Mál og menning, 2010.Titillinn á átjándualdar sögu Ófeigs Sigurðssonar er ansi viðamikill: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Þetta eru alls 25 orð og að auki boðar titillinn nýja tíma. Á sama hátt er umgjörð sögunnar mikilfengleg, en sagan gerist á suðurlandi um miðja átjándu öld, nánar tiltekið árið 1755, en einmitt þá er Kötlugos í fullum gangi með tilheyrandi hamförum, jarðskjálftum, öskufalli og æsingi yfirleitt. Söguhetjan Jón er enginn annar en eldklerkurinn Jón Steingrímsson, sem hér er ungur að árum.
Því miður reynist svo að þessi áhrifamikla umgjörð skýtur skjólshúsi yfir ansi rýrt innihald, en sagan sjálf er furðulega efnislítil. Í káputexta segir að Jón þurfi „að takast á við sína innri djöfla, vonleysi og ótta með því að tengja sig við ástina, Guð og endurreisn Íslands.” Og að auki sé hann „knúinn til þess að horfast í augu við fortíð sína.” Vissulega má segja að atriðin úr fyrri upptalningunni séu til staðar, Jón þarf að taka sig á til að halda lífinu og fræðistarfinu gangandi í hellinum og endurreisn Íslands - hinir nýju tímar - koma nokkuð við sögu, aðallega þó í mynd Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, og Skúla fógeta, sem eru sýndir hér sem birtingarmyndir hugarfarsbreytingar átjándu aldarinnar. Hinsvegar fer þetta uppgjör við fortíðina dálítið fyrir ofan garð og neðan.
Það atriði, uppgjörið sem virðist eiga að bera uppi söguþráðinn eða plottið, er einfaldlega í skötulíki og því verður skáldsagan lítið annað en samsafn sagna, aðallega af þeim tíma þegar þeir bræður Jón og Þorsteinn búa í hellinum, en einnig frá ferð þeirra þangað. Þar nýtir höfundur sér ýmsar misþekktar sagnir frá þessum tíma, byrjar til dæmis á sögunni um föðurinn sem bjargaði barni sínu með því að gefa því að drekka blóð úr brjóstum sínum. Á stundum fer Ófeigur á ævintýralegt flug í lýsingum á hinum ýmsu fyrirburðum og viðburðum sem fylgja hamförunum og vetrarríki landsins og margir slíkir kaflar eru bráðskemmtilegir og glæsilegir. Sömuleiðis er margt forvitnilegt í lýsingum af hellisbúnaðinum, og tilraunum þeirra bræðra til að halda heimili - en þar er það yngri bróðirinn Þorsteinn sem greinilega er maður aðgerða, bæði innan húss og utan. Jón er bókabéusinn en hann hefur jafnframt það göfuga markmið að uppfræða alþýðuna og kennir meðal annars sund eftir að hafa horft upp á fiskimenn drukkna í flæðarmálinu.
Ófeigur fangar andrúmsloft tímabilsins ágætlega, bæði í tungumáli og með tilvísunum til skrifa um átjándu öldina, til dæmis kafla Matthíasar Viðars Sæmundssonar í Íslenskri bókmenntasögu III, en þar gerir hann fjallgöngu Eggerts og Bjarna á Heklu að einskonar táknrænu upphafi upplýsingaraldarinnar. Hér er því lögð sú áhersla að eldgos sé ekki yfirnáttúrulegur atburður, heldur beri að kanna hann með aðferðum vísinda, en jafnframt er haldið til haga ýmiskonar fantasíum og ýkjusögum sem fylgja hamförunum. Þetta samspil tveggja tíma kemur vel út, ekki síst þegar losnar um tungumálið sem ryðst fram líkt og eimyrjan úr fjallinu.
Vandinn er bara að þetta er ekki nóg til að gera skáldsögu. Vissulega má halda því fram að skáldsaga sé fjölbreytt fyrirbæri, en það verður þó að gera þá kröfu að hún búi yfir einhverskonar heild eða límist á einhvern hátt saman í eitt verk. Skáldsagan um Jón líkist meira laustengdum sagnaþáttum, sem, þrátt fyrir að vera afar skemmtilegir á köflum, eru líka nokkuð þreytandi aflestrar. Ég var stöðugt að leita að einhverjum ummerkjum um að bókin væri um eitthvað, en án árangurs. Sem sú sjálfskönnun Jóns sem gefin er til kynna í káputexta nær hún ekki máli, né tekst höfundi nægilega vel að gefa öðrum persónum líf. Það er helst sístarfandi bróðirinn Þorsteinn sem virðist mennskur, aðrir eru meira ímyndir sögufrægra manna og hugmynda þeirra. Hinir nýju tímar, sem vissulega koma síendurtekið fyrir og eru spennandi viðfangsefni í þessu samhengi heimsendastemningar hamfaranna, eru einfaldlega ekki nægilega vel útfærðir. Kemur þar enn til að umfjöllun um þá birtist fyrst og fremst í líki þriggja fulltrúa, Eggerts, Bjarna og Skúla, sem allir eru, eins og áður sagði, ímyndir manna og hugmynda frekar en lifandi verur. Sú heimsmyndarpæling sem vissulega er vel greinanleg verður því aldrei nægilega öflug. Þetta er verður enn meira áberandi með tilliti til þess að það er afar freistandi að spegla söguna (eins og algengt er að gera með sögulegar skáldsögur) í nútímanum og velta fyrir sér efnahagslegri eyðileggingu og síðar náttúrulegum hamförum sem yfir íslensku þjóðina hafa dunið á síðustu árum. En margir gera sér einmitt vonir um nýja tíma í kjölfar þessa.
En, þrátt fyrir þessa ágalla þá verður ekki af skáldsögu Ófeigs tekið að sú mikilfenglega umgjörð sem hann skapar er glæsileg og að sagan inniheldur verulega flotta spretti.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010.