Það sem gerir lestur glæpa- og spennusagna að svo skemmtilegri iðju er trúlega það að lesandanum er kastað út í hringiðu atburða sem hæpið er að hann muni nokkurn tíma upplifa sjálfur á eigin skinni. Einn eða fleiri dramatískir hápunktar eiga sér stað og oftast nær eru svo ýmsir lausir endar samanhnýttir í sögulok. Stundum fer það að vísu svo að sögulokin valda nokkrum vonbrigðum. Eftir að búið er að byggja upp mikla eftirvæntingu og óvissu er lausn gátunnar stundum þannig háttað að lesandinn situr eftir með tómleikatilfinningu í stað þess að vera mettur og ánægður. Ef sú tilfinning gerir vart við sig er ólíklegt að lesandinn hafi áhuga á að lesa meira eftir þann tiltekna höfund. Það er því mikilvægt að höfundur grípi ekki til of léttvægra lausna til að binda enda á verk sitt. Danski glæpasagnahöfundurinn Leif Davidsen sagðist yfirleitt byrja á nýrri bók án þess að hafa hugmynd um hvaða stefnu söguþráðurinn tæki eða hvernig hún endaði. Aðrir höfundar setjast fyrst niður við skriftir þegar þeim er nokkuð ljós fléttan og flestir útúrdúrar bókarinnar.
Dramatík í tiltölulega raunsærri löggusögu kann að vera með minna móti en í spennusögum þar sem þjarmað er að trúverðugleikanum, þó án þess að lesandanum sé ofboðið, en um leið og spennusaga nálgast fantasíu um of er næsta víst að margir krimmalesendur munu leggja bókina frá sér. Hrollvekjur og vampýrusögur eru bara allt önnur Ella þótt þær kunni að vera spennandi á sinn hátt. Hjá lesendum glæpasagna á vorum dögum er krafa um félagslegt raunsæi.
Sumir glæpasagnahöfundar og krimmaunnendur hafa einmitt lýst því yfir að glæpasögur séu þær sögur sem allra best rýna í samfélagsleg vandamál nútímans, þær séu sannarlega félagslegar skáldsögur. Aðrir mótmæla og segja að það sé ekki hægt að tala um raunsæi í sögum sem alltaf leysast farsællega. Rétt er það, að það hefur löngum verið aðal glæpasagna að málin leysast farsællega og frá því að elstu menn muna, í fyrstu sakamálasögunum, er reglu ávallt komið á að lokum, „order is restored”. Þannig þjónar glæpasagan allnokkuð viðteknum hefðum og venjum, fyrir utan að vera hefðbundin í uppbyggingu oftast nær. Tilraunir með form virðast dæmd til að mislukkast í þessari bókmenntagrein. Glæpasagan er gjarnan hliðholl lögum og reglu og ekki síst laganna vörðum sem leika misjafnlega stór hlutverk eftir því hvers konar sögu um ræðir. Reyndar er það oft þannig nú orðið að það er ekki alltaf góður endir sem fylgir því að reglu sé komið á. Oftar en ekki finna söguhetjurnar, hvort sem þær eru löggur eða einkaspæjarar, fyrir óbragði í munni yfir því hvernig mál hafa þróast en þurfa samt að haga málum á vissan hátt þótt þeim sé það þvert um geð. Einkaspæjarinn getur kannski farið á svig við ramma laganna að einhverju leyti en það geta opinberir starfsmenn tæplega gert. Gera það þó stundum. En það er að vissu leyti rétt að málin leysast í þessari nýju „félagslegu” bókmenntagrein þótt þau leysist ekki öll farsællega. Fólk verður fyrir missi, sorgin hefur knúið dyra og ýmislegt óskemmtilegt komið fyrir áður en upp er staðið. Glæpaverk geta svo allt eins verið framin af tilviljun eða hálfgerðum óvitaskap (Vetrarborgin, Mystic River) og að yfirlögðu ráði og enginn einn hagnast endilega á dauða annars í slíkum tilvikum.
Að þessum hugleiðingum loknum er kannski við hæfi að snúa sér loks að bók Ævars Arnars Jósepssonar, Sá yðar sem syndlaus er. Lík Ólafs Áka Bárðarsonar finnst snemma bókar og hefur þá setið nokkuð lengi óhreyft „í sínum leisíboj”. Áður en að því kemur hefur verið fylgst aðeins með lífi þessa tilvonandi líks. Og auðvitað var Ólafur myrtur. En hvernig stendur á því að enginn hefur hirt um manninn eða saknað hans um langa hríð? Fréttir úr fjölmiðlum undanfarin ár sýna að þetta er ekki óalgengt, að þeir sem búa einir og enginn kærir sig um geta hrokkið uppaf án þess að nokkur viti og af ýmsum ástæðum.
