbankanum mættu ríkja á markaðnum
og tryggja okkur um eilífð hin hagstæðustu kjör
- sem jafnvel englana fýsir að kynnast ...
Hér getur lesandi ekki annað en velt fyrir sér hvort ekki megi setja ofurlítið samasemmerki milli göfgunar skjámenningarinnar og þess álagahams sem fjölmiðlar lögðu á þjóðina í linnulausum innantómum glamúrfréttum af þessu fólki.
Fóbían (sem ég kalla svo til að stytta mér leið) tekur svo á sig nýja mynd í næsta hluta, “Verði myrkur! (Á vit hins undursamlega)”, en þar er syrpa af prósaljóðum sem tengjast saman í einskonar sögu. Hér sjáum við að fóbían er í raun birtingarmynd einmanaleika, eins og okkur reyndar gat grunað af ýmsum línum úr ljóðum fyrri hlutans eins og til dæmis úr “Velgengninni”:
Loks æpti ég upp í himininn
ef vera kynni að einhver kynni að vera
einhvers staðar sem fyndist ég einhvers verður
- og skyndilega er slikjunni flett af augum mínum
og ég sé að ég er alls ekki einn:
Tuttugasta og fyrsta öldin er minn tími,
allur heimurinn heimili mitt,
gervallt mannkynið systkini mín:Ó, ég sé ykkur á skjánum
státin, skeytingarlaus og skynlaus,
- sé okkur blakta
kát og hraðbyri, blinduð
afþreyingum okkar og hátíðumbeint
í
dauðann.
Prósaljóðin í öðrum hluta lýsa einmana tilveru rithöfundar sem býr í kjallaraherbergi og berst við að lifa lífinu. Hann hlustar á George Harrison og þráir mikið kynlíf, en treystir sér ekki út í þær aðstæður (nám) þarsem hann gæti hugsanlega nálgast slíkt. Textarnir eru nístandi en þó kómískir, uppfullir af sjálfsháði í bland við hvassa ádeilu, eins og í “Þessi ég” en þar hafa allir yfirgefið ljóðmælanda, “leggja sig í líma við að yfirgefa mig!” Það minnir hann á Lima og jarðskjálftann í Perú sem enginn veitti athygli í algleymi velgengninnar á Íslandi og forsetinn gleymdi að senda samúðarkveðjur. Annað ljóð lýsir skemmtilegum samslætti tilviljana þegar ljóðmælandi les óvart “Leynivegur” í staðinn fyrir “Laugavegur”. Þrátt fyrir að hér ríki mikið myrkur, eins og yfirskrift kaflans gefur til kynna þá virðist sem aðeins birti til undir lokin, en þar lætur ljóðmælandi sig dreyma um annað líf, mögulega lætur hann verða af því að láta vaða. Þessi hluti geymir mörg flottustu ljóð bókarinnar og skapar sterkt samspil og mótvægi við fyrsta kaflann.
Þriðji og síðasti kafli bókarinnar er svo samnefndur bókinni sjálfri, “Rennur upp um nótt”. Sá kafli er síður samhangandi en hinir og minna mörg ljóðanna svolítið á andrúmsloftið í eldri bókum skáldsins, eins og ljóðið “Stjörnuljósastaur”, en þar er að finna þessi margsamsettu orð sem svo mjög einkenndu fyrstu bækurnar: “Blýmyrkravetur”, “kolbikaský”, “tréljósastaur”, “stjarnljósaskin”. Þrátt fyrir yfirskrift kaflans er bjartara og léttara yfir þessum ljóðum, sem er vissulega ánægjuefni, miðað við svartagallið fyrr, en kemur þó ekki í veg fyrir að þessi síðasti hluti virkar veikari en hinir fyrri. Kannski er það vegna þess að það eru einhverjir undirtónar í allri þessari birtu sem eru dálítið myrkir, án þess þó að vel sé hægt að ná á þeim taki. Þó eru þarna virkilega fín ljóð inni á milli eins og fyrrnefnt “Stjörnuljósastaur” og titilljóðið “Rennur upp um nótt”.
Lokaljóð bókarinnar fannst mér svo sjálfri afar viðeigandi:
Upphafsstaður
Hér er ég þá
á sama stað og ég lagði upp
fyrir rykmekki af árum.Ekkert hefur breyst
- ekki staðurinn
ekki ég.Það er eina breytingin.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009