Beint í efni

Snákar og eyrnalokkar

Snákar og eyrnalokkar
Höfundur
Hitomi Kanehara
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„Á næsta augnabliki heyrðist glymjandi högg og skjálfti, sem var langtum öflugri en þegar maður fær fullnægingu, fór um allan líkama minn. Ég fékk gæsahúð á handleggina og smávægilegan krampa í kroppinn. Maginn á mér herptist saman og af einhverjum ástæðum gerði klofið það líka og tilfinningin var unaðsleg og kitlandi. Götunarbyssan opnaðist með smelli og það losnaði um pinnan. Þegar ég var aftur orðin laus, gretti ég mig og setti tunguna inn fyrir varirnar“ (16-17).

Svona lýsir Lui upplifun sinni af því að fá sér gat í tunguna, en það gat á að vera upphafið að því að kljúfa tungu hennar í tvennt. Lui er sögukona skáldsögu hinnar ungu Hitomi Kanehara, Snákar og eyrnalokkar, sem hlaut Japönsku Akutagawa bókmenntaverðlaunin árið 2004. Eins og þessi lýsing ætti að gefa til kynna er viðfangsefnið nokkuð krassandi, en þar er fjallað um kynlíf og þann menningarkima sem á ensku nefnist ‘body-modification’ (en vísað er til enska orðasambandsins í sögunni) og er hér þýtt sem ‘líkamsumbreyting’. Lui hittir Ama á drungalegum teknóstað og tekur strax eftir honum því hann sker sig úr og virkar ískyggilegur, allur tattúveraður og gataður. Hún hrífst af þessu og hrifningin eykst þegar í ljós kemur að hann er með klofna tungu, „eins og tungan í snáki eða eðlu“ (5). Þau taka saman og Ama fer með Lui til Shiba til að gera fyrrnefnt gat í hennar tungu. Þau Shiba taka tal og í ljós kemur að hann er sadisti, hún masókisti. Hann langar að stinga hana með nál í hálsinn og hana langar í tattú. Og þannig hefst saga um klassískan ástarþríhyrning, nema bara nú eru meðlimir hringsins allir tattúveraðir, gataðir og skreyttir málmhringjum.

Masókismi Lui felst ekki aðeins í kynferðislegum kenndum því hún er haldin sjálfseyðingarhvöt sem eykst eftir því sem líður á söguna. Hún þjáist af lystarstoli og er drykkjusjúk og þrátt fyrir allar stungur lifa þau Ama nokkuð hversdagslegu lífi sem felst í bjórdrykkju og sjónvarpsglápi. Það þarf því engin töfrabrögð til að sjá að hér er verið að fjalla um tómleika hins borgarlega lífs og tilraun ungs fólks til að takast á við hann. Reyndar má segja að þetta sé hin almenna túlkun á þessum líkamsbreytingum, sem einnig mætti kalla aðlaganir eða hagræðingar. Annarsvegar hefur verið fjallað um að sársaukinn sé eina leið nútímafólks til að ‘finna til’ í samfélagi neyslu, hraða og hreinilega firringar, og hinsvegar er bent á að í þessu felist leið til að sýna framá eignarétt einstaklingsins yfir líkama sínum í samfélagi eftirlits sem vill fella alla líkama í sama form (sbr. Latibær). Í báðum tilfellum er um að ræða einskonar uppreisn gegn borgarlegum gildum - sem margir hafa svo bent á að sé fremur veikluleg uppreisn, þarsem líkamsbreytingar hafa orðið að tískufyrirbæri. Þannig afgreiðir einn bandarískur gagnrýnandi bók Hitomi að hún sé orðin úrelt, þetta séu gamlar fréttir og alveg hættar að vera ögrandi. Aðrir gagnrýnendur hafa furðað sig á þeim merkimiðum sem birtast í bókinni, en þar tilheyra allir einhverjum hópi, barbí-stelpur eða pönkarar, og svo framvegis. Þetta er síðan tengt japönsku samfélagi sem ýktu og furðulegu. Þrátt fyrir að menningarkimar hafi á undanförnum árum tekið á sig öllu skírara form í Japan en á vesturlöndum fer því fjarri að hægt sé að afgreiða söguna sem eitthvað japanskt furðuverk, því merkimiðar tilheyra og hafa alltaf tilheyrt ungdómsmenningu hverskyns, ég veit ekki betur en hér á Íslandi sé talað um hnakka og úlpur/trefla, svo nærtækt dæmi sé tekið. Viðbrögð sem þessi - sérstaklega frá vesturlöndum - gefa frekar til kynna einskonar vandræðagang, kannski vegna þess að sagan er raunverulega ögrandi og umhugsunarverð, og vel smíðað skáldverk sem fjallar á áhugaverðan og eftirminnilegan hátt um ungt fólk í nútíma borgar(a)samfélagi.

