Beint í efni

Sláttur

Sláttur
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í skáldsögu Hildar Knútsdóttur, Slætti, er sagt frá stúlkunni Eddu sem hefur lifað með hjartagalla, allt þar til hún fær nýtt hjarta fimm árum fyrir sögutíma bókarinnar. Þetta framlengir líf hennar, en skapar jafnframt með henni nokkra óvissu því hún er með tölfræðina á hreinu og veit að það eru ekki nema helmingslíkur á því að hún eigi langt líf framundan. Vegna þessa á hún eðlilega nokkuð erfitt með að fóta sig í tilverunni, veit illa hvað það er sem hún vill gera og er stöðugt bundin ýmsum boðum og bönnum - og umhyggju foreldra sinna, sérstaklega móðurinnar sem hefur tilhneygingu til að ofvernda hana. Líf Eddu breytist síðan þegar hún tekur að sér að passa sjö ára strák, Eystein, en hann virðist hafa þann óþægilega hæfileika að sjá fyrir hörmungaratburði og slys.

Hér er á margt að líta, en viðfangsefnið spannar allt frá umræðu um líffæragjafir (og -þega) til nærveru hins yfirnáttúrulega, auk þess að tengjast klassískum spurningum um líf, dauða og ástina. Þetta er áhugavert upplegg í sögu en líka dálítið varhugavert, því það er auðvelt að gera úr þessu hádramatíska æsingasögu sem hrærir á ýktan hátt upp í tilfinningum lesanda en skilur svo kannski ekki mikið meira eftir sig. Hildur, sem er hér að senda frá sér sína fyrstu bók, forðast hinsvegar fimlega slíkar gildrur, því sagan er hófstillt, næstum látlaus, þó nóg sé svosem af ýmiskonar drama. Að einhverju leyti sver verkið sig í ætt við sögur Jody Picault sem nýtur gífurlegra vinsælda fyrir sögur sem sækja margt til æsingabókmennta, og að einhverju leyti minnir Sláttur einnig á skvísubókmenntirnar svokallaðar, því hér er meðal annars fjallað um ástir - og sorgir - ungrar einhleyprar konu. Og það er kannski þessi skvísubókaþáttur sem léttir á því drama sem mögulega gæti kæft söguna, en hann kemur hvað helst fram í því að samstarfskona Eddu á fasteignastofunni er afar upptekin af því að koma henni í ástarsamband og er bókstaflega með allar klær úti.

Annað sem forðar sögunni frá klisjuðum tilfinningaþrúgum er húmorinn, en Edda er afar krítísk á umhverfi sitt og samferðarfólk, hvort sem það er sálfræðingurinn, móðirin eða samstarfskonan, sem allar eru uppteknar af því að vilja hag hennar sem bestan. Edda er í uppreisn gagnvart þessu öllu, jafnhliða því að vera samviskusöm þegar kemur að eigin heilbrigði og líkama og þannig verður hún trúverðug persóna sem lesandi á auðvelt með að tengjast. Vegna þess hversu yfirveguð hún er kemur það hins vegar dálítið á óvart hversu hrifin hún verður af föður Eysteins, Gunnari, en hann er hommi. Hér verður ekki farið frekar út í söguþráðinn því það myndi eyðileggja of mikið, en þrátt fyrir að sagan sé ekki spennusaga býr hún yfir óvæntum afhjúpunum (sem koma lesendum þó sjálfsagt mismikið á óvart...) og opnum endum.

Í fyrra kvöddu þrjár konur sér hljóðs með sínum fyrstu skáldverkum, sem öll fjalla um óvæntar uppákomur í hversdeginum. Tvær þessara bóka sverja sig nokkuð í skvísubókahefðina, Allt fínt ... en þú? eftir Jónínu Leósdóttur og Stolnar raddir eftir Hugrúnu Kristjánsdóttur. Geislaþræðir Sigríðar Pétursdóttur er tilraunakenndari í formi, en hún er í raun einskonar smásagnasafn og eru sögurnar sagðar í gegnum tölvupósta. Allt eru þetta tilgerðarlausar bækur, sem án allrar yfirlýsingagleði fjalla um ýmiskonar samtímamálefni – og ástir. Sláttur Hildar Knútsdóttur sver sig nokkuð í ætt við þessar sögur en er þó ólík þeim að því leyti að í henni er gengið lengra í því að skapa söguþráð og plott.

Hér væri hægt að halda áfram nokkra stund og velta fyrir sér kvennabókmenntum og stöðu þeirra í bókmenntalandslaginu, auk þess að íhuga mörk bókmenntagreina, ekki síst þau sem gerð eru milli fagurbókmennta og afþreyingar. Einnig mætti fagna því að fram hafi komið nýr og áhugaverður höfundur. En ég læt staðar numið, bendi aðeins á að verk sem vekur upp slíkar vangaveltur hlýtur að vera allrar athygli verðugt.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011.