Beint í efni

Smartís

Smartís
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Smartís er nýjasta skáldsaga Gerðar Kristnýjar og kom út á dögunum. Titillinn hringir strax bjöllum og eins og höfundur greindi frá í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur nýverið vísar hann mjög meðvitað í fyrri verk hennar. Annars vegar í ljóðabókina Ísfrétt sem kom út árið 1994 og var fyrsta „fullorðinsbók“ höfundar, og hins vegar í fyrstu barnabókina sem hún skrifaði, Marta Smarta frá árinu 2002. Smartís er einmitt saga sem staðsetja má á mörkunum milli fullorðinsbóka og barnabóka því hún er saga sem gæti fallið í kramið hjá yngri lesendum, svokölluðum young adults, en ég er ekki síður viss um að eldri lesendur njóti hennar líka og geti tengt við hana á margvíslegan hátt. Sem dæmi má nefna að ég skilgreini sjálfa mig sem fullorðna (er 32 ára og því „bara“ adult) en hafði í stuttu máli mjög gaman af Smartís.

Eins og titillinn gefur til kynna er Smartís í góðu samhengi við fyrri verk höfundar, bæði hvað varðar efni og stíl, ef svo má að orði komast. Hér er aðalpersónan unglingsstúlka og sjónarhornið í frásögninni er hennar, en í Hestvík, síðustu skáldsögu Gerðar sem kom út í fyrra (og vakti mikla lukku hjá undirritaðri) komu unglingsár aðalpersónunnar oft við sögu. Gerður er einkar lunkin í að beita ákveðinni breidd í sjónarhorni, en það getur reynst snúið að skrifa um sömu aðalpersónuna á ólíkum tímabilum í lífinu, og gerir kröfu um næmni fyrir blæbrigðum í þroska og heimsmynd sem breytist ár frá ári. Í smásögunum í Eitruðum eplum voru aðalpersónurnar yfirleitt konur en á ólíkum aldri, frá börnum og upp í gamalmenni, en allar samt sem áður einhvern veginn grípandi.

Hér er sjónarhornið aftur á móti bundið við aðalpersónuna á nokkuð stuttu tímabili í hennar lífi. Í upphafi sögunnar er hún sennilega á síðustu önninni í grunnskóla, veturinn lætur enn á sér kræla en það styttist í vorið, og í lokin, þegar tekur að halla að hausti, gerir hún sig klára að hefja nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. Skáldskaparheimurinn í Smartís er því kyrfilega bundinn heimsýn unglingsstúlku sem býr í Háaleitishverfinu á níunda áratug síðustu aldar, þegar kalda stríðið og óttinn við atómsprengjuna er í algleymingi.

Bæði atriði koma oft við sögu, og eins fáum við stiklur af nágrönnum stúlkunnar, sem reynast oftar en ekki meira en lítið breyskir, fólk sem hefur gert misalvarleg mistök á lífsleiðinni og sýpur seyðið af því. Söguhetjan lærir því hægt og rólega að fullorðnu fólki er alls ekki öllu treystandi og að fullorðnir vita ekkert endilega alltaf betur en þeir sem yngri eru. Smartís minnir þannig á hvernig uppgötvunin um breyskleika hinna fullorðnu á sér stað á unglingsárunum og er nauðsynlegur liður í að fullorðnast sjálfur.

Í forgrunni er samt sem áður hugarheimur unglingsstúlkunnar og sambandið við hennar nánustu, samskiptin eða öllu heldur samskiptaleysið við foreldra og eins vinkonupólitíkin – en á þessum árum er mikilvægast af öllu að eiga vinkonur, jafnvel mikilvægara en að eiga foreldra. Að eiga góðar og nánar vinkonur getur að sama skapi verið ansi snúið og mikil uppspretta angistar og kvíða. Hér er því fókusinn ekki á ástarsambönd og tilhugalíf unglinga, eins og oft vill verða í sögum sem skrifaðar eru fyrir ungt fólk, hin eilífu og oft aðeins of klisjukenndu samskipti kynjanna, heldur á vináttusamband stelpna, sem mig grunar að sé almennt mun nær raunveruleika unglingstúlkna heldur en hitt. Og talandi um sögur sem ná að fanga raunveruleika unglinga á nokkuð sannfærandi hátt, þá varð mér á stundum hugsað til Skam, norsku sjónvarpsþáttanna sem slegið hafa aldeilis í gegn um gjörvallan vestrænan heim. Unglingar hafa ekki aðeins gaman af Skam (ég vísa aftur í sjálfa mig því til stuðnings) heldur allir þeir sem hafa áhuga á samtíma sínum og sögum af uppvaxtarárum og þroska; þegar hugmyndir kvikna og sakleysishulunni er svipt af veruleikanum.