Annað atriði sem hefur komið upp í umræðunni um þessa bók er sú staðreynd að höfundur er ung stúlka, en truflandi neðanjarðarbókmenntir hafa löngum þótt tilheyra ákveðnum strákaheimi. Þannig er sagan sett í samhengi við vaxandi andspyrnu japanskra kvenna gegn hefðbundnum kynhlutverkum, en þar er hasar-hrollvekjan Næturvaktin eftir Natsuo Kirino nefnd sem dæmi. Þessi hlið umræðunnar er vissulega áhugaverð og þá kannski sérstaklega útfrá kynferðislega hlutanum, en bókin er á mörkum þess að vera beinlínis klámfengin og minnti mig á stundum á sögur Alinu Reyes, eins og til dæmis Slátrarann. Þar er á ferðinni einskonar femínískt klám, eða bara einfaldlega klám sem er miðað við konur en ekki karlmenn. Á hinn bóginn kallast Snákar og eyrnalokkar einnig á við annað þekkt klámverk eftir konu, Söguna af O eftir Pauline Réage, sem kom upphaflega út undir dulnefni árið 1954, en þar birtast kynferðislegar gatanir auk masókískrar upplifunar konu. Sú saga er óneitanlega mun karlmiðaðari en Slátrarinn, en hefur þó einnig verið tekin sem femínískt dæmi um rödd kvenna í klámi.

Allt þetta fléttast saman í Snákum og eyrnalokkum, klám, menningarkimar, tómleiki og femínismi, en þó er ég sammála því mati sérlegs ráðgjafa míns í japönskum bókmenntum sem álítur að rödd fulltrúa ungs fólks sé kvenröddinni yfirsterkari. Hún vitnar í viðtal við Hitomi Kanehara þarsem hún lýsir því að hana langi stundum til að vera skuggi, en að slík ósýnileg tilvera sé sorgleg og því sé ráðið það að vera áberandi skuggi í krafti líkamsbreytingar, og bætir við að hún haldi að fólk sem hefur áhuga á líkamsbreytingu vilji sýna öðrum hvað hægt sé að gera með sinn eigin líkama.

Að lokum nokkur orð um þýðingar. Uggi Jónsson þýðir bókina og það kemur hvergi fram úr hvaða máli þýtt er sem er alltaf jafnpirrandi. Uggi hefur hingað til verið traustur þýðandi en hér bregst honum nokkuð bogalistin, textinn er einkennilega þversum á köflum sem dregur úr áhrifamætti sögunnar. Þó er þetta ekki alfarið þýðandanum að kenna því eitt af vandamálunum hér er að þau fyrirbæri sem hér eru til umræðu, líkams(um)breytingar, gatanir, tattúveringar og svo framvegis, hafa ekki eignast neina stöðu í íslenskri tungu. Hér til dæmis nota ég orðið tattúveringar frekar en húðflúr, sem þrátt fyrir að vera fallegt orð, er ekki sérlega þjált, sérstaklega ekki þegar það er sett í samband við þann sem húðflúrar, svo úr verður orðskrípið „húðflúrslistamaður“. Þarsem fyrirbærið er hvort eð er frekar mikið neðanjarðarfyrirbæri (þrátt fyrir alla tískustrauma), hefur myndast hefð fyrir að sletta bara, og þó það sé vissulega ekki alltaf við hæfi má velta fyrir sér hvort hér hefði ekki frekar mátt stefna að einhverju jafnvægi í stað þess að grípa til óþjálla orða og orðasambanda. „Líkamsumbreyting“ er dæmi um þetta, en sem slíkt er það orð langt því frá lýsandi fyrir athæfið „body-modification“. Og þarsem enska orðið er notað í japanska textanum get ég ekki annað en velt fyrir mér af hverju það mátti ekki standa (eins og enska orðið ‘savage’ fær að standa síðar í textanum), sérstaklega í ljósi annarra þýðingarákvarðana á vegum bókaforlagsins Bjarts, þarsem skáldsaga Haruki Murakami er látin heita Norwegian Wood og skáldsaga Emily Brontë Wuthering Heights, með tilvísun til að þetta séu heiti á lagi og húsi, og því sé viðeigandi að nota ensk orð (þrátt fyrir að skáldsaga Murakami heiti ekki Norwegian Wood á japönsku).

En hvað sem því líður þá er fengur að fá sögu Hitomi Kanehara á íslensku, ekki síst nú þegar líður að tímum bókmenntaverðlauna, því það er vissulega sláandi að bók á borð við þessa vinni til slíkra. Hér á landi hefur tilhneygingin oftast verið sú að halda sig við eitthvað öruggt þegar kemur að því að verðlauna bókmenntir; kannski Snákar og eyrnalokkar geti orðið gott fordæmi nýrra áhersla í bókmenntaverðlaunum?

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006