Beint í efni

Söngur steinasafnarans

Söngur steinasafnarans
Höfundur
Sjón
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt helsta einkenni verka Sjóns er hversu vandvirknislega hann vinnur skáldskap sinn. Þrátt fyrir að textar hans, kannski sérstaklega þeir eldri, geti virkað óreiðukenndir og jafnvel tilviljanakenndir, þá þarf ekki mikið átak til að sjá að þar er allt á sínum stað og allt á sér stað. Textinn er fágaður og hvert verk svo þaulunnið að þar stendur ekkert útaf; líkt og í kenningum bandaríska rithöfundarins Edgar Allans Poe sem skrifaði einhverntíma um miðja nítjándu öld um form smásögunnar, að þar ætti hver einasta setning, hvert einasta orð að stuðla að þeirri heildarmynd sem góð smásaga væri. Þessi þéttleiki textavefnaðar er sérstaklega áberandi í prósaverkum Sjóns, allt frá skáldsögunni Stálnótt (1987) (sem er eitt af sniðgengnum meistaraverkum íslenskra bókmennta) til nóvellunnar Argóarflísin (2005) sem er svo þéttofin frásögum að í minningunni virkar hún eins og margra binda verk. Báðar sögurnar má skoða í ljósi nútímatölvutækni: þegar stórum og þungum skjölum er pakkað í minna form, svo þau verði léttari í meðförum. Á sama hátt virka skáldverk Sjóns alltaf létt og skemmtileg, en þeir sem vilja geta dundað sér endalaust við að ‘pakka þeim upp’ eins og frænka mín segir á sinni dönskuskotnu íslensku.

Frá því að úrvali ljóða Sjóns frá fyrstu skáldskaparárum hans var safnað saman í greinasafnið Drengurinn með röntgenaugun (1986) hefur höfundurinn sent frá sér tvær ljóðabækur, Ég man ekki eitthvað um skýin (1991) og Myrkar fígúrur (1998). Og nú er komin ný ljóðabók, Söngur steinasafnarans. Báðar fyrri bækurnar bera fyrrnefnd höfundareinkenni Sjóns, heildarmyndin er afarsterk og varla hægt að ímynda sér að hnika megi til línu eða ljóði. Það kom mér því dálítið á óvart hvað Söngur steinasafnarans virtist losaraleg og um tíma tókst mér illa að fá á hana mynd. En svo fór ég að hnjóta um steina úti um allt og þá small þetta saman. Fyrir utan steinana stinga tveggja lína náttúruljóðastef sér víða niður, en skemmst er að minnast náttúrulýsinga skáldsins í Skugga-Baldri (2003). Fyrsta ljóðið er líka náttúruljóð, “á ferð með vísum manni”, og er, þrátt fyrir ítrekaðan endurlestur, óþarflega veik og hefðbundin byrjun á annars sterkri og óvenjulegri bók. En síðan taka myndir Sjóns að hlaðast upp; maður bíður átekta til að geta hlaupið til og varpað skugga á dómkirkjuna, ósvikinn héri mætir í fermingu Júníu og í ljóðunum “allt sem við lærum í sextíuogáttaára bekk” og “fórnargjafir handa 22 reginöflum” streyma fram dæmi um allt það sem við höfum lært að gerir skáldskap Sjóns bæði einstakan og heillandi: “prestar sem ferðast með neðanjarðarlestum / kallast farþegar...” (en ekki hvað?), “í þrjúþúsundeitthundraðastaogáttunda eintaki / af þriðju prentun á sjálfstæðu fólki / er bjartur í sumarhúsum nefndur karlotta mayer...” (nú?), “þegar flóin og steypireyðurinn hittast í alfræðibókinni eru þau jafn stór” (alveg rétt), og í fórnargjafir til reginaflanna henta meðal annars “golfsett úr mannabeinum”, “hópur af hungruðum sléttuúlfum” og “visnuð páfaeystu”.

Og svo eru það allir steinarnir. Sá fyrsti er mjúkur og lagður í hendur karli sem álpast uppá þurrkloft og hittir “þrjár konur sem allar / sýsluðu með svart efni: tré, garn, járn.” Sá steinn endar að lokum í höfði mannsins, eftir að hann finnst dauður í læk, og “skelin / hló hvítþvegin við nýkviknaðri vorsólinni.” Í “steinum” er sagt frá fólki og dýrum sem fá steina í höfuðið svo mjög að félagar “í samtökum steinasafnara í lundúnum” undrast og óttast. Ekki má heldur gleyma “steinþrykki” Edvards Munch af Marie Curie, en það er týnt og hver sem dreymir það er feigur. Í “söng steinasafnarans” finnst steinasafn sem hann óttaðist týnt og glatað. Steinninn fær svo hápólitíska merkingu í lokaljóði um grýtta konu, “tilraun til endurlífgunar dúu khalil aswad”. Allir þessir og allskonar steinar öðlast nýtt líf í ljóðum Sjóns, þeir eru furðuskepnur sem þjóna ólíkum hlutverkum og búa yfir undarlegum öflum.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007