Beint í efni

Skuggasund

Skuggasund
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Eins og svo oft í verkum Arnaldar Indriðasonar eru í nýjustu skáldsögu hans, Skuggasundi, fléttaðir saman glæpir úr samtíð og fortíð. Tvær rannsóknir frá mismunandi tímum fara af stað sem elta svo skottið hvor á annarri. Þessi uppbygging minnir til að mynda á Mýrina, en Skuggasund á það einnig sameiginlegt með henni, eins og mörgum öðrum verkum Arnaldar, að hér er sögð Reykjavíkursaga. Eitt hverfi verður miðpunkturinn, ekki Norðurmýrin í þetta sinn, heldur álíka vanrækt hverfi, Skuggahverfið, sem er „eins og lítill heimur út af fyrir sig“ (65):

Vestan megin sneri Þjóðleikhúsið rassinum út í götuna eins og það væri aðeins of fínt fyrir hverfið. Að austanverðu þögnuðu haustlömbin í porti Sláturfélags Suðurlands. Þarna var einnig Landsbókasafnið fyrir fróðleiksþyrsta og Hæstiréttur fyrir þá sem villst höfðu af vegi dyggðarinnar. Allt þar á milli voru bárujárnsklædd timburhús eða steinhús á tveimur eða jafnvel þremur hæðum, sumum var vel við haldið, önnur voru fátæklega búin og illa farin, með litlum bakgörðum sem vissu til suðurs á móti sólinni. (65)

Sú fortíð sem vitjað er í textanum er í þetta sinn seinni heimsstyrjöldin þar sem lögregluparið Flóvent og Thorson leiðir okkur í gegnum rannsókn á undarlegum morðmálum og í samtímanum er það Konráð, lögga á eftirlaunum, sem vegna forvitni og persónulegra tengsla týnir sér í málinu. Þetta eru nýjar persónur í flóru Arnaldar; Flóvent og Thorson – annar íslenskur lögreglumaður, hinn Vestur-Íslendingur í hernum sem fenginn er til að túlka fyrir herlögregluna – eru nokkuð óvenjulegir karakterar, en þó keimlíkir (ólíkt feitu og mjóu löggunum í upphafskaflanum sem vísa í fræg pör af þessu tagi). Konráð hefur sína bagga úr fortíð að kljást við, einstæðingur eins og margar persónur í þessu verki.

Í sögunni er margt undir, eins og svo oft hjá Arnaldi, áhrif seinni heimsstyrjaldarinnar á mannlíf á Íslandi, ekki síst í Reykjavík, „ástandið“, hlutskipti kvenna og samkynhneigðra, stéttaskipting, nútímavæðing og fleira og fleira. Það má segja að eitt af mótívum eða þemum í sögum Arnaldar sé hvernig fortíðin ásækir nútímann, eins og framliðnir sem fá ekki frið fyrr en mál þeirra hafi leyst og látinn bróðir Erlendar er gott dæmi um. Fortíðin lætur okkur ekki vera, hvort sem hún birtist í formi óþægilegra, óuppleystra mála eða í formi fortíðarþrár (sem er ráðandi í fari Erlendar), en hún kemur fram í Skuggasundi sem órói gagnvart nútímavæðingunni í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi fortíðarþrá er þó samt mjög málum blandin, því þetta verk kannar einnig áhrif fátæktar, menntunarskorts, hjátrúar og erfiða stöðu kvenna og samkynhneigðra fyrr á tímum. Það virðist því ekki raunverulegur missir að fortíðinni, frekar einhvers konar óljós löngun eftir horfnum heimi.

Á stundum virka skýringarnar á sögu borgar og lands nokkuð flatar og fátt um nýjungar, en andrúmsloftið sem skapað er ber hins vegar athyglisverðari keim af tvíbentri fortíð, skuggum og afturgöngum, einmanaleika og hræðslu. Hægt væri að lesa verkið í ljósi hugmynda Daisy Neijmann um stríðsbókmenntir (sjá Skírnir 2011 (vor) og Ritið 2012 (1)), hvernig nútímavæðingin á Íslandi skyldi eftir sig sár eða tráma sem ekki hefur verið unnið úr sem getur birst í formi endurtekninga, tilfinningaleysis og doða. Eins og ein persónan í verkinu segir þegar fóstureyðingar í stríðinu ber á góma: „það er auðvitað allt undir yfirborðinu. Kraumar og sullar þar eins og margt annað á þessum furðulegu tímum“ (51).

Þjóðsagnaminni um álfa og huldufólk er notað á nokkuð óvanalegan hátt hér og mun ógnvænlegri heldur en vanalegt er. Við erum langt frá túristaklisjunum um sæta og sérviskulega álfatrú, myndin er öllu dekkri og margbrotnari hér. Óklárað Þjóðleikhús, sem notað er sem birgðastöð fyrir herinn í stríðinu, verður miðjutákn verksins og sér maður þar fjölmargar skírskotanir í forna tíma og nýja; það er allt í senn miðja nútímalegs menningarlífs þjóðarinnar, sem þó er hálfkláruð og undirlögð af útlenskum her, álfaborg sem ætti að veita skjól, en verður að ógnandi stað þar sem hægt er að ganga í björg.

Fléttan í Skuggasundi er einstaklega vel sköpuð, fjölmargir ólíkir þræðir eru tengdir saman í rannsóknunum báðum á snjallan hátt, sem hæfir vel glæpasögu af þessu tagi. Augljóst að höfundur er flinkur í beitingu formsins, leikur sér með það af alúð, oft með vísunum í eigin verk og annarra og gott ef glittir ekki í Citizen Kane á einum stað. Úti í heimi er talað um skandinavískt noir og Skuggasund, með titli, umgjörð og andrúmslofti, er ákaflega gott dæmi þá bókmenntategund.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2013