Beint í efni

Silfurlykillinn

Silfurlykillinn
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Maríanna Clara Lúthersdóttir

Umhverfismál eru barnabókahöfundum ofarlega í huga þessi misserin og ekki að undra þar sem framtíð sú sem bíður barna nútímans vægast sagt ótrygg og skelfileg arfleið sem eldri kynslóðir skilja eftir sig. Slíkar fantasíur eiga miklum vinsældum að fagna þótt í raun séu „fantasíur“ mögulega rangnefni þar sem þær lýsa ekki neinum dystópíum heldur jafnvel nálægri framtíð. Slíkt verk er nýjasta bók Sigrúnar Eldjárn, Silfurlykillinn. Hún gerist í óskilgreindri framtíð eftir hrun siðmenningar. Þar er ekkert rafmagn, engar vélar, engin kerfi og engar bækur. Þar liggur raunar hundurinn grafinn því í bókunum felst einmitt þekkingin sem liggur að baki allri tækni og öllum kerfum. 

Hér segir frá systkinunum Sumarliða og Sóldísi sem ásamt föður sínum og kisunni Bröndu flytja inn í gamlan, hjólalausan strætó. Fyrir tilviljun kynnist litla fjölskyldan stúlkunni Karítas sem er nýskriðin út í lífið eftir að hafa alið allan sinn aldur í kjallarahvelfingu ásamt langömmu sinni. En nú er langamma dáin og Karítas fylgir fyrirmælum hennar um að fara út, finna „gott fólk“ og trúa því fyrir því allra mikilvægasta – því sem er geymt í kjallarahvelfingunum. Djúpt í vasanum geymir Karítas lykillinn að kjallaranum og hún verður að gæta hans vel.

Heimurinn, sem dreginn, er upp í bókinni er magnaður og spennandi. Hvernig fer fólk að í heimi án eiginlegs samfélags, án allrar tækni, án peninga? Frásögnin er létt og leikandi enda sögð frá sjónarhóli barnanna. En á bak við ævintýri þeirra liggur annar og skuggalegri veruleiki. Frumskógarlögmálið gildir og þegar fjölskyldan flytur inn í strætó nr. sjö er það ekki fyrirhafnarlaust: „Pabbi þurfti meira að segja að sparka í einn kallinn til að tryggja sér húsnæðið. Eftir að hafa gert það varð hann að slaka á og hvíla sig undir teppi dágóða stund, því þótt pabbi sé bæði stór og sterkur finnst honum hrikalega erfitt að meiða nokkurn mann.“ (bls. 6) Flestir virðast lifa nokkurs konar hjarðlífi, flakka um og leita að ætum plöntum, veiða sér til matar enda stærsta verkefnið á hverjum degi að afla matar. Hér eru engir peningar en sniðugt og duglegt fólk (eða börn) getur fundið alls kyns skrítna og gamla muni í húsarústum og ruslahaugum og skipt fyrir mat eða annan varning. 

Höfundur stillir veruleika frásagnarinnar upp við hlið þess sem lesandinn þekkir. Við sjáum að börnin sakna margs sem þykir sjálfsagt í okkar heimi – en það er kannski ekki alveg fyrirsjáanlegt hvers þau sakna. Börnin eru hamingjusöm en það myndi muna miklu að hafa öruggt húsnæði og geta verið örugg fyrir rumpulýð sem ógnar þeim. Það væri gott að hafa betra aðgengi að mat og þegar Sóldís dettur ofan í sprungu segir pabbi þeim frá því að þegar afi var lítill hafi verið hægt að hringja í símanúmer og þá kom einhver umsvifalaust og hjálpaði! Þetta finnst öllum stórfengleg hugmynd – og mikil synd að hún nýtist ekki nú. Sumt af því sem pabbi segir þeim hljómar reyndar alveg út í hött – eins og að einu sinni hafi verið fullt af svona strætóum eins og þau búa í og þeir hafi verið á hjólum og keyrt út um allt. Þetta finnst krökkunum heldur fjarstæðukennt: „Sóldís rekur upp skellihlátur og krullurnar dansa á höfði hennar. Þetta er nú aldeilis fyndin hugmynd. Hús sem keyra út um allar koppagrundir!“ (bls. 8) Með því að láta börnin finna gamla muni úr samtíma okkar og láta þau giska á hvernig í ósköpunum sé hægt að nota slíkt fær lesandinn tækifæri til að velta fyrir sér gildi og mikilvægi hvers hlutar. Tölvur nýtast aðallega sem skjólveggir, sé þeim hlaðið upp. Fáir kunna að lesa en krakkarnir eiga eina bók (sem svo skemmtilega vill til að er Bétveir, Bétveir eftir Sigrúnu Eldjárn) og þykir hún mikill dýrðgripur. Pabbi þeirra man þá tíma þegar fjölmargar bækur voru til en nú eru þær flestar eyðilagðar, notaðar til upphitunar eða til einagrunar. Þannig kallast framtíðarörlög bókanna á við skinnhandritin okkar gömlu – munurinn er kannski sá að skinnhandritin voru gerð úr endingarbetra efni og þoldu betur meðferðina en pappírinn. 

Sigrún leitast við að skapa sannfærandi en kannski fyrst og fremst líflega og skemmtilega mynd af gjörbreyttum heimi. Hún fyllir ekki út í hvert smáatriði en dregur grófum dráttum. Þannig má spyrja sig hvaðan nútímalegir strigaskór barnanna komi – og eins má setja spurningarmerki við samlokurnar sem Sóldís skilur eftir handa Karítas. Í fyrsta lagi er óútskýrt hvaðan brauðið kemur og hins vegar má teljast afar ólíklegt að enginn taki eftir því að svo stórir skammtar af mat hverfi þegar fólk er jafn aðþrengt um matvæli og gefið er í skyn. Þá má teljast ótrúlegt hvað Karítas er fljót að aðlagast lífinu utan kjallarans eftir að hafa verið föst þar allt sitt líf. Hún á ekki neinum vandræðum með að ganga, hlaupa og er jafnvel mjög fær í að klifra í trjám. Þau göt sem finna má í sögufléttunni eru þó smáatriði í spennandi og skemmtilegri bók þar sem flest annað gengur upp. Enda er Silfurlykillinn ævintýri, þótt veruleikinn sem lýst er geti verið nær en okkur grunar. Börnin eru hugrökk og úrræðagóð – ólík en bæta hvert annað upp. Hér gildir að nota heilann og hjartað og þora að treysta og þora að stökkva. Í lok bókar kemur í ljós að hverju silfurlykill Karítasar gengur og þá fyrst mun reyna á fjölskylduna. Höfundur skilur við börnin og lesendur með von í hjarta. Mannkynið fær annað tækifæri, lykillinn að nýjum heimi er í höndunum barnana – og nú er bara að vona að þau hafi hugvit og hjartalag til að nota hann rétt. 
 

Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018