Beint í efni

Skuggaskip

Skuggaskip
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Þau fluttu inn í parhúsið í ágúst. Þetta var fallegt hús í útjaðri þessa litla bæjar, og þau höfðu góða tilfinningu fyrir því skrefi sem þau voru að stíga. (52)

Þegar ég las upphafið af fimmtu sögunni í Skuggaskipum fann ég skyndilega fyrir óskiljanlegri ónotatilfinningu. Af hverju leið mér svona illa? Hvaðan kom þessi ótti? Ung hjón flytja út á land, með nýja vinnu, fínt hús og góða nágranna — allt slétt og fellt — en hjartað byrjaði að hamast í brjóstinu. Þá rann það upp fyrir mér, ég er að lesa safn af hrollvekjum. 

Skuggaskip er tíunda smásagnasafn Gyrðis Elíassonar og inniheldur öll helstu einkenni verka hans sem aðdáendur hans eru á höttunum eftir. Tilgangsleysi tilverunnar, hverfulleika skrifa og vangaveltum um einsemd er komið til skila með áreynslulausum og fallegum prósa. En í Skuggaskipum áttaði ég mig á snilli Gyrðis sem hrollvekjuhöfunds. Sögur Skuggaskipa eru auðvitað mjög fjölbreyttar, en eftir að hafa spænt í gegnum þær stendur smáborgaralega hrollvekjan upp úr fyrir mér. Skelfingin felst ekki í ógnarlegum skrímslum eða vitfirrtum morðingjum, heldur er það hinn ótrúlega hversdagslegi og mun raunverulegri ótti sem Gyrðir dregur fram. 

Sambandsörðugleikar leika stórt hlutverk þar sem sívaxandi fjarlægð og einmanaleiki ganga í rullu ófreskjunnar. Auðvitað getum við flest verið sammála um að sambandslok eru hryllilega ógnvekjandi — þar sem ekkert er sárara en kulnun ástar — en hjá Gyrði taka þau á sig smáborgaralegri blæ. Persónurnar hans eru að venju fjarlægar og virðast ekki syrgja ástina sjálfa eða nándina sem er að renna þeim úr greipum. Þess í stað líta þær til veraldlegri hluta sambanda sem hluta af stöðu þeirra í nærsamfélaginu. Óttinn snýst um að missa grunneiningu smáborgaralega fullkomleikans, hjónabandið, sem restin — híbýli, staða, o.s.frv. — er byggð ofan á. Þessi týpa af hrollvekju hjá Gyrði er áhugaverð því hún hefur möguleika á að rista mun dýpra en aðrar gróteskari útgáfur með því að komast nær lesandanum. Í “Samskiptum” kynnast hjón nýju nágrannahjónum sínum og það endar með því að eiginmaðurinn og nýja nágrannakonan taka saman. Sagan veldur óþægindum vegna þess að þetta er ,hryllingur’ sem lesendur gætu rekist á í sínu eigin lífi. Ég held samt að flestir eigi erfitt með að upplifa sögur sem hrollvekjur ef þær eru of nærri raunveruleikanum, það þarf ákveðinn framandleika til að skapa réttu hughrifin. Í “Samskiptum” fellst framandgervingin meðal annars í því að eiginkonan og nágranninn sem skilin voru eftir taka saman. Lesandinn fær það á tilfinninguna að sambandsslitin og myndanirnar séu hluti af óumflýjanlegri hringrás og að persónurnar hafi enga stjórn á eigin örlögum. Gyrði tekst að undirstrika framandleikann í jarðbundnari sögunum með nánast draumkenndum stíl sem rennur áreynslulaust áfram í einfaldleika sínum. Persónur hans bera sjaldnast nöfn, sem veitir lesandanum ákveðna fjarlægð en um leið gefur sögunum það yfirbragð að tákna algildan sannleika. Tilfinningin er sú að sama hver persónan væri eða hvað hún héti, þá yrði hún alltaf dæmd til að endurtaka söguna. Og það gæti allt eins átt við um þann sem er að lesa verkið.

