Beint í efni

Sjáðu fegurð þína

Sjáðu fegurð þína
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„...himinborna dís” segir í vinsælu ljóði Davíðs Stefánssonar, en ljóðlínan spratt fram þegar ég sá titilinn á ljóðabókinni Sjáðu fegurð þína. Óneitanlega er þó fátt sem ber saman þeim ofurljúfa texta og frekar grimmlyndum ljóðum Kristínar Ómarsdóttur - annað en hugmyndin um að eitthvað ómi og syngi og flæði um hugann sem ekki er auðvelt að festa hendur á.

Hér er fjallað um skáld og gagnrýnendur og dauðann og kynlíf. Samt finnst mér eins og aðalviðfangsefnið sé ævintýri, stungið undurfurðu í anda Tim Burtons eða jafnvel japanskra teiknimynda sem einmitt blanda óhikað saman því vandræðalega, undurfallega, grimma og óvænta. Kristín Ómarsdóttir er ekki bara höfundur sem fer sínar eigin leiðir, hún býr þær til jafnóðum. Skáldsögur hennar eru stöðugur leikur með form sem á stundum leysist upp í einskonar smásögur, líkt og smásögurnar mynda óljósa heild, líkt og örsögurnar minna á ljóðin og ljóðin á leikrit. Þannig er Sjáðu fegurð þína einskonar safnbók eiginlega, næstum því dulítil saga - endurtekin stef - næstum því örsagnasafn með leikritaívafi, en auðvitað barasta ljóðabók, því ljóðið er svo víðfeðmt að það rúmar allt.

Við byrjum á leiðsöguljóði, vel til föllnu til að leiða lesanda inn í þá króka og kima ljóðlistar, hugmynda og ólíkra heima sem birtast í bókinni. Skáld fylgir leiðsögumanni sem fer fyrir hópi „úlpuklæddra túrista” og tilkynnir að nú séu skáldin næsta útdauð, eða hvað? Allavega er af þeim nálykt („Leiðsögn”). Ekki samt halda að þau séu horfin úr bókinni, seinna taka þau gagnrýnanda höndum (hann öðlast nýjan skilning á skáldskap í „Skáld taka gagnrýnanda höndum”) og enn síðar eru þau á vappi um leikfangabúðir („Úr leikfangabúð”) að „blása ryki skáldskaparanis yfir leikföngin. Eins og dísir í ævintýrum þyrla þau dufti úr töfrasprota - þess vegna lifnar dótið við í höndum barnanna.”

Þetta ævintýratema birtist í ýmsum myndum í bókinni, borgarmynd úr pappír rís upp og hetja semur óð til eilífrar æsku (með tilheyrandi ótta við það að eldast) og svo er eitt ljóð ort til skuggans. Ekki má heldur gleyma einskonar Öskubuskuljóði („velmektardagur”), en þar klæðir kona sig töfravoðum náttúrunnar, fer í leikhús „í síðkjól úr hríslum / bar hálsmen þrætt ánamöðkum”: „handtaskan úr bleki / sokkar úr munnvatni / hælaháir blágrýtisskór.” Ljóðið er gott dæmi um nálgun Kristínar á ‘náttúruljóð’, en þau eru ákaflega jarðbundin á allan hátt, næstum full af nálykt. Tvö fyrrnefndra ævintýraljóða („hetjukvæði” og „skuggi minn”) vísa sömuleiðis til þess dauðatema sem nær hámarki sínu í ljóðinu „Þetta er ekki búið”, en þar er fegurðardrottning hinna dauðu krýnd.

Hinn efnislegi dauði er þó ekki eini dauðinn sem gengur með brugðinn ljá um bók Kristínar, eins og oft áður í verkum höfundar er dauði hinnar borgaralegu tilveru áberandi og eirir engu. Hér þarf ekki kreppu til, dauði borgarans er löngu kominn og farinn og skilur eftir sig viðeigandi tómleika í ljóðinu um „Heimilisföðurinn” sem vakir á nóttunni og ímyndar sér að hann sé snigill, stingur fótunum í skó sem eru „gjöf frá konunni, / en var það kannski vísbending: / „Farðu, yfirgefðu okkur...”” Í „Íslensku þjóðerniskvæði” býr ljóðmælandi í herberginu Ísland sem er fest með sæstreng við Evrópu og „Lífið gengur sinn vanagang.”

Lífið gengur þó einmitt alls ekki sinn vanagang í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur og fyrir það ber að þakka.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008