Beint í efni

Siglingin um síkin

Siglingin um síkin
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Frásagnir, vitund um fortíð, skáldskapur, elli, valdaleysi, sjálfsmynd, minni og gleymska eru meðal viðfangsefna nýjustu skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Siglingin um síkin. Aðalpersónan og sögumaðurinn, Gyða, er gömul kona sem glímir við einhvers konar minnisglöp. Hún býr á heimili sonar síns, að því er virðist tímabundið, og þarf að finna sér leiðir til að ráða við veruleikann, hversdaginn, soninn og aðstoðarkonuna Elenu, en ekki síður fortíðina, sem birtist henni á margvíslegan máta í verkinu.

Í sögumanninum má sjá fjölmargar tengingar við önnur verk Álfrúnar, einkum Yfir Ebrofljótið og ¡Rán!. Það er ekki síst valdaleysi Gyðu sem minnir á sögumanninn úr fyrrnefndu bókinni, en henni er haldið að því er virðist í eins konar stofufangelsi þar sem hún er uppá aðra komin með daglegar þarfir, en einnig tökin á sjálfsmyndinni og fortíðinni, þar sem hún getur ekki reitt sig á eigið minni lengur. Það má þó ekki líta á hana sem veikburða á nokkurn máta, því hér er kraftakona á ferð, sem fer sínar eigin leiðir og virðist alltaf hafa gert það, hefur sterkar og frískandi skoðanir á mönnum og málefnum, er óþolinmóð gagnvart viðtekinni hugsun og sinnuleysi samtímans.

Minni og frásögn eru nátengd fyrirbæri og stundum sagt að frásögn væri ekki möguleg án minnis. Þetta fær söguhetja okkar að kljást við þegar hún reynir að púsla saman heillegri frásögn af fortíðinni. Það eru alls konar truflanir, eyður, ólíklegir atburðir sem passa ekki inn í myndina. Hún er líka trufluð í þessu af röddum í textanum sem grafa undan tilraunum hennar. Verkið er þannig uppfullt af meta-orðræðu, þ.e. það vísar margoft í sjálft sig sem skáldskap, er meðvitað um eigin tilbúning. Það fjallar nefnilega ekki síst um sköpun, sköpun skáldskapar og sköpun sagna um óræða fortíð. Í skáletruðum köflum sem koma fyrir af og til í verkinu ræða tvær raddir saman um stefnu sögunnar; við virðumst vera á siglingu á síkjum frásagnarinnar sem eru villukennd og skuggaleg á köflum, þar grúfir líka þoka yfir sem ræðarinn vonast til að létti. Sögumaður er meðvitaður um sinn þátt, enda segir hann að „þegar sagt er frá er verið að miðla efni til annarrar manneskju og þýðir þá ekki að stunda sjálfshyggju og loka sig inn í prívatveröld sem er full af táknum og hefur takmarkaða skírskotun út fyrir sig“ (s. 71-1). Sú er ekki raunin hér enda hefur verkið hefur ýmiss konar vísanir í samtímann, félagslegar og  pólitískar, ekki síst í frásögn Elenu frá Kolumbíu, en sú frásögn speglar einnig íslenska bankahrunið sem kemur margvíslega við sögu í verkinu. Sögusviðið er kunnuglegt og framandi í senn, einn af miðpunktunum eru svo dæmi sé tekið tröppur Reykjavíkurapóteks þar sem samtíminn og fortíðin mætast, draumur og veruleiki.

Eins og höfundar er von og vísa þá er hér búið ákaflega vel um alla þræði. Formið er tilraunakenndara en oft áður, sjálfsvísanirnar létt leikandi og skemmtilegar og aðalpersónan grípandi, aðlaðandi og fráhindrandi í senn. Í grein Álfrúnar „Að blekkja eða blekkja ekki“ (Skírnir haust 1994) þar sem birtust svör hennar við grein Páls Skúlasonar „Spurningar til rithöfunda“ (Skírnir haust 1990), leggur Álfrún áherslu á frelsi rithöfundarins til að skapa, til að „blekkja“ lesanda sem vill láta blekkjast og segir: „takmörk skáldkapar eru lítil miðað við mannlífið sem er aðeins eitt, en kannski vildum við hafa níu líf eins og kötturinn [...] Og ósjaldan erum við leynt eða ljóst haldin löngunum sem oft reynist erfitt að uppfylla. Án hugarflugs og drauma getum við samt ekki lifað. Undir allt þetta ýtir góður skáldskapur“ (s. 481-2). Og það á svo sannarlega við um þetta verk, uppfullt af sögum af sköpun og ímyndun, frásagnarkrafti sem tekst á við fortíð og samtíð á sérstaklega frjóan máta.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2012