Sandárbók Gyrðis Elíassonar ber undirtitilinn Pastoralsónata, sem gefur til kynna tóntegund og viðfangsefni þessarar skáldsögu - og gæti reyndar átt við margar af sögum Gyrðis. Þó gerist sagan ekki beint úti í sveit, heldur í íslenskum skógi, en þar hefur málari komið sér fyrir í hjólhýsi, að því er virðist til að hugsa eigin gang. Hann er upptekinn af trjám og hefur breytt um stefnu í málaralistinni til að mála þau: „Nú er orðin framúrstefna að vera gamaldags, svo það má vel mála tré“ (31). Þannig blandast vangaveltur um myndlist inní verkið, sögumaður rifjar upp hina og aðra málara og les bækur um þá eða eftir þá og horfir á og metur myndverkin sem hanga uppi á veggjum hjólhýsisins. Eitt þeirra sýnir mann á ferð á fleka niður frumskógarfljót og listamanninum finnst lítið til listgildisins koma. Þó býr myndin yfir einhverjum frumstæðum krafti og á kvöldin kvíðir sögumaður því að „framundan væru illvígar flúðir eða fossar“ og hlustar grannt út í nóttina, en heyrir „bara lágan niðinn í Sandánni.“ (21) Þetta er þekkt bragð hjá Gyrði og sést oft í ljóðum hans; hann leiðir lesandann úr einni myndlíkingu yfir í aðra og skapar þannig spennu og tilfinningu fyrir því að upplifa tvo staði - og tíma - í senn. Hér notar hann myndverk til að færa lesandann á milli sviða, jafnframt því að myndin er einskonar vangavelta um stöðu málarans sjálfs í sögunni; en honum finnst einmitt að framundan séu einhverjar illvígar hremmingar.
Hugmyndin um skóginn skapar, líkt og málverkið, einkennilega tilfinningu fyrir því að vera á tveimur stöðum, hér heima og heiman. Skógarlíf er eitthvað sem tengist frekar útlöndum en Íslandi og Gyrðir ýkir upp þá tilfinningu með því að láta málarann iðulega tapa sér í fjarlægum löndum í bóklestri sínum og vangaveltum um myndlist. Auk þess hittir hann kanínur og dáist að þrautseigju þessara nýbúa íslenskrar náttúru.
Málarinn gengur um skóginn og teiknar og málar, jafnframt því að hugsa um stöðu listarinnar og það að ekki þyki lengur við hæfi að mála úti, nú fari öll list frammi inni í vinnustofum og sé þarmeð orðin innhverfari. Á gönguferðum sínum heimsækir hann iðulega leiði gamals bónda og hests hans og rifjar upp draugasögur um þrjá riddara sem ferðast um skóginn. Kannski eru þeir þrír af fjórum riddurum heimsendans, en þá hefur sá fjórði dottið af baki. Og sögumaður veltir því fyrir sér hvort draugar detti af hestbaki. Hann sér líka konu og í fyrstu er erfitt að átta sig á hvort hún sé draugur. Samskipti hans við annað fólk eru lítil, sonur hans heimsækir hann, sömuleiðis tryggur - en óvelkominn - kaupandi og svo veiðivörðurinn.
Allt eru þetta kunnugleg stef í verkum Gyrðis, sem gerast iðulega utan borgarlífsins, í sveitum eða þorpum, skapa sterka tilfinningu einmanaleika og búa yfir sögumanni sem stendur einhversstaðar á mörkum lífs og dauða, hið yfirnáttúrulega er ævinlega nærtækt og að sama skapi næsta sjálfsagt. Þannig virka margar bóka Gyrðis næstum tímalausar. Þetta hefur oft verið túlkað í tengslum við einskonar fortíðarþrá eftir horfnum heimi og gildum. Það sem hinsvegar er nýmæli í Sandárbókinni er hversu mikið er af vísunum í nútímasamfélag og líf. Hjólhýsi málarans stendur í þyrpingu hjólhýsa, en hin hýsin eru öll mun fínni en hans, þau eru afsprengi góðærisins og þar er grillað á hverju kvöldi á sértilgerðum palli. Veiðivörðurinn minnir á hermann í fjallahéruðum Afghanistan og að auki er vísað til virkjana. Einnig er vísað í ýmis verk afþreyingarmenningar eins og Tinnabókina Dularfullu stjörnuna og Hvell-Geira, en allt þetta gefur textanum meiri nútímayfirbragð en finna má í velflestum verkum Gyrðis.
Þó er engan veginn hægt að segja að bókin fjalli beint um þennan nútíma, hún fjallar, eins og áður segir, fyrst og fremst um einmanaleika, eins og svo mörg fyrri verka höfundar, og svo auðvitað tré. Það sem er hinsvegar eftirtektarvert er að sjá hversu vel þessar vísanir til nútíma, frá velmegun til virkjana, falla að kunnuglegum heimi Gyrðis; þær hafa ekki skaðleg áhrif eins og aðdáendur hans gætu kannski óttast (enda er þetta ekki fyrsta né eina dæmið um slíkar vísanir, það er aðallega magnið og vægi þeirra innan textans sem vekur athygli). Sem fyrr fangar sagan sérstakan andblæ horfinna tíma, eða jafnvel tíma sem aldrei voru til, hið dulúðuga andrúmsloft sem Gyrðir hefur svo fullkomlega á færi sínu er í engu truflað af þeim nútímalegu augnablikum sem andartak rölta inn í sjónmál sögunnar, eins og útlend kanína sem gerir sig heimakomna í íslenskum skógi.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007