Beint í efni

Sögur og sálarlausar vélar

Sögur og sálarlausar vélar
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Í skáldsögunni Ef að vetrarnóttu ferðalangur (1979) eftir Italo Calvino er lesandinn settur í spor lesanda sem hefur sest niður í þeim tilgangi að lesa skáldsöguna Ef að vetrarnóttu ferðalangur, nýjustu skáldsögu Italo Calvino, en þegar hann hefur lesturinn kemur í ljós að hér er um allt aðra bók að ræða. Lesandinn okkar, sem er ávarpaður í annarri persónu nútíð út í gegn, lætur sig samt hafa það og les fyrsta kaflann, allt þar til hann er truflaður við lesturinn. Þessi atburðarás endurtekur sig aftur og aftur. Í hvert sinn sem lesandinn okkar telur sig hafa fundið rétta bók kemur í ljós að mistök hafa átt sér stað og honum er dembt í ókunnugan texta og þarf að púsla saman þeirri framandi veröld sem bíður hans þar.

Mér varð hugsað til þessa meistaraverks Calvinos við lestur Gólem, nýjustu skáldsögu Steinars Braga, þrátt fyrir að bækurnar séu, á yfirborðinu, eins ólíkar og hugsast getur. Gólem gerist í ógnvekjandi náframtíð þar sem heimsmyndin er (lítillega) ýkt útgáfa af þeirri pólitísku og efnahagslegu óreiðu sem við sjáum allt í kringum okkur í dag. Einkarekin fyrirtæki eru stærri, auðugri og valdameiri en þjóðir og millíprósent af mannkyninu hefur umráð yfir 99% af auðlindum og auðæfum jarðarinnar. Við fáum þó einungis takmarkaða sýn af samfélagsgerð þessa heims þar sem sögukonan okkar, sem notast við harðrifjað og háðskt fyrstu persónu ávarp sem myndi sóma sér vel í gömlum einkaspæjarareifara, hefst aðallega við í einangrun á nær mannlausum herstöðvum á milli þess sem hún sinnir verkefnum fyrir vinnuveitanda sinn, skuggalegt stórfyrirtæki sem ber mörg einkenni sértrúarsafnaðar.

Starf hennar er að deyja, nánar tiltekið að deyja svo að annað, ríkara og mikilvægara fólk geti lifað. Fyrirtækið sem hún vinnur hjá er einskonar tryggingafyrirtæki sem selur ríkasta fólki heims líftryggingar. Með því að nota gervigreind og skammtatölvur (quantum computers) gægjast útsendarar fyrirtækisins inn í framtíð viðskiptavina sinni og skima eftir því hvort þeirra bíði ótímabær dauðdagi af slysförum eða mannavöldum. Ef svo er sér tryggingin til þess að einn af „agentum“ fyrirtækisins muni verða á svæðinu á ögurstundu til að skarast í leikinn og bjarga viðskiptavininum frá vísum dauðdaga.

Sögukonan okkar, sem er aldrei nefnd með nafni í bókinni, er einn slíkur agent. Til að ferðast inn í framtíðina, eða að gera vitund sinni kleift að ferðast inn í framtíðina, þarf hún að gangast undir vandlega útfærða en þó langt því frá sársaukalausa aðgerð sem leiðir af sér líkamlegan dauðdaga, allt þar til verkefninu er lokið og hún er vakin aftur til lífsins – eða „sett í gang“. Á meðan á verkefninu stendur skilur hún eigin líkama eftir í „rauntímanum“ og fær að láni líkama annarrar manneskju – „skuggans“ hennar – sem séð hefur verið til þess að sé stödd á réttum stað á réttum tíma í framtíðinni til að koma tryggingaþeganum til bjargar. Skuggi sögukonunnar heitir Kasja, og í rauntíma sögukonunnar er hún besta (og eina) vinkona hennar. Til að agent geti ferðast inn í framtíðina og tekið sér bólfestu í líkama skuggans síns verða að vera til staðar djúpstæð tengsl á milli beggja aðila. Hún og Kasja eru æskuvinkonur og eyða eins miklum tíma saman og þær geta á milli verkefna en vita báðar að á einhverjum tímapunkti muni sögukonan hætta að deyja og röðin komi að Kösju, sem mun næstu ár þurfa að gæta þess að vera til taks svo að sögukonan geti tekið yfir líkama hennar og bjargað lífi ríka fólksins sem kaupir sér þjónustu fyrirtækisins.

