Beint í efni

Sálumessa

Sálumessa
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Guðrún Baldvinsdóttir

Það er rúmt ár síðan #metoo byltingin skók heiminn og hefur hún haft gríðarleg áhrif á baráttu kvenna og karla gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í flestum kimum samfélagsins. Konur hafa risið upp og tjáð sig um ofbeldi gegn þeim undir merkjum myllumerkisins og þannig varpað ljósi á þann kerfisbundna vanda sem við nú neyðumst til að horfast í augu við. 

Listin hefur ekki látið sitt eftir liggja og má sjá afrakstur byltingarinnar allt í kringum okkur. Ljóðskáldið og rithöfundurinn Gerður Kristný er þó ekki að takast á við viðfangsefnið í fyrsta skipti en hún hefur unnið með þetta umfjöllunarefni í fyrri ljóðabálkum sínum. Ný ljóðabók hennar, Sálumessa, talar beint inn í orðræðu #metoo byltingarinnar, bæði er varðar bakgrunn og efnistök. Hér er um ræða ljóðabálk sem er náskyldur fyrri ljóðabálkunum, Blóðhófni (2010) og Drápu (2014). Í bálkunum þremur vinnur hún með kúgun og ofbeldi gegn konum. Í Blóðhófni endurskrifaði Gerður Kristný Skírnismál út frá sjónarhorni Gerðar Gymisdóttur sem horfir  öðruvísi við okkur en sú saga sem við eigum að venjast. Í Drápu vann hún út frá svæsnu ofbeldismáli þar sem ung kona var myrt á hrottalegan hátt í miðbæ Reykjavíkur fyrir um tuttugu árum. Í Sálumessu er það síðan annað hræðilegt mál frá árinu 2002 sem Gerður Kristný fjallaði um þegar hún starfaði sem blaðamaður á tímaritinu Mannlífi. 

Ljóðabálkurinn byggir á sögu ungrar konu sem var beitt kynferðislegu ofbeldi af hendi bróður síns. Þegar hún opinberaði sögu sína snerist fjölskylda hennar gegn henni og hún endaði með því að taka eigið líf. Gerður Kristný fékk áminningu frá Blaðamannafélagi Íslands fyrir að  hafa birt skrif ungu konunnar. 

Þú skrifaðir 
sögu þína 
blekvættum barrnálum
um bróður 
sem lagði 
líf þitt pínu
(bls. 16)    

Form ljóðabálksins er í anda fyrri verka Gerðar, knappur stíll með stuðlum og höfuðstöfum. Formið hentar þemunum og myndmálinu vel en að sjálfsögðu er það kuldinn, myrkrið og hið óhugnanlega sem umlykur textann og allt myndmálið, en það má segja að þetta séu orðin ákveðin einkennismerki í skáldskap Gerðar Kristnýjar. Og eins og í fyrri ljóðabálkum hefur ljóðmælandinn í Sálumessu óvenjulega stöðu innan frásagnarinnar en hann er staddur við hlið konunnar í gröfinni og syngur henni sálumessuna. Ljóðmælandinn virðist ekki af þessum heimi, heldur er vera undirheimanna og kuldans. Í heimi frásagnarinnar er það ekki endilega hið versta, því fyrir ofan kúrir bærinn þar sem hin látna fékk ekki að lifa, og í raun ekki að deyja óáreitt heldur.  Veran er ákveðin í að líf hinnar látnu fái ekki að gleymast. 

Gerður Kristný er þekkt fyrir sterkt myndmál sem hún kemur fyrir í afskaplega fáum orðum. Hver einasta mynd birtist lesandanum ljóslifandi og þessar myndir eru ekki alltaf fallegar. Kuldinn er alltumlykjandi og skilin milli lífs og dauða, okkar heims og handanheima, eru óljós. Við komumst ekki hjá því að lesa ljóðabálkinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar til að tryggja að allar myndirnar hafi komist til skila. 
Á milli kafla koma myndskreyttar opnur í anda kápunnar þar sem vankantar tungumálsins eru dregnir fram: 

P
O
R
U
N
K
U
S
E
M

Finnar eiga orð yfir vegalengdina sem hreindýr 
ferðast án hvíldar 
Það vantar orð yfir kuldann sem nístir okkur 
þegar vinir velja að deyja 
(bls 59)

Með þessum innskotum í annars flæðandi frásögn bálksins er sögunni gefin aukin ljóðræna og minnir okkur á hvernig tungumálið mótar það hvernig við tjáum okkur. Árið 2002 höfðum við ef til vill ekki orðin til þess að tjá okkur um þessi erfiðu mál en nú virðumst við vera að skapa  tungumál til þess. Og þarna tekur skáldskapurinn við og sinnir sínu hlutverki. 

Gerður Kristný leyfir ljóðlistinni ekki að vera stikkfrí frá því sem við þurfum að ræða, frá því sem listin þarf að takast á við í samtíma okkar. Ljóðlistin fær ekki að fljóta um í skýi fyrir ofan okkur, heldur sýnir skáldið að ljóðið er ef til vill það form sem hentar hve best til að tala til fólks og ljóðin geta vissulega haft áhrif. Hún fellur þó ekki í þá gröf að stíga í predikunarpontu. Hún spyr veigamikilla spurninga sem vekja lesendur til umhugsunar um ábyrgð, sorg og þöggun. Frásögnin er ekki svart/hvít heldur fáum við einnig innsýn í erfiðan hugarheim fórnarlambsins. Við erum þannig minnt á að samfélagi okkar er ekki skipt upp í skrímsli og saklausa, heldur er þetta flóknara og margræðara en svo.

Vísun ljóðabálksins í raunveruleikann er ekki tilviljun og skáldið gerir ekki tilraun til að fela það að hér sé fjallað um raunverulegt mál. Lesandinn fær vísbendingar í hendurnar í textanum, bæði til að hjálpa honum að muna – eða gefa honum nægileg tæki til að komast að raunverulegu sögunni í gegnum heimildir á netinu. Þannig minnir Gerður Kristný okkur á mikilvægi þess að skáldskapur taki afstöðu og geri tilraun til að hafa áhrif.  Hann getur aðstoðað okkur við að muna að þrátt fyrir byltingu dagsins í dag hafa þolendur þurft að deyja fyrir að hafa rofið þögnina. Og það mun gerast aftur nema að byltingunni sé stöðugt veitt aðhald. 

Vissulega varstu 
mannsdóttirin 
sem var fórnað 

Sagan þín 
birtist svo hver 
sem á hana trúir 
glatist ekki
(bls. 52)

Guðrún Baldvinsdóttir, 2018