Styrkur norsku þáttanna liggur meðal annars í sjónarhorninu sem í hverri seríu er bundið einni persónu og hennar hugarheimi, og það sama á við um Smartís. En að sjálfsögðu er um að ræða allt annan „rýmis-tíma“ og að vissu leyti er saga Gerðar söguleg skáldsaga; hún er kyrfilega römmuð inn í ákveðið sögulegt tímabil og að sama skapi tengd raunverulegum stað – og stöðum í Reykjavík. Aðalpersónan heimsækir til dæmis sjoppur og búðir sem voru í Háaleitishverfinu á sínum tíma, og tekur strætó niður á Hlemm, gengur Laugaveginn og kemur við í búðum sem lesendur á ákveðnum aldri vafalaust þekkja. Og að sjálfsögðu, eins og á um flestar sögur sem fjalla um ungt fólk, er Smartís þroskasaga, en sá þráður er rammaður inn af tveimur senum sem tengjast því að kaupa eyrnalokka. Sagan hefst og endar á eyrnalokkakaupum, athöfn sem er nokkuð algeng í lífi margra unglingsstúlkna og virðist frekar saklaus, en getur tekið á sig mun margræðrari, jafnvel grimmari, myndir. Höfundur lýsir því hvernig stúlkan sem ætlaði í upphafi að fá sér friðarmerkja-eyrnalokka fipast við að heyra að þeir séu uppseldir og kaupir hakakross-eyrnalokka í staðinn. Reynir síðar að afsaka atvikið með því að lýsa því sem tilraun til að gerast pönkari. En auðvitað gefur aldur hennar og vanþroski ákveðinn fyrirvara og í raun ætti maður ekki að álasa unglingi sem gerir sér ef til vill ekki fyllilega grein fyrir því hvaða óhugnað merkið vísar til. Frekar ætti maður að staldra við og velta fyrir sér þeim sem ákveða að framleiða slíka lokka, hvaða hugmyndir vaki fyrir þeim, og ekki síður þeim sem ákveða að selja slíka lokka í búð innan um varning ætlaðan óhörnuðu ungu fólki. Að baki slíkum ákvörðunum stendur fullorðið fólk sem getur ekki fríað sig ábyrgð, eins og unglingurinn sem má fela sig á bakvið ungan aldur og vanþekkingu.

Til að ramma inn þroskasögu unglingsstúlkunnar, sem er við það að kveðja barnæsku grunnskólans og halda á vit óvissunnar í menntaskólanum, lýkur höfundur sögunni á öðrum eyrnalokkakaupum sem lesendum gæti hugnast betur. Ekki síst nútímalesendum sem stunda jóga, hugleiðslu og núvitund. Eftir að hafa farið í gegnum sinn skerf af vinkonudramatík og uppgjöri, og eftir að hafa um tíma, vegna ýmissa ástæðna, staðið uppi ein og einmana, kynnist söguhetjan nýrri vinkonu, sem gefur til kynna að nýr og spennandi tími fari í hönd. Í fylgd nýju vinkonunnar kaupir söguhetjan eyrnalokka með yin og yang merki sem endurspeglar hið gullna jafnvægi, að illu fylgi gott og öfugt, og gefur til kynna að okkar kona hafi loks upplifað, að minnsta kosti um stundarsakir, ró í lífi sem oftar en ekki einkennist af ólgusjó og óróleika.

Smartís er vel skrifuð, skemmtileg en að sama skapi afskaplega raunsönn saga um tímabil í lífi unglingstúlku sem flestir lesendur vita að getur verið æði krítískt. Höfundur fangar vel stemningu, umhverfi og andrúmsloft í Reykjavík níunda áratugarins, án þess að skírskotanir í smáatriði sem fylgja þeim tíma verði of fyrirferðarmiklar eða of áberandi. Stíll sögunnar og tónn er lágstemmdur framan af, nánast flatur í samanburði við Hestvík, en ekki líður á löngu þar til ískaldur óhugnaður skýtur upp kollinum og atburður gerist sem verður margræður í samhengi sögunnar. Hann minnir á að það er yfirleitt ekkert einfalt né flatt í sögum Gerðar Kristnýjar og haldi lesandinn það er það einfaldlega vísbending um að hann sé ekki að fylgjast nógu vel með.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2017