Beint í efni

Sigurverkið

Sigurverkið
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þegar Arnaldur Indriðason sendir frá sér nýja skáldsögu eiga líklega flestir von á glæpasögu,  morðgátu sem er kannski með svolitlu sögulegu ívafi, enda hefur Arnaldur skrifað 24 glæpasögur sem notið hafa mikilla vinsælda meðal lesenda. Síðustu ár hefur hann sótt æ meiri efnivið í fortíðina og í nýjustu skáldsögu sinni Sigurverkinu stígur hann skrefið til fulls og skrifar nú sögulega skáldsögu. Sagan gerist á átjándu öld og hverfist að miklu leyti um sögulega atburði sem áttu sér stað í Sauðlauksdal á Vestfjörðum, skömmu eftir að móðuharðindin og stórabóla höfðu leikið þjóðina grátt. Danski konungurinn var þá æðsti valdhafinn á Íslandi og sýslumenn, fulltrúar hans, sáu um að halda uppi lögum og reglu. Stóridómur hafði verið við lýði um nokkurt skeið, en það voru lög sem höfðu verið sett á hér á landi til að taka af hörku á hvers kyns lauslæti, sifjaspellum og hórdómi. Þyngsta refsingin var dauðadómur og lá við svo kölluðum legorðsbrotum, barneignum fólks sem ekki mátti eigast samkvæmt lögum. Sigurverkið segir öðrum þræði frá dómsmáli um miðbik aldarinnar, þar sem bóndinn Sigurður og Guðrún ráðskona hans eru sótt til saka og dæmd eftir Stóradómi fyrir legorðsbrot og mannvillu, sem var rangfeðrun barns.

Sagan hefst þó nokkru síðar, undir lok átjándu aldarinnar, þegar sonur Sigurðar, Jón Sívertsen úrsmiður í Kaupmannahöfn, er kallaður í höll konungs til að gera við klukku. Jón er ekkill með uppkomin börn og lætur sér leiðast í einverunni eftir andlát eiginkonunnar. Þegar viðgerðinni á klukkunni er lokið ákveður Jón að nýta tækifærið og reyna að hafa uppi á annarri klukku sem hann veit að á að leynast í höllinni. Sú er með afar flóknu gangverki, eða sigurverki, og er smíðuð af frægum úrsmið, en þegar Jón finnur klukkuna er hún töluvert skemmd og ógangfær með öllu. Jóni finnst skyndilega eins og það sé köllun hans að gera við gripinn, þó margir færir úrsmiðir hafi reynt það og ekki tekist.

Hann fer að venja komur sínar í geymslur konungs til að sinna viðgerðinni og ekki líður á löngu þangað til Kristján VII sjálfur rekst inn til hans á randi um höllina. Jón hefur heyrt að konungurinn sé orðinn valdalaus vegna andlegra veikinda sinna og þegar þeir hittast í fyrsta sinn er hann afar lítið konunglegur, bæði reittur og úfinn og nokkuð við skál. Jóni er brugðið við heimsóknina og þorir ekki öðru en að svara konungi sem vill vita hver hann er og hvað hann sé að vilja þarna í leyfisleysi. Þegar Jón gerir grein fyrir sér missir hann út úr sér að faðir hans og ráðskona föðurins hafi verið dæmd og tekin af lífi á Íslandi nokkrum áratugum fyrr, en hafi verið saklaus og ekki hlotið sanngjarna meðferð sýslumanns. Konungur firrist við og vill skýringar á þessum ásökunum í garð fulltrúa konungsveldisins og Jón neyðist til að segja sögu föður síns og Guðrúnar eða vera refsað fyrir að tala svo óvarlega.

Jón segir söguna í nokkrum atrennum þegar konungur rambar af og til inn til hans í geymsluna eða lætur kalla eftir honum við ýmsar aðstæður, að sjúkrabeði sínu eða jafnvel á hóruhús í borginni. Þess í milli gerir Jón við klukkuna og reynir að átta sig úrverkinu og gangi þess, hvaða parta vantar og hvað þarf að smíða upp á nýtt. Gangur tímans og forgengileiki hans verður Jóni hugleikinn á meðan hann vinnur, samhliða því að hann rifjar upp löngu liðna æsku sína á Íslandi og örlög föður síns. Lýsingar á viðgerð Jóns á klukkunni frægu, á samskiptum hans við konunginn og á lífinu í höllinni sem Jón verður þátttakandi í, mynda algera andstæðu við frásögnina af lífinu í Sauðlauksdal.

Glæpur Sigurðar og Guðrúnar er ekki merkilegur á nútíma mælikvarða, þau eignast saman barn utan hjónabands og mega ekki eigast af ástæðum sem Jón rekur í sögunni. Þau reyna auk þess að rangfeðra barnið til að komast undan réttvísinni. Jón rekur forsögu málsins nokkuð ítarlega fyrir konungi og segir frá því hvernig sýslumaður hafi haft horn í síðu þeirra beggja frá upphafi, þau hafi ekki átt sér viðreisnar von þrátt fyrir að ýmsir hafi reynt að hjálpa þeim. Hann rekur einnig ýmsa atburði úr æsku sinni og sveitinni þar sem hann ólst upp og gerir sitt besta til að koma því að við konunginn hvernig ástatt er fyrir þegnum hans á Íslandi, sem búa flestir við mikla fátækt og vosbúð.