Sögurnar skjóta mér skelk í bringu því ég er með minn eiginn smáborgaralega metnað eins og flestir. Mig dreymir að um að verða húseigandi (er fastur á leigumarkaði um sinn, sem er önnur grein hrollvekjunnar) og geta boðið fólki í heimsókn til mín. Þá gætum ég og makkerinn minn í smáborgaralega lífsgæðakapphlaupinu svo núið gestunum upp úr fegurð sérsmíðaða stofugólfsins okkar — eins og hjónin í “Vexti”:

Haustið rann sitt skeið, og gólfið var alltaf jafn fallegt. Það virtist þola hvaða ágang sem var. Þau héldu síðbúið húshitunarpartí, og það sá ekki á gólfinu, hvorki viðnum né lakkinu, eftir ótal pinnahæla og allskyns vökva sem höfðu farið niður meðan á veislunni stóð. Allir dáðust að gólfinu, og það var meira að segja haldin ræða um það. (23)

Gyrðir leyfir þessum hversdagslegu afrekum ekki að standa óhögguðum og potar í þau þangað til að það fer að hrikta í stoðum þeirra — og ógnar þannig lífsmarkmiðum mínum og meðallesandans. Hjónin í “Vexti” sækja sjálf efniviðinn í glæsilega stofugólfið sitt norður á Strandir, atriði sem gæti sómað sér vel í fallegri ástarsögu í meðför annars höfundar, en óþægilegi undirtónninn er hvergi fjarri í verkinu. 

Í Kaldbaksvík fundu þau svo mikið af góðum trjábolum að þau nánast fylltu kerruna, breiddu síðan yfir hana segldúk svo farmurinn sæist ekki, og lögðust til svefns í jeppanum yfir blánóttina, sem var kyrr og fögur en nokkuð svöl svo þau urðu að hafa vélina í gangi og miðstöðina á heitustu stillingu fram undir morgun. Þau sváfu ekkert sérlega vel, satt að segja. Ótal sögur um kolsýringseitrun leituðu ósjálfrátt á hugann. (19)

Í seinni hluta sögunnar missa þau bókstaflega stjórn á stofugólfinu, sem vex þá úr hrollvekju í hálfkómíska og fallega furðusögu. En það er einmitt annar helsti styrkleiki Skuggaskipa: húmorinn í að draga fram hversdagslega óttann og láta mann horfast í augu við hann. Hrollvekjur eru ánægjulegar því þær leyfa manni að finna fyrir ótta og spennu, vitandi það að maður er í raun fullkomlega öruggur. Ég greip mig stundum að því að vera kominn algjörlega á vald hrollvekjutóns Gyrðis en svo brjótast skyndilega undan honum þegar ég áttaði mig á fáránleika óttans. Höfum við virkilega áhyggjur af þessu? 

Skuggaskip tekur einnig á venjulegri ótta sem er einnig mjög nálægt okkur, eins og dauðsföllum, með ákveðnu æðruleysi. “Lamadýrin” eru dæmi um samblöndu alvarleika og fáránleika. Í sögunni eru örlög manns bundin órjúfanlegum böndum við ættkvísl taminna klaufdýra eftir að spákona tilkynnir honum að þann “dag sem þú sérð lamadýr, áttu skammt eftir ólifað” (43). Gyrðir notast líka við hefðbundnari hrollvekjuminni — eins og óútskýrðan barnsgrát og blóðuga drauma — en drunginn leysist upp af og til og því veit lesandinn í raun aldrei við hverju á að búast. Ein sagan ber til að mynda með sér öll einkenni þess að eitthvað hræðilegt muni eiga sér stað, en svo léttir skyndilega yfir sögunni þegar Adolf Hitler bregður óvænt við. Þetta er snilli Gyrðis.

   

Már Másson Maack, nóvember 2019

 

Bókin á Borgarbókasafninu