Beint í efni

Skaparinn

Skaparinn
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Kvenlíkaminn er viðfangsefni Guðrúnar Evu Mínervudóttur í skáldsögu hennar Skaparinn, en þó ekki. Að einhverju leyti mætti segja að sagan fjalli um afneitun á kvenlíkamanum, því hér er annarsvegar sagt frá kynlífs-dúkku-gerðar-manninum Sveini og hinsvegar frá Lóu, en dóttir hennar Margrét þjáist af lystarstolssjúkdómi. Fundum þeirra ber óvænt saman þegar springur á dekki hjá Lóu fyrir utan hús Sveins á Akranesi og þannig verða til samskipti sem að hluta til byggja á misskilningi. Sveinn er ofsóttur af konu sem álítur hann ábyrgan fyrir dauða föður síns og hann heldur að Lóa sé sú kona. Misskilningnum er viðhaldið af því hálf-súrrealíska ástandi sem aðalsögupersónurnar eru í, í fyrstu er Sveinn örþreyttur og því hálfringlaður þegar Lóa kemur inn í líf hans, sofnar á sófanum og hverfur svo burt með eina dúkkuna, síðan slasar hann sig og er eftir það utan við sig af verkjalyfjaáti. Lóa er sömuleiðis að niðurlotum komin af áhyggjum vegna dótturinnar, hún drekkur of mikið og sefur illa og er því tæpast með sjálfri sér, ástand sem ekki skánar þegar dóttirin lætur sig hverfa.

En jafnframt fær lesandi á tilfinninguna að líf þessa fólks sé kannski ekki nema hálft hvortsem það er vakið eða sofið. Þetta kemur sérstaklega fram í persónu Sveins sem veltir mjög fyrir sér lífi sínu og ævistarfi, en einnig hjá Lóu sem “hafði lengi haft á tilfinningunni að líf hennar væri sorglega laust við mikilvægi.” (215) Þessar hálfu tilverur þeirra beggja endurspeglast svo í kynlífsdúkkunum og höfnun Margrétar á eigin lífi og líkama, og í lífi annarra persóna sem sömuleiðis virðast ganga út á furðulega þörf fyrir að hengja líf sitt á annarra. Kristján, viðskiptavinur Sveins, er einmana maður sem líklega kaupir sér dúkkur bara til að stofna til kunningsskapar við Svein og Lárus, ungur strákur sem lítur upp til Sveins, og þráir allmennt viðurkenningu. Og svo er það Marta, sem eitt sinni passaði dætur Lóu, en tilvera hennar er líka all undarleg.

Tilvísanir til Gosa undirstrika þetta tema gervi-lífs, en þrátt fyrir að þessi flétta ólíkra persóna með sameiginlegt innra hol sé nokkuð áhugaverð þá vantar einnig nokkuð uppá að hún verði verulega áhrifamikil. Ytri rammi sögunnar er dálítið óskýr og flakk um Hvalfjarðargöngin gerir lítið til að skapa stemningu fyrir sviði og umhverfi. Það er helst að persóna Sveins nái að breiða úr sér, en honum er lýst sem dálítið naífum einhleypum karlmanni sem er stoltur af handverki sínu, kynlífs-dúkkunum, og skilur illa fordóma og feimni annarra gagnvart þeim. Hann veltir fyrir sér ólíkum viðbrögðum karla og kvenna við dúkkunum, meðal annars hvað varðar það að greina á milli dúkku og konu. Hann er útskrifaður úr myndlistanámi en náði engu sambandi við það og leiddist þaðan út í dúkkugerðina, eiginlega óvart. Þrátt fyrir að vera að mörgu leyti staðalmynd hins félagslega hefta íslenska einhleypa karlmanns þá er persóna hans þónokkuð blæbrigðarík eins og kemur fram í samskiptum hans við Lóu þegar hann óvart endar á heimili hennar, slasaður á öxl og hné, mitt í því að hún er að leita að dóttur sinni.

Samskipti þeirra tveggja eru byggð þannig upp að þau segja sína útgáfu af atburðum til skiptis og þetta trikk virkar vel, það hleypir lífi í frásögnina og undirstrikar kómískar hliðar hennar. Frásögnum þeirra ber ekki alltaf saman og þannig getur lesandi áttað sig betur á sálarástandi og viðhorfum hvorrar persónu fyrir sig, auk þess að skemmta sér yfir því hvernig misskilningurinn heldur áfram að flækjast. Sá léttleiki sem skapast með þessu myndar síðan áhugavert mótvægi við alvarlegri hliðar sögunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008