Reykjavík er sögusviðið og sömu persónum fylgt eftir í rannsóknarvinnunni og í fyrri bókum höfundar. Þetta eru orðnir góðkunningjar þeirra sem þær hafa lesið. Ný áhugaverð persóna úr „hinu liðinu” lítur dagsins ljós. Sá kallast Lalli feiti og samkvæmt sögulokum má alveg eins búast við að hann muni eiga sér framhaldslíf í öðrum bókum. Löggurnar hafa allar sín karaktereinkenni. Þótt yfirmaður hópsins, Stefán, sé ekki eins ákveðinn og sterkur persónuleiki og Erlendur í sögum Arnaldar, er það bætt upp með öðrum persónum, svo sem persónu „Hundsins” og réttarmeinafræðingsins, Geirs, og ekki síst Guðna sem auðþekktur er á enskuskotnu málfari með tilheyrandi blótsyrðum. Að honum frátöldum er málfar hinna nokkuð keimlíkt. Það vekur athygli vegna þess að svo mikið er um samræður í bókinni. Hún byggist eiginlega mest upp á samræðum. Með því að ræða saman velta lögreglumennirnir upp hinum ýmsu kostum í stöðunni og möguleikum til að mjaka rannsókn mála áfram. Þeir lenda í blindgötum og misheppnuðum aðgerðum en hægt og rólega nær sagan vissum hápunkti og síðan nokkuð lunknum endi. Það eykur á raunsæið að ekki gengur allt í haginn varðandi glímu löggunnar við glæpasamfélagið. Botninn dettur þó ekkert úr sögunni þótt lausnin sé kannski ekki sú sem lesendur hefðu helst kosið.
Bækur Ævars falla hiklaust í raunsæisflokkinn og þessi þar með. Sumir vilja eflaust meina að þær fylki sér ákveðið innan hinnar norrænu glæpasagnahefðar með allar sínar þunglyndislegu löggusögur. Það hvílir nefnilega ákveðinn drungi yfir sögum Arnaldar Indriðasonar, Hennings Mankell, Åke Edwardssons og fleiri norrænna höfunda. Hvort þessi drungi hefur að gera með veðurfarið eða hinar norrænu þjóðarsálir eða hvort tveggja skal ósagt látið. Sögur Ævars eru þó eiginlega lausar við þessi þunglyndiseinkenni. Það er meira fjör og lífsgleði í frásögnum hans og í stílnum en hjá mörgum kollegunum. Þótt alla jafna bregði fyrir svolítilli kímni hjá hinum norrænu glæpasagnahöfundum svona í bland við þunglyndið losna lesendur Ævars að mestu við þennan yfirvofandi vetrarkvíða sem stöðugt vill minna á sig hjá sumum. Það er helst í Blóðbergi að vetrarhörkurnar taka völdin. Þrátt fyrir nokkra spaugspretti er alls ekki um að ræða grínglæpasögur eins og sumir kannast við úr smiðju Hiaasens, Westlakes og jafnvel Þráins Bertelssonar.
Fullyrða má að Sá yðar sem syndlaus er sé vel uppbyggð og afskaplega spennandi glæpasaga sem auðveldlega heldur lesanda föngnum. Ágætlega er haldið um öll smáatriði og ekkert virkar ótrúverðugt í frásögninni. Þótt lesandinn sé auðvitað blekktur með því að fara miklar krókaleiðir að einfaldri lausn þá eru þessar krókaleiðir allar bara svo skemmtilegar. - Kristilegt trúfélag sem nefnist Sannleikurinn leikur nokkuð stórt hlutverk eða réttara sagt eru það forstöðumaður safnaðarins og bróðir hans, prédikarinn á kristilegu sjónvarpsstöðinni Alfa, sem koma mikið við sögu. Ekki er víst að að þeim sem tengjast slíkum söfnuðum hugnist útreiðin sem Sannleikurinn fær á síðum bókarinnar en „Jesúkallarnir”, þessar fremur ýktu persónur, liggja vel við höggi hvað grínið varðar.
Minnst var á samræður og hversu ráðandi þær eru í frásögninni. Annað er skiptingar milli sjónarhorna hjá hinum alvitra sögumanni sem verða æ meira áberandi eftir því sem líður á söguna. Hvort tveggja minnir á kvikmyndaformið og manni dettur í hug að ekki væri úr vegi fyrir kvikmyndagerðarmenn að kíkja á bækur Ævars með bíómyndir í huga.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2006