Því minna sem ég veit, því betra 

„Ég veit áður en ég opna augun að ég er á hreyfingu.“ Þannig hefst fyrsta tímaferðalag sögukonunnar í bókinni. „Í ókunnugum líkama með vöðvum sem hlýða ekki“ (13). Líkaminn er auðvitað líkami Kösju en það tekur hana nokkrar mínútur að átta sig á því og ná utan það hvar hún er og hver hún fer. Líkt og lesandinn hans Calvinos er hún í ókunnugu landi, og þarf að púsla veröldinni saman út frá þeim brotum sem berast henni í gegnum skynfærin. Í hvert sinn sem hún tekur stökkið inn í framtíðina vaknar hún því í nýrri sögu, og þarf að átta sig á hlutverki sínu og finna tilgang sinn innan þess stutta tíma sem hún hefur áður en henni er aftur kippt út úr líkama Kösju og út úr sögunni. Fyrr en varir er hún á flótta, í æsilegu kappi við klukkuna til að ná að breyta framvindunni í lífi ókunnrar manneskju. Lendingu hennar í líkama Kösju fylgja ofskynjanir eða vættir sem hún kallar „viðnám tímans“; óvinir sem sækja að henni úr öllum áttum og neyða hana til að lenda á fótunum, treysta innsæinu og ósjálfráðum viðbrögðum sínum frekar en að gefa sér tíma til að hugsa. „Því minna sem ég veit, því betra“ (33), eru einkennisorð hennar; hún er hermaður og hlutverk hennar er að fylgja fyrirmælum og bregðast við aðstæðum án þess að spyrja spurninga. Hún fær ekki einu sinni að vita nafnið á manneskjunum sem hún er send fram í tímann til að bjarga og veit ekkert um það hvort veröldin sem hún skilur að baki þegar hún hverfur aftur til rauntíma síns sé betri eða verri fyrir tilstilli hennar. Slíkar vangaveltur eru ekki hluti af starfi hennar.

Öskrið í kjötinu

En þrátt fyrir alla sína þjálfun, og allan hasarinn sem einkennir vettvangsferðir hennar inni í framtíðina og gefa þeim köflum gríðarlega „flettiorku“, þá er sögukonan engu að síður farin að taka eftir ýmsu einkennilegu í síendurteknum heimsóknum sínum í líkama vinkonu sinnar. Það eru ummerki um ofbeldi og þvinganir á líkama Kösju, marblettir og aðrir áverkar, líkt og eftir fjötra, en hún heldur því leyndu fyrir Kösju í rauntímanum undir því yfirskini að hlífa henni. Líkt og Kasja er sögukonan í raun að selja líkama sinn fyrirtækinu, en munurinn er sá að hún er með fulla vitund allan tímann, jafnvel þótt að líkami hennar gangi í gegnum tímabundið dauðaástand. Starf Kösju sem skuggi á hinsvegar meira skylt við vitundarlausu kjötdúkkurnar (meat puppet) sem fyrirfinnast í vændishúsunum í Neuromancer, brautryðandaverki Williams Gibsons frá 1984 sem kynnti til sögunnar þann afkima vísindaskáldsögubókmennta sem kallaður er sæberpönk (cyberpunk), og mætti efalaust fella skáldsögur Steinars Braga síðustu ár undir það heiti. Í raun minnir samband sögukonunnar og Kösju um margt á sambands tölvuhakkarans Case og morðkvendisins Molly í Neuromancer, þar sem Case sækist eftir því að aftengjast líkama sínum og lifa eingöngu sem vitund í vafri sínu um sýndarveruleikann, á meðan Molly, sem vann fyrir sér sem kjötdúkka um tíma til að borga fyrir ýmiskonar ígræðslur og uppfærslur á líkama sínum, sækist eftir að skilja tilfinningar og huga að baki og verða viðbragðið eitt. Þannig þarf sögukonan okkar að gæta sín hvernig hún fer með líkama Kösju þar sem hún er að einhverju leyti aftengd honum og finnur til að mynda ekki fyrir sársauka á meðan hún hefur hann undir höndum. Undirniðri finnur hún þó alltaf fyrir vitund Kösju „eins og öskrið í kjötinu vilji brjótast út“ (27).