Jón veltir hlutverki sínu sem sögumaður reglulega fyrir sér í gegnum frásögn sína og samskiptin við konunginn:

Jón vildi ekki lenda í stælum við konung. Hann hafði áður velt fyrir sér ábyrgð sinni sem sögumaður, hvernig hann ætti að greina satt og rétt frá, og taldi sig ekki hafa vikið í stórum dráttum frá sannleikanum þótt eitthvað hefði hann ef til vill hnikað honum til. Voru lýsingarnar krassandi? Má vera. Áheyrandinn átti það til að sofna í stólnum hjá honum og Jóni fannst að hann mætti nota það sem hann áleit vera væg meðul til þess að halda athygli hans vakandi, bragðbæta söguna ef svo mætti segja, fá hjartað til að slá hraðar. (132)

Þegar hann hefst handa við frásögnina finnur Jón fyrir mikilli ábyrgð því hann vill segja þannig frá að málsatvik verði ljós og óréttlætið sem hann telur að faðir hans og Guðrún hafi verið beitt komi fram, en hann verður samt að gæta orða sinna. Jón er góður sögumaður og sagan er jafn hrífandi og hún er sorgleg, en hans hátign er ekki alltaf ánægður með sjónarhornið og lýsingar Jóns. Hann sakar Jón um að færa í stílinn til að hafa áhrif á sig og vænir hann reglulega um undirferli og lygar, en verður engu að síður stöðugt sólgnari í að heyra meira af sögunni. Þegar fram líða stundir kemst Jón að því eftir krókaleiðum að saga hans valdi konungi nokkru hugarangri, en ástæðan fyrir því er önnur en Jón hefði vonast eftir.

Stéttarmunur og ólíkur bakgrunnur Jóns og Kristjáns VII gera að verkum að samskipti þeirra verða oft og tíðum svolítið skondin. Almúgamaðurinn Jón á það til að gæta ekki að sér og segja eitthvað óviðeigandi eða framhleypið við konunginn og þarf svo að draga í land í miklu fáti með smjaðri og sjálfsniðurrifi til að friða hans hátign. Hann verður að auki vitni að alls kyns uppákomum í kringum konunginn, sem er óútreiknanlegur og kemur Jóni í stöðug vandræði við hirðina með uppþotum og óvæntum játningum um æsku sína og fortíð, sem vesæll úrsmiður hefur ekkert að gera með að vita.

Arnaldur nýtir sér sögulega atburði og misþekktar sögulegar persónur til að undirbyggja söguna. Skáldskap og þekktum staðreyndum er fléttað saman, spunnið út frá þeim og fyllt í eyðurnar. Lýsingar á Kristjáni VII, börnum hans og hirð eru í nokkru samræmi við það sem lesa má um í sögubókum, og úrsmiðurinn Jón Sívertsen, faðir hans og Guðrún byggja líka öll á raunverulegu fólki. Nokkrir þekktir einstaklingar úr Íslandssögunni koma þá einnig við sögu, svo sem upplýsingarmaðurinn Eggert Ólafsson skáld sem hefur mikil áhrif á Jón ungan í sögunni, sýslumaðurinn Ólafur sem dæmir Sigurð og Guðrúnu og Kjartan Scheving arftaki hans í embætti sem reynir að fá þau sýknuð. Klukkan sem Jón ákveður að gera við er svo til sýnis í Rósenborgarhöll í Kaupmannahöfn og geta áhugasamir sem eiga leið þar um borið hana augum, nú eða skoðað hana á heimasíðu hallarinnar.

Sigurverkið er afar grípandi og vel skrifuð saga. Heimarnir tveir sem mætast í henni, bændasamfélagið á Íslandi sem upplýsingin hefur ekki enn náð til og höfuðborgin Kaupmannahöfn mynda skarpar andstæður. Persónur eru áhugaverðar og marglaga, Jón glímir við sjálfan sig og samvisku sína í frásögn sinni og Kristján VII konungur verður mennskari eftir því sem Jón fær að kynnast honum betur. Örlög Sigurðar og Guðrúnar eru hrikaleg, en þau sættast við hlutskipti sitt að því marki sem það er hægt í þeirra stöðu. Sagan vekur til umhugsunar um hvernig líf venjulegs fólks gat verið á Íslandi á öldum áður, fólks sem bjó ekki aðeins við fátækt og sult heldur þurfti stöðugt að óttast yfirvöld og fjarlægan konung sem hafði algert vald yfir þeim.
 

María Bjarkadóttir, nóvember 2021