Beint í efni

Steintré

Steintré
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Nýjasta smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Steintré, hefur ekki beinlínis vakið uppþot á misvitrum jólabókamarkaðnum, en hefði gjarnan mátt gera það, umræðan hefði eflaust orðið skemmtilegri fyrir vikið. Hér eru margs konar sögur á ferð sem allar kalla á nánari könnun.

Að sjálfsögðu má greina hér mörg af höfundareinkennum Gyrðis og temu hafa sum hver birst áður; skrifin, hjónabandserfiðleikar, reimleikar o.fl., en verk hans eru stöðugt að þróast og umbreytast smám saman, þótt ekki gerist það með látum. Sögumenn og aðalpersónur eru yfirleitt fullorðnir, en þó eru börn í aðalhlutverki í sumum sögunum eins og í eldri verkum Gyrðis. Gyrðir hefur sent frá sér fjölmörg smásagnasöfn og hér er enn eitt dæmið um hvernig honum tekst að binda saman ólíkar sögur án þess að þær séu njörvaðar niður um of í eitthvert utanaðkomandi samhengi. Það má finna tengingar hér og hvar sem verða meira áberandi eftir því sem líður á verkið, svo stundum finnst manni einhver blær óþols yfir sögunum – eins og þetta efni þurfi að skoða betur, fara dýpra í, endurtaka með tilbrigðum. Það á til dæmis við um sögurnar „Fuglamálarinn frá Boston“ og „Sumarbókin“, þar sem tveir Bandaríkjamenn heimsækja Ísland, annar til á mála fugla, hinn til að skrifa. Fuglamálarinn virðist gera sér grein fyrir að fuglamálunin sé orðin að einhvers konar óhollri áráttu og hættir við allt saman, hringir í konu sína og segist vera að koma heim. Rithöfundurinn fyllir hins vegar hverja minnisbókina á fætur annarri, á meðan konan hættir við að koma til hans.

Líf á mörkum, skilum, eða mærum er áberandi í sögunum. Hér gerast atburðir milli lífs og dauða, í miðjum sambandsslitum, við upphaf nýs lífs, og þetta millibilsástand finnur sér sinn stað á gistiheimilum, hótelum, skrifherbergjum og lánshúsum, sem virðast bjóða upp á þetta rými milli hins þekkta og óþekkta þar sem persónurnar neyðast til að horfast í augu við þetta ‘millibilslíf’. Síminn og þá sérstaklega farsíminn er samskiptatæki hjónanna í nokkrum sögum, sem undirstrikar fjarlægðina og ófullkomin tjáskiptin. Mörk og skil hafa löngum verið frjór jarðvegur fyrir skáldskap af ýmsu tagi. Þess konar samhengi kallar á spurningar eins og ‘hvers vegna er málum svona komið?’ og ‘hvernig mun þetta leysast?’ Það er gjarnan nýtt í öllum uppgjörunum í natúralísku leikhúsi og stundum er einmitt talað um að smásagnaformið kalli á að einhvers konar ástand sé leyst, eða komið auga á það. Hér er þó sjaldnast um slíkar klárar lausnir að ræða og ‘uppgjörin’ eru yfirleitt óræð, það er kannski fremur millibilsástandið sjálft sem er í forgrunni, en spurningin hvort halda eigi áfram eða nema staðar um stund leitar á margar persónurnar. Og sumar fá ný gleraugu og halda með þau ótrauðar í átt til nýs lífs eins og „Flyglakaupmaðurinn“.

Bækur safnast upp í mörgum sögunum og í þeim fæst ekki endilega huggun og hlýja í hörðum og köldum heimi, heldur er frekar eins og þær skapi fjarlægðir milli fólks, séu árátta sem erfitt er að berjast við og séu fyrst og fremst merki einmanaleika, má þar nefna söguna „Bók af bók“ sem minnir aftur á áráttu fuglamálarans og söfnunaráráttu drengsins í „Fuglaveiðum“ sem skýtur alla flækingsfugla sem hann sér og safnar oní frystikistu. Bæði í sögum af börnum og fullorðnum eru fjarlægðir milli fólks sem ekki verða brúaðar, fjarlægðir sem skilja eftir sig opin sár, rétt eins og hundsbitið í „Týnda Grimmsævintýrinu“. Þetta gerir sögurnar oft á tíðum tregafullar, þó án leiðigjarnrar viðkvæmni og margar einkennast að sjálfsögðu af skemmtilegum húmor eins og önnur verk höfundar. Það fer ekki milli mála að Steintré er mikilvæg viðbót við höfundarverk Gyrðis, skref á þróunarbraut höfundar sem vert er að lesa aftur og aftur.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2005