Hulan á milli mín og veruleikans

Eftir því sem líður á bókina verður þó ljóst að þessi fjarlægð á milli huga og líkama einskorðast ekki við heimsóknir sögukonunnar í líkama Kösju. Sjálf er hún meira og minna ótengd eigin tilfinningum og finnur sjaldnast fyrir þeim öðruvísi en sem ósjálfráðu, líkamlegu viðbragði sem hún ræður ekki við:

alla mína ævi hef ég aldrei grátið án þess að hugsa ég græt, eða sagst elska án þess að spyrja mig: Er það svo, virkilega? Beðist afsökunar án þess að finna þessa hulu á milli mín og veruleikans, hvað ég sé að segja? Hið eina orðlausa, hvatvísa í mér er reiði sem rýkur upp þegar síst varir og viðbrögðin eru kröftug eftir því. (278)

Þessi tilfinningalega fjarlægð hefur einkennt líf hennar svo lengi sem hún man eftir sér, allt frá því í barnæsku. Á milli þess sem við fylgjumst með henni í rauntíð og framtíð eru kaflar þar sem við kynnumst fortíð sögukonunnar. Í fyrsta endurliti sögunnar – í fyrstu línu bókarinnar – minnist hún þess að fara út úr líkamanum á meðan verið er að misnota hana sem barn. Skömmu eftir þann atburð er hún tekin af foreldrum sínum og endar í heimavistarskóla þar sem hún kynntist Kösju og einnig Adam, fyrsta og eina kærastanum sínum. Heimavistarskólinn – eða Klaustrið, eins og hún og Kasja kalla hann – reynist vera rekin af fyrirtækinu, einskonar uppeldisbúðir fyrir agenta og skugga. Þar er sjálf þeirra brotið niður með líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Ungmennunum er hent saman án alls aga og afleiðinga og leyft að ganga langt yfir mörk hvors annars, jafntframt því að gengið er yfir þeirra eigin mörk. Hún þarf að þola endurteknar nauðganir af hálfu samnemenda sinna og verður sífellt færari í að slökkva á sér, aftengjast því sem er að koma fyrir líkama hennar. Seinna meir, eftir að hún hefur verið innvígð í útvalinn hóp nemenda sem komast á næsta stig kennslunnar, lærir hún hugleiðslu og jóga með það að markmiði að verða að fullkomnum þegn fyrirtækisins, fær um að bregðast við án umhugsunar og stíga út úr líkama sínum þegar þess þarf. Það er æði skondið hvernig Steinar hefur þannig snúið á hvolf núvitundar- og heilunarfræðum nútímans og breytt þeim í niðurbrotsafl sem ætlað er að gjöreyða sjálfinu.

Mýs og menn

Oft er það persónusköpunin sem er veiki blettur hinnar hörðu vísindaskáldsögu (hard sci-fi). Lagt er upp með svo stórar og flóknar hugmyndir að persónurnar eiga það til að verða að eins konar leiksoppum eða aukaatriðum sem hafast við á jaðri blaðsíðunnar. Svo er alla veganna raunin með margar skáldsögur Arthur C. Clarke – stíleinkenni sem Kubrick breytti í styrkleika með fámæltu og svipbrigðalausu geimförunum í kvikmyndinni 2001 Space Odyssey (1968). Vísindaskáldsögur Steinars Braga, Truflunin (2020), Dáin heimsveldi (2022) og nú Gólem, mynda einskonar þríleik og eiga margt sameiginlegt, svo margt að sumir hafa velt því upp hvort þær gerist í sömu framtíðinni, sömu tímalínunni. Það sem þær eiga þó um fram allt sameiginlegt er persónusköpunin. Sögukonur og -menn þessara bóka eru allar af sama meiði, einfarar sem eiga harma að hefna. Öll ávarpa þau lesandann með háðskri og lífsleiðri sögumannsrödd rökkursögunnar. Öll eiga þau að baki ást og missi sem skildi þau eftir einmana og tómlynd, sannfærð um tilgangsleysi lífsins. Veröldin, eins og hún birtist okkur í gegnum augu þeirra, er kaldur staður þar sem fólk skortir samkennd og mannkærleika er hvergi að finna. Þetta verður til þess að flestar aðrar persónur þessara bóka virðast hálfflatar.

