Beint í efni

Steinhjartað

Steinhjartað
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Steinhjartað er þriðja bók Sigrúnar Eldjárn um systkinin Stínu og Jonna og vini þeirra. Í fyrstu bókinni, Týndu augunum, voru þau stödd í sveit, en þangað voru þau send eftir að móðir þeirra dó. Þau ákveða að strjúka en lenda þá í villum og ævintýrum. Næstu bók, Frosnu tærnar, hef ég ekki lesið, en þar hefur greinilega ýmislegt gerst sem bætti við þá dularfullu þjóðsagna- og ævintýra heimssýn sem birtist í fyrstu bókinni, auk þess sem þau hafa eignast nýjan vin, Skafta.

Í upphafi Steinhjartans eiga systkinin von á Skafta í heimsókn, þau búa nú í borginni með föður sínum, en það kemur ekki í veg fyrir að ýmislegt skrýtið gerist - til dæmis að Stína fái heimsókn frá talandi hrafni og ómálga félaga hans. Í kjölfar þeirrar óvæntu heimsóknar uppgötvar Stína gamla dagbók móður sinnar, en þar skráði hún hitt og þetta undarlegt - meðal annars það að hafa undarlegan mann með tvo hrafna á öxlunum ... Og þannig hefst bráðsnjöll flétta þessarar ævintýralegu og heillandi barnabókar, þar sem ferðast er um bæði í tíma og rúmi, og óvæntar uppákomur í lífi móðurinnar, Kristínar, eiga sér svörun í ævintýralegum og háskalegum atburðum í lífi Stínu. Á þennan hátt er unnið á sérlega fallegan hátt með sorg barnsins og þörf þess til að upplifa nánd við látna móðurina, auk þess sem dagbókar-tímaflakkið er flott leið til að knýja ævintýrið áfram. Í þriðja lagi býður dagbókar-temað Sigrúnu upp á leik með myndlýsingar og hönnun, en sem fyrr myndskreytir Sigrún bækur sínar á sinn leikandi og áhrifamikla hátt.

Söguþráðurinn er síðan sá að á meðan Stína talar við hrafnana finnur litli bróðir hennar, Jonni, galdragöng inni í uppþvottavél nýs pizzustaðar sem á að opna á neðstu hæð hússins sem þau búa í. Göngin koma að góðum notum þegar þau uppgötva að Skafti hefur villst uppí ranga flugvél og flogið til útlanda í stað þess að koma til borgarinnar og í útlandinu hefur hann lent í hremmingum. Því nú eru nokkrir illskeyttir dvergar orðnir ósáttir við yfirgang mannanna og vilja taka heiminn yfir, með tilheyrandi leynivopni. Já, það er margt skrýtið og skemmtilegt hér, og margt sem er vert umhugsunar. Það er til dæmis sérlega skemmtilegt að sjá hvernig Sigrún vinnur með þjóðsagnaarfinn og klassísk ævintýratemu - umræður dverganna um átök við mennina má til dæmis vel skoða sem vangaveltur um stöðu slíkra ævintýra- og þjóðsagnavera í nútímanum, og hvort okkur sé ekki hollt að gefa slíkum fantasíum greiðan aðgang að hugskotum okkar, ímyndunarafli og, jafnvel, daglegum veruleika.

En hvað um það, eins og allar góðar bækur býður Steinhjartað uppá allt í senn, tilfinningalegar og vitrænar vangaveltur, og góða skemmtun.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2006