Það er ekki úr vegi að lesendur skelli Megasi á fóninn og hlusti á lagið góða „Reykjavíkurnætur“. Reykjavíkurnætur Arnaldar Indriðasonar eru ekki ósvipaðar Megasar, nema bara aðeins ítarlegri. Rónar koma við sögu, drykkjulæti um nætur og svo auðvitað lögreglan. Sjálfur er Erlendur Sveinsson, sem þarna birtist sem ungur maður, dálítið eins og týndi drengurinn í texta Megasar, enda fyrsta kynslóð á mölinni. Og svo má ekki gleyma sjálfum glæpnum: „Það er einhver úti í nóttinni / sem gröfina sína grefur“.
Erlendur Sveinsson er því enn á ný aðalsöguhetja glæpasögu Arnaldar, en að þessu sinni sem ungur maður. Bókin hefur verið kynnt sem ‚fyrsta mál Erlendar‘ og það má með sanni segja, en þó er hann ekki orðinn fulltrúi rannsóknarlögreglunnar þegar hér er komið, heldur aðeins óbreyttur lögreglumaður. Málið rannsakar hann því að mestu upp á eigin spýtur og ekki alveg í þökk yfirvalda. Ástæðan fyrir þessum sjálfsprottnu eftirgrennslunum er sá hæfileiki Erlendar til að sýna samúð og samhug, að þessu sinni með róna sem finnst drukknaður í grunnri tjörn í Kringlumýri. Við erum því á kunnuglegum slóðum, Erlendur er á skjön við yfirvöldin og hefur samkennd með lítilmagnanum. Þessi næmni Erlendar á þá sem lítils mega sín eða eiga um sárt að binda nær þó ekki til hans einkalífs; hér fáum við innsýn í tilhugalíf hans með Halldóru, móður barnanna sem lesendur þekkja úr eldri bókunum, og það er ekki gæfulegt svo ekki sé mikið sagt.
Að auki er sagan heilmikil borgarsaga, eins og reyndar flestar af fyrri bókum Arndaldar. Á ferðum Erlendar um Reykjavíkurborg kynnumst við sögu hennar og skáldum, en sem fyrr er heilmikið um tilvísanir í Íslenskan skáldskap. Einnig er vísað til persóna sem koma fyrir í eldri bókunum og því er lesanda boðið upp á að fara í sinn eigin lögguleik með nöfn og lýsingar.
Reykjavíkurnætur gerist tveimur árum eftir atburðina sem lýst er í síðustu bók Arnaldar, Einvíginu (2011). Þar var Marion Briem aðalpersónan, en hér er það semsagt hinn ungu Erlendur sem stimplar sig vandlega inn. Ártalið er 1974, þjóðhátíðarárið, en málin sem Erlendur er að rannsaka hafa átt sér stað ári fyrr. Annarsvegar er það hinn drukknaði róni, Hannibal, sem leitar á Erlend, og hinsvegar mannshvarf, þar sem ung gift kona hverfur á leið sinni heim frá næturklúbbi, nánar tiltekið Þórskaffi. Já, Erlendur er þarna strax byrjaður að gramsa í mannshvörfum:
Erlendur kannaðist vel við mál konunnar úr Þórskaffi. Hann hafði áhuga á mannshvörfum og drakk í sig fregnir af þeim í fjölmiðlum, hvort sem um var að ræða vanbúnar rjúpnaskyttur á fjöllum sem skiluðu sér ekki til byggða á tilsettum tíma, fólk á ferðalagi um fjöll og öræfi sem ekki hafði spurst til dögum saman eða ungt fólk sem strauk að heiman frá sér eins og stúlkan í bleiku mussunni. [...]
Fljótlega eftir að Erlendur byrjaði í lögreglunni tók hann að grúska í skjalasafni hennar og leita uppi gömul og ný mannshvörf í Reykjavík og nágrenni. (33)
En Erlendur lætur sér ekki nægja skjalasafnið, hann safnar líka að sér bókum:
Þegar hann var yngri, löngu fyrir tvítugt, og leiddist í borginni tók hann að þvælast inn í fornbókabúðir. Einn daginn rakst hann á bókaflokk sem bóksalinn hafði nýverið keypt úr dánarbúi og var safn af sönnum sögum um hrakfarir fólks og villur á ferðum um Ísland. [...] Erlendur hafði ekki gert sér grein fyrir að slíkar frásagnir væru til á prenti. Hann gleypti bókaflokkinn í sig og upp úr því tók hann að safna að sér bókum og öðrum rituðum heimildum sem sögðu frá hrakningum fólks í sjóslysum, í snjóflóðum eða á fornum íslenskum þjóðleiðum. [...] Það kom honum á óvart hversu mikil útgáfan var sem tengdist þessu áhugamáli hans og taldi að það hlyti að stafa af því að bækurnar nytu vinsælda almennings. Sögurnar tengdust veröld sem var, áður en borgin tók að þenjast út og kaupstaðir að stækka, og þær áttu enn erindi. Gamla sveitasamfélagið hafði ekki liðið undir lok heldur aðeins fundið ný heimkynni. (59)
Þegar ég les þessar lýsingar á áhugamáli Erlendar þá get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort vinsældir bóka Arnaldar liggi ekki einmitt að hluta til í einmitt þessu: „Gamla sveitasamfélagið hafði ekki liðið undir lok heldur aðeins fundið ný heimkynni.“ Persóna Erlendar er burðarás meginhluta verka Arnaldar og jafanframt einskonar táknmynd fyrir gamla tíma – og tengsl þeirra við nútímann, með öðrum orðum, gamla tíma í nýjum heimkynnum. Eftirgrennslanir Erlendar og þrautsegja hans tilheyra eiginlega horfnum tíma, sem endurspeglast svo í hægfara en þó stígandi og knýjandi hrynjanda sögunnar – og sagnanna.
Af stakri þolinmæði hittir Erlendur, aftur og aftur, helstu aðstandendur Hannibals og Oddnýjar (konunnar úr Þórskaffi). Hann fræðist um líf þeirra, forsögu Hannibals og hjónaband Oddnýjar og smátt og smátt byggist upp mynd af glæp. Og glæpum, því í leiðinni leysir Erlendur eins og tilfallandi úr ýmsum öðrum málum. Eins og áður segir er takturinn þungur, en stöðugur, og öll uppbygging fléttu og söguþráða unnin af öryggi og festu. Þetta er ekta lögreglusaga, félagar Erlendar á næturvöktunum eru hæfilega dæmigerðir fulltrúar tímans og þeirra ólíku áherslna í íslensku samfélagi sem síðar áttu eftir að skýrast enn frekar og ferðir þeirra um Reykjavíkurnæturnar standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans. Að auki býr sagan yfir þeirri næmni á umhverfi, sögu og aðstæður sem einkennir bestu verk Arnaldar og er í það heila afar vel heppnað skáldverk, bæði sem glæpasaga og borgarmynd.
Aðdáendur Arnaldar geta því andað léttar: Erlendur Sveinsson er svo sannarlega ekki horfinn, hann gengur hér aftur og það fer honum vel.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012