Persónugalleríið í Gólem, séð í gegnum augu sögukonunnar okkar, skortir að einhverju marki raunveruleika. Engar persónanna bera eftirnöfn og margar ekki eiginnöfn; þær eiga sér hvorki baksögu né þjóðerni og eru oft hreinlega vélrænar í tilsvörum sínum (í sumum tilvikum af góðum og gildum ástæðum). Upplifun lesanda er ekki endilega að sparað hafi verið til við sköpun þeirra, heldur mun fremur að þessi flatneskja eigi uppruna sinn í deyfð og áhugaleysi sögukonunnar þegar kemur að öðru fólki, eftir áföllin í æsku og allt það tráma sem hún upplifði á leið sinni til að gerast agent á vegum fyrirtækisins. Aðrar manneskjur eru sneiddar mannleika í sýn hennar á heiminn. Þannig talar hún með fyrirlitningu um ríka fólkið sem henni er falið að bjarga sem „prósentið“ og lífverðina þeirra sem „hjúpinn“, en notar álíka afmennskandi níðheiti um nafnlausa þjónustufólkið sem snýst um hana á milli verkefna og kallar þau „mýsnar“. Þó er mikil stéttarvitund í bókinni, og í hvarfpunkti er sú misskipting sem leiðir til þess að fólk í lægri stéttum geldur fyrir þægindi hinna ríku með tíma sínum og líkömum. Sögukonan á uppruna sinn í lægri stétt, og undir lok bókar er henni gert ljóst hver saga hennar hefði verið ef fyrirtækið hefði ekki komið inn í líf hennar. Í þeirri tímalínu – eða því „rennsli“, eins og yfirboðarar hennar kalla það – hefði hún engu að síður endað á að selja það eina sem hún á sem metið er að verðleikum í kapítalísku samfélagi:

Þú flakkaðir á milli fósturheimila þar til þú náðir aldri til að sjá um þig sjálf. Þá fórstu í neyslu og seldir það eina sem gat vakið áhuga annarra á þér, í svolítinn tíma að minnsta kosti: Líkamann. Þangað til þú gast ekki lengur lifað með niðurtúrunum og ofbeldinu og niðurlægingunni og endaðir rennslið ... Þú ættir að vera þakklát fyrir það sem við höfum gefið þér. (390)


Vélin sem ekki er hægt að slökkva á

Á opnunarsíðu Gólem kemur fram að flettan „gólem“ eigi sér þrjár merkingar í Oxford Learner’s Dictionary:

1. Fígúra gerð úr leir sem lifnar við
2. Vél sem hegðar sér eins og manneskja
3. Fyrirtæki, lagalegur tilbúningur sem þjónar eigendum sínum og hluthöfum en ber enga ábyrgð gagnvart samfélaginu. (5)

Í framtíðarveröldinni sem dregin er upp í bókinni, og virðist að mörgu leyti allt of náskyld okkar eigin, er engu líkara en að allt mannlegt samfélag heyri undir þessa þriðju merkingu. Það er engin tilviljun að fyrirtækið í bókinni ber sama nafn og fyrirtæki milljónamæringsins Peters Thiels, sem ásamt fleiri Kísildals sérvitringum hefur fjárfest margar milljónir dollara í rannsóknum sem hafa það að markmiði að framlengja lífaldur mannsins um áratugi eða árhundruð. Með tækniþróunum á sviði skammtafræðinnar hefur fyrirtækinu í Gólem tekist að tryggja sér ódauðleika í þeim tilgangi einum að afla eigendum sínum og hluthöfum eilífan gróða. Vöxtur þess mun aldrei hætta og það mun á endanum gófla í sig allt mannlegt samfélag eins og það leggur sig. Framtíð heimsins er fyrirfram ákveðin og sjálfstæður ákvarðanaréttur er úr sögunni. Öll tækifæri til þess að mynda annarskonar samfélag eru löngu horfin á braut og það eina sem eftir stendur er sálarlaus eilífðarvél. Sagan sem í upphafi virtist endurtaka sig í sífellu stefnir í að verða óendanleg; kerfi sem ekki er hægt að snúa við, vél sem ekki er hægt að slökkva á. Það er að segja, nema einhverjum takist að stíga inn í söguna og rjúfa frásögnina.
 

Björn Halldórsson, desember 2024