Jónas, sögumaður Sorgarmarsins eftir Gyrði Elíasson, á meira sameiginlegt með nafna sínum í hvalnum en hann grunar sjálfan þótt hann taki vissulega eftir þessari tengingu – enda hlustar hann stundum á hvalasöng. Hvala-tengingarnar liggja víðar því ísskápurinn í bústaðnum þar sem hann dvelur minnir á hvítan hval og er af tegundinni ISMAEL. Eins og sá í Biblíunni má segja að þessi Jónas hafni því sem guð/örlögin bjóða honum að gera, hann hafnar raunar all flestu. Hann hefur dregið sig í hlé frá konu sinni, vinnu sinni og lífinu og komið sér fyrir í bústað í litlum bæ á Austurlandi.
Með Sorgarmarsinum lýkur þríleik Gyrðis um líf og störf listamanna sem hófst með Sandárbókinni sem sneri að málaralistinni og svo Suðurglugganum sem fjallaði um ritlistina.
Jónas í Sorgarmarsinum er raunar textasmiður en þrátt fyrir að vinna á auglýsingastofu færist hann sífellt lengra frá hinu talaða orði. Þetta virðist hafa verið að ágerast lengi. Anna, konan hans, segir hann aldrei tala um neitt – í öllu falli ekkert sem máli skiptir. Og það má til sanns vegar færa að hann skorast undan flestum samtölum og raunar samskiptum sem daglegt líf í litlum bæ austur á fjörðum býður uppá. Þegar hann lítur til baka má að öllum líkindum rekja þetta til atburða úr fortíðinni, barns sem aldrei var til, en markaði svo sannarlega spor í sálarlíf aðalsöguhetjunnar sem og konu hans. Jónas forðast samtöl við fólk, talar sífellt minna við Önnu í símann og á orðið erfitt með að raða saman orðum fyrir auglýsingastofuna. Í staðinn fyrir orð treystir hann sífellt meira á hljóð og tóna. Aðeins þar finnur hann hugarró, aðeins þar tilgang og líf. En hann hefur ekki hugsað sér að gera neitt með þessa tónlist – í öllu falli ekki fyrr en í útför sinni.
Á einhvern hátt er eins og Jónas hafi gefist upp fyrir lífinu – og jafnvel dauðanum. Hann lítur svo á að hann fái engu ráðið um örlög sín. Ef konan ákveður að fara frá honum er ekkert sem hann getur gert í því – ef auglýsingastofan rekur hann er það sömuleiðis ekki í hans höndum. Ef Andrés frændi konunnar hans ákveður að hann vilji fá bústaðinn sinn aftur mun Jónas bara að fara. Þegar hann týnir minnisbókinni með tónsmíðum sínum má finna smá viðleitni til að endurheimta bókina, enda eigenda sínum afskaplega mikilvæg. En það er þó með hálfum hug – hann veit sem er að þetta þýðir ekkert – skiptir engu máli. Með öðrum orðum þá er Jónas orðinn sérfræðingur í að firra sig ábyrgð á eigin lífi. Með því að vera aðgerðarlaus finnst honum hann vera hlutlaus en það er hann að sjálfsögðu ekki. Þögn er aldrei hlutleysi. Þögn, skortur á orðum, segir meira en mörg orð og fríar þann sem þegir svo sannarlega ekki ábyrgð. Með því að vinna ekki verkefnin frá auglýsingastofunni segir hann upp (hann gerir sér þó grein fyrir því sjálfur), með því að hætta að tala við konuna sína er það í raun hann sem setur punktinn aftan við samband þeirra. Eigandi bústaðsins, Andrés, myndar ákveðna hliðstæðu við sögumanninn. Meðan Jónas dvelur í bústaðnum m.a. til að forðast flækjurnar í lífi sínu hefur Andrés greinilega yfirgefið hann af svipaðri ástæðu – hann á ýmis mál eftir óuppgerð á Austurlandi.
Upplýsingar um konuna og barnið (sem aldrei var) koma í hviðum, örfá orð hér, ein setning þar. Jónas forðast að velta sér upp úr slíkum persónulegum hlutum. Það eina sem hann leyfir sér virkilega að hugsa um er tónlistin, bæði sú sem hann hlustar á en ekki síður hin sem bærist innra með honum. Hann er sem friðlaus maður þar til hann hefur náð að skrásetja stefin sem spretta úr umhverfinu í kringum hann. Allt verður honum innblástur, sláttuvél, regn, hraðsuðuketill og svo fuglasöngurinn! Til að byrja með finnst honum nánast fyrir neðan beltisstað að skrásetja söng fuglanna og umbreyta í nýtt tónverk. Hann veltir líka fyrir sér öðrum tónskáldum, lifandi og látnum, og vangaveltur hans eru ástríðufullar og jafnvel sprúðlandi. En þótt hann lifi og andi tónlist myndi hann aldrei titla sjálfan sig sem tónskáld – enda mun enginn heyra hans tónlist – nema þá eftir hans dag. Þar vakna spurningar um gildi listarinnar og tilvistarrétt. Ef enginn fær að njóta tónlistarinnar – hver er þá tilgangur hennar? Hefur hún gildi í sjálfu sér þótt hún sé ekki flutt – er kannski nóg að hún gleðji þann sem semur? Er listsköpunarferlið mögulega hápunktur verksins á einhvern máta? Hér spilar líka inn í að flest allt sem Jónas skrifar eru hugmyndir, stef – hann á síðan eftir að fullvinna hugmyndirnar og gera úr þeim tónverk. Hvort sú stund kemur er óvíst. Þegar minnisbók, full af óunnum hugmyndum glatast – hefur hún samt gildi bara með því að hafa verið til, ófullkomnuð, í skamma stund? Hér liggja undir áhugaverðar spurningar um gildi listarinnar og um sköpunarþrána. Hjá Jónasi virðist hún yfirgnæfa flest annað og verður að lokum það eina sem skiptir máli, alls óháð nokkurri hugmynd um viðurkenningu.
Sem fyrr er Gyrðir meistari þess að draga upp óhemjusterkar myndir í fáum dráttum. Bókin er knöpp og textinn ljóðrænn og fallegur en þó án skrauts eða nokkurrar tilgerðar. Hann er lágstemmdur og kyrrlátur þótt undiraldan sé þung. Þó læðist á stundum einhver léttleiki eða húmor inn í vitund sögunnar þótt frásögnin sé harmræn. Bak við firnasterkan og fallegan texta Sorgarmarsins hljómar fuglasöngur, tónlist Mozarts, Lizts og fleiri tónskálda og mynda hljómfagurt en angurvært undirspil við lífið. Verkum Gyrðis hefur oft verið lýst sem konfektmolum og það má til sanns vegar færa að lesandinn stendur sig að því að vilja treina textann – ekki gleypa hann í sig heldur njóta hans.
Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018