Einn eða tveir Íslendingar fara utan ár hvert í ýmsum tilgangi. Fyrir ekki svo löngu voru tíðar auglýsingar á skjám landsmanna sem kynntu hina og þessa viðskiptaklassa, sértilbúinn lífsstíl innan flugumferðarinnar sem hæfði sérþörfum bústinna og brosmildra burgeisa. Í einni slíkri gerir ónefndur ritari sitt besta til að hlæja ekki upp í opið geðið á aumingjanum úti í bæ sem gerðist svo einfaldur að spyrja á þá leið: ,,Er hann þá væntanlegur í fyrramálið?“ Nú gat pabbi flogið til Lúxemborgar til að fá kvittun á samning og verið kominn aftur heim í kvöldmat. Hin áttatíu prósentin af farþegum frá Íslandi út í hinn víða heim samanstóðu af bjarteygum au-pair stúlkum og meðaljónum á leið í frí, hvorugur þessara hópa myndi fljúga heim samdægurs og þeir þurftu enga sérmeðferð. Síðarnefndi hópurinn byrjaði gjarnan að drekka í Leifsstöð og hætti ekki fyrr en nóttina fyrir flugið heim. Auglýsingar hafa sosum aldrei snúist um veruleika, en það er snúið að finna sjónvarpsvænt sjónarhorn á þesskonar reisu.
Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson segir frá mæðginum sem tilheyra þessum síðastnefnda hópi en þó aðeins að vissu marki. Fylliríið í útlandinu er mikilvægur liður í reisu þeirra en eftir hana verður engin þreytuleg flugferð heim til Keflavíkur, að minnsta kosti ekki fyrir móðurina: Hún er komin til Láglands til að deyja.
Eva Bríem Þórarinsdóttir og Hermann Willyson (eða Dáti, eins og sögumaðurinn er kallaður) fljúga til Amsterdam og halda þaðan á meðferðarheimilið / líknarstofnunina Libertas á Láglandi skömmu fyrir Hrun. Á sjötugsaldri hefur Eva greinst með beinkrabbamein og sonur hennar hefur skipulagt ferðina í þeim tilgangi að gera síðustu daga móður sinnar sem ánægjulegasta; að prófa nýtt kraftaverkalyf sem notað er í Libertas; og að gefa Evu tækifæri á að binda enda á líf sitt ef allt fer á versta veg. Á milli þess sem Dáti segir frá ævintýrum ferðarinnar fer hann aftur í tíma og greinir frá lífi sínu og móður sinnar heima á Íslandi. Þótt það sé aldrei sagt berum orðum er kraftaverkalyfið Úkran þó líklega aldrei meira en átylla sem fólk gefur sjálfu sér og öðrum til að koma sér fyrir á líknarstofnun, enda benda bæði titillinn og fyrstu línur bókarinnar til þess að ferðin endi aðeins í dauða. Þetta er því síðasta fylliríið sem þessi annars vel blautu mæðgin fara á saman, nú skal kveðja með stæl.
Það að skilja við hversdaginn, gefa sig á vald drykkju og eiturlyfja á fjarlægum stað og húrra niður brekkuna í átt að dauðanum er ekki óþekkt saga og mætti e.t.v kalla bókmenntahefð út af fyrir sig. Af nýlegum dæmum mætti nefna Hugsjónadruslu Eiríks Arnar Norðdahl, Steinar Braga og Himinninn yfir Þingvöllum, já eða kvikmyndina Leaving Las Vegas. ,,Eitur! Meira eitur! / Ör vil ég dansa og heitur” orti Sveinn Jónsson framtíðarskáld fyrir tæpri öld, vaðandi í rómantík og úrkynjun. Í Árstíð í helvíti, sem Sölvi þýddi á íslensku og gaf út fyrir um ári síðan, kveður Rimbaud: ,,Mitt hungur, á hljómsins grund / haltu á burt. / Vektu fram eitur vænt / úr vafningsjurt.“ Örfáum árum áður bað landi hans Baudelaire lesendur sína að fara nú að ölvast í öllum guðanna bænum, og síðan drakk hann sig og reykti ofan í jörðina.
Í Síðustu dögum móður minnar eru hins vegar skörp skil milli ofneyslu og dauða. Drykkja mæðginana er á stundum yfirgengileg en henni er ekki ætlað að minnka dauðann eða gera hann rómantískan á nokkurn hátt. Þegar henni sleppir situr krabbameinið enn eftir, dauðinn er hægur, sársaukafullur og viss. Þannig veltir bókin upp spurningum um sjálfseyðileggingu, sjálfsmorð og líknardauða. Hvaða munur er á því að drekka sig til dauða á götum úti – sem er umborið og jafnvel sveipað tragískum ljóma í skáldskap – og að drekka barbital í umsjá læknis – sem varðar víðast hvar við lög? Íslensku bankarnir hrynja um það leyti sem Evu snarversnar og áhrifanna gætir ekki síst í Hollandi, í framhaldi kemur fram mjúk tenging við kreppuna sem virðist reyndar óþörf, en Sölvi fer engu að síður fimlega með.
Jafnvel þótt ýmsar litríkar persónur komi fyrir í sögunni er þeim haldið vandlega til hliðar og þau Dáti og Eva alltaf í forgrunni. Persónur þeirra eru vel mótaðar og samskipti þeirra lifandi og sönn. Það má jafnvel segja að of vel takist til á stundum, en það fer eflaust eftir því hversu hátt þol lesandinn hefur fyrir óþolandi einstaklingum, sem Eva svo sannarlega er. Sá þorri þjóðarinnar sem hefur unun af píndum og pínandi slúbbertum Nætur-, Dag- og Fangavakta hefur eflaust smekk fyrir henni en undirritaður þurfti að hafa sig við fyrstu 50 síðurnar eða svo.
Stíllinn er oftast nær léttur og skýr, það er helst þegar Dáti hefur sig til flugs í lýsingum eða pælingum sem hann verður frekar skrautlegur og dettur þá ofan í þunglamalegar líkingar jafn oft og hann kastar fram nettri mynd: Fyrir hvert ,,titrandi kjötsverð“ eða ,,fólk sem hjalaði við rökkrið” eru einhverjir ,,líkir hreyfanlegum blóðmör“ eða ,,jafn hringlaga og möndulsnúningur jarðar.” Að öðru leyti rennur sagan áfram af öryggi líkt og lækur að sjó: persónur koma og fara, litlar fléttur myndast og leysast án þess að neitt stórkostlegt dragi til tíðinda, enda er þetta fyrst og síðast einföld og falleg frásögn af fjölskyldu, ást og dauða. Síðasti dagurinn er sannfærandi og endalokin yfirhöfuð sérstaklega vel heppnuð, og mikið óskaplega gleður það hjartað að verki, sem snýst að svo miklu leyti um undirbúin endalok, skuli ljúka með svo miklum glæsibrag.
Björn Unnar Valsson, desember 2009