Beint í efni

Selta. Apókrýfa úr ævi landlæknis

Selta. Apókrýfa úr ævi landlæknis
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

 

Hér á eftir fylgir skýrslan af Ohne-Lise Jonsdóttur og örlögum hennar, ásamt frásögnum af vinum mínum Mister Undertaker, servantsstúlku á hæli og ferð yfir land.

Einkum og sér í lagi er þessi skýrsla þó rituð um fjörusteina, hvalhræ og sandorpin kríuegg, og um drenginn sem flaut upp í fjöru til mín aldraðs manns undir fjalli fyrir hálfu ári. Hann er framtíðin. Fyndnihestur, Sýruson, Sandsinni. Þið verðið að taka vel á móti honum.

Til Félagsráðsins í Kaupmannahöfn, 13. október 1839.

Virðingarfyllst, L.

(bls. 5)

Í köldum ágústmánuði árið 1839 er landlæknir ræstur út um miðja nótt. Í fjörunni neðan við Hjörleifshöfða liggur dökkleitur ungur drengur umvafinn þangi. Drengurinn brosir við fundinn, hann vill ekki deyja. Ætli hann hafi fallið frá borði máraskips? Nei, honum hefur verið komið fyrir af dularfullum manni sem reynir að komast undan á hlaupum. Aldraður landlæknir reynir að stöðva hann en fúlskeggjaði maðurinn snýr hann auðveldlega niður. “Ég kom með hann til þín, því þú ert sá eini sem getur passað hann” (16).

Svona hefst einkennileg og ítarleg skýrsla frá 19. öld, sem er form nýjustu skáldsögu Sölva Björns Sigurðssonar, Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis (2019). Hér steypir Sölvi sér á bólakaf í hefðir náttúrurannsókna og ferðasagna fyrri alda ásamt því að kanna hugarheim þeirra sem þurftu að þreyja þorrann á Íslandi í kjölfar Skaftáreldanna og kryddar upp á það með dassi af ráðgátusögu. Upphafssíða verksins, sem sjá má hér að ofan, dregur saman efni verksins á skilmerkilegan máta — eins og góðri skýrslu sæmir. Í stað þess að halda sig eingöngu við hefðbundin umfjöllunarefni sem varða Félagsráð í Kaupmannahöfn — náttúrulýsingar, tíðarfar, o.s.frv. (sem þó nóg er af) — ákveður landlæknir að víkja út af hefðinni og rekja þá sérkennilegu atburðarás sem hefst í kjölfar óvæntrar komu drengsins sem reynist tengjast fortíð landlæknis í Kaupmannahöfn og Belgíu.

Mister Undertaker fylgdi landlækninum til Íslands áratugum áður og starfar nú sem póstmaður á Söndum. Hann kemur ráðgátusögunni í gang þar sem hann telur dularfulla manninn sem kom drengnum fyrir í fjörunni vera Aðalbjörn Hásson norður úr Skagafirði. Landlæknir óttast að geta ekki séð fyrir drengnum því hann telur sig ekki eiga langt eftir ólifað. Þar sem drengurinn er málhaltur og á erfitt með að tjá sig um hvaðan hann kom eða hverjir foreldrar hans eru sér landlæknir ekki annars kostar völ en að fara með drenginn aftur í Skagafjörð, þrátt fyrir að Aðalbjörn Hásson beri orð á sér fyrir að vera ódæll og óvæginn í garð nágranna sinna. Landlæknir, drengurinn, Mister Undertaker og hestarnir Maltus og Kex leggja í svaðilför til að koma drengnum heim. Milli þess að vaða yfir háskalegar jökulár, kafa ofan í hvalshræ og fara í læknisheimsóknir á afskekkta bæi minnist landlæknir námsára sinna. Lesendur skýrslunnar fá glefsur af árum landlæknis úti í Kaupmannahöfn og kynnast ástinni í lífi hans sem hvarf, og smám saman tekur fortíðin á sig skýrari mynd.

Við lestur skýrslunnar ætti hverjum sem er að vera ljóst að lífið er barátta, þá sérstaklega á Íslandi eftir Skaftárelda. Fólk er hungrað og uppskerubrestir eru tíðir. Landlæknir lýsir í skýrslu sinni aumri tilveru fólks sem þrátt fyrir svengd og þreytu eyðir sinni litlu orku í að beita sveitunga sínu ofbeldi. Karlmenn finna minnsta tilefni til að rota hvorn annan og aðrir taka örvæntingu sína út sakleysingjum. Bóndi nokkur brennir ungabarn sitt inni í ölæði og reynir svo að fyrirfara sér. En fólki stafar ekki bara ógn af hvoru öðru, mesta hættan fellst í hversdagslegu lífsbaráttunni. Sakleysisleg för einstæðra mæðgna yfir hraunbreiðu endar með því að móðirin handleggsbrotnar. Gífurlega nákvæm lýsing á því þegar landlæknir neyðist til að saga höndina af konunni til að bjarga lífi hennar er nístandi áminning um blákaldan raunveruleika þeirra sem voru uppi á þessum hrikalegu tímum. En þrátt fyrir hráslagalegt umhverfi persónanna í verkinu og það gífurlega mótlæti sem þær mæta glittir ávallt í örðu af von. Lífið reynir að brjótast fram hvarvetna í sögu Sölva. Smáblóm spretta upp úr gjóskugröfnum hraunbreiðum, fjörulagður drengur kemst til lífs, brotnar fjölskyldur ná saman, forvitið fólk auðgar hugann með erlendum vísindum á hjara veraldar og útborin börn vaxa úr grasi og hlúa að þeim sem minnst mega sín.

Þau vita öll, og ekki síst hestarnir, að ég á eitthvað smá betra en gras inni í bæ. Svo ég geng aftur inn og næ í rúgbrauð. Oft hefur fólk freistast til að seilast í þá fæðu, ef það á hana, á þessum eftireldadögum. Það skil ég vel. Hross liggja morgundauð í högum. Hrafnabráð er víða og vart um þann blett hugsað sem ei verður einhverjum að bráð. Fólk er hungrað hér og sér fremur um börn sín en hesta. Útburður nýfæddra er þó vart merkjandi og er ályktun mín af því helst sú að fámenni kallar á samheldni. Staðfesting á tilverurétti í svo aumu landi fátæktar virðist sterkari en hungur. (59)

Á heildina litið er bókin afar vel skrifuð enda hefur Sölvi sannað það margoft í gegnum fjölbreyttan feril sinn að hann hefur gífurlegt vald á tungumálinu og getur auðveldlega klætt sig í gervi hinna ýmsu stíla. Verk Sölva má flokka undir tvær meginraddir, en aðdáendur þjóðlegri og orðskrúðugri sagna hans munu finna sér margt að skapi í Seltu — hvort sem það er dýpri skilningur á lífsbaráttu forfeðra okkar í kjölfar náttúruhamfara, nærgætin skoðun á heimsýn fólks þess tíma eða ægifagrar náttúrulýsingar.

 

Már Másson Maack, mars 2020