Beint í efni

Skugga-Baldur

Skugga-Baldur
Höfundur
Sjón
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Skuggabaldur er afkvæmi kattar og tófu, þó sumir segi hann getinn af samræði kattar og hunds. Og Skugga-Baldur er nýjasta afkvæmi rithöfundarins Sjóns og bókaforlagsins Bjarts. Skugga-Baldur í skáldsögu Sjóns er stóran hluta sögunnar á tófuveiðum og verður þar fyrir óvæntri upplifun, eins og gengur þegar fólk fer á íslensk fjöll, full af þjóðsögum. Baldur þessi, sonur Skugga, er prestur í litlum dal síðla á nítjándu öld. Ekki er hann með öllu vel liðinn af söfnuði sínum, sérstaklega ekki einu sóknarbarninu, grasafræðingnum Friðriki B. Friðjónssyni. Sá hefur tekið í fóstur vangefna stúlku, hálfvita, sem veit enga meiri skemmtun en þá að klæða sig upp og fara í kirkju til að hitta annað fólk – og syngja, en það er sérstaklega tekið fram að hún syngur aldrei ófalskt. En nú hefur prestur meinað henni aðgang að kirkju sinni og þykir látbragð hennar ekki eiga við. Þessi þrjú eru aðalpersónur sögunnar, en einnig kemur við sögu annar hálfviti, sem vangefna stúlkan var lofuð.

Saga Sjóns fellur undir skilgreininguna nóvella, eða stutt skáldsaga, en það er skáldskaparform sem hefur lítt verið nýtt í íslenskum bókmenntum. Steinunn Sigurðardóttir hefur reyndar sent frá sér tvær dásamlegar nóvellur, en í hreinskilni sagt man ég ekki eftir fleirum, svona í bráðina. En þrátt fyrir að vera stutt inniheldur sagan þrjá þræði, eltingaleik Skugga-Baldurs við tófuna, söguna af Öbbu asíatísku og fóstra hennar Friðriki, og að lokum söguna af dauða hennar og greftrun.

Eins og kemur fram í fréttatilkynningu er nítjándualdarskáldsaga með rómantísku yfirbragði allfrábrugðin fyrri verkum höfundar, en Sjón sýnir hér vissulega á sér nýja hlið og skrifar bók sem er að mestu leyti laus við að vera 'óskiljanleg' og mætti næstum kalla hefðbundna raunsæissögu (með tilliti til þess að íslenskar þjóðsögur teljast til raunsæisfrásagnahefðar landans). Þetta kemur ekki aðeins fram í sögusviðinu og viðfangsefni heldur einnig í stílnum, tungumálinu, en sagan er skrifuð í nítjándualdarstíl. Það var á stundum sýnt að höfundurinn er ekki fyllilega öruggur með þetta tungutak, en það er smávægilegur galli á annars fallegri og áhrifamikilli sögu. Eins og áður er stíll Sjóns, eh, sjónrænn: ég get enn kallað fram úr hugskoti mínu sýnir úr sögunni, greftrun Öbbu, Skugga-Baldur í íshellinum, skipið mikla sem strandar við Reykjanes 1868 og er sömuleiðis enn að velta fyrir mér lýsistunnunum dularfullu sem fundust á því: þó ég geri ekki ráð fyrir að mannamörskenning hinna öfundsjúku úr öðrum hreppum standist, þá grunar mig að þarna hafi ekki verið um venjulegt lýsi að ræða? Þó vissulega hafi það nýst sem upplýsing.

Annað einkenni á sögum Sjóns er hvernig hann tekur á stórlega viðkvæmum málum á átakalausan og tilgerðarlausan hátt. Í síðustu skáldsögu sinni, Með titrandi tár, er til dæmis fjallað um innflytjendur á Íslandi og stöðu þeirra, en í Skugga-Baldri eru það vangefnir, nánar tiltekið fólk með Down-heilkenni, sem fá einstaklega fallega og ljúfa umfjöllun. Sem fyrr er þó ekki um einhvern áróður eða stórkarlalæti að ræða, Sjón er maður undirtexta og hógværðar þegar kemur að 'tökum' hans á hinum ólíku málefnum. Þetta kemur kannski einna best fram í því hvernig hann meðhöndlar þjóðsagnaþemað sem er undirliggjandi allri sögunni. Því miður get ég ekki lýst því nánar, því þá myndi ég eyðileggja ánægjuna fyrir lesendum Skugga-Baldurs, en það nægir að segja að lokahnykkurinn á því sem virtist ætla að verða saga með þrjá ólíka söguþræði var sérlega ánægjulegur – og fyndinn, en að vanda er glampandi húmor ríkjandi í stíl og atburðarás. Sem fyrr sýnir Sjón að hann getur verið íslenskari en allt sem íslenskt er, þrátt fyrir að vera einn af fáum íslenskum höfundum sem skrifa sögur sem sverja sig meira í ætt við það sem kallað er 'evrópska skáldsagan'.

Fyrir þá sem þegar þekkja verk Sjóns er sagan af Skugga-Baldri ánægjuleg viðbót í bókahilluna, en að auki spái ég því að þessi bók eigi eftir að afla þessum sérstæða höfundi nýrra lesenda og aðdáenda.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003