Beint í efni

Sterk

Sterk
Höfundur
Margrét Tryggvadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ekki hefur farið mikið fyrir frásögnum af trans fólki í íslenskum skáldsögum til þessa, í það minnsta ekki í barna- og ungmennabókum. Í nýútkominni unglingabók Margrétar Tryggvadóttur, Sterk, fer höfundur því nokkuð ótroðnar slóðir með aðalpersónunni Birtu, sem er þegar sagan hefst nýlega komin út sem trans.

Birta er 17 ára og nýflutt til Reykjavíkur. Hún er alin upp á sveitabæ skammt frá Ísafirði en eftir að foreldrar hennar og vinir bregðast illa við þegar hún segir þeim að hún sé trans, sér hún fram á að hún verði að komast að heiman og burt frá æskuslóðunum. Hún þarf frið frá hugmyndum og væntingum annarra um hvernig hún eigi að vera til að geta hafi nýtt líf og verið hún sjálf. Þegar hún hefur safnað sér í sjóð fyrir veturinn skráir hún sig í nám í Tækniskólanum og tekur herbergi á leigu í Miðtúni. Námið sem hún velur er ekki kennt í menntaskólanum heima og það gefur henni gilda ástæðu til að flytja að heiman þrátt fyrir ungan aldur. Hún er í litlu sambandi við foreldra sína sem eru mjög ósátt við hana og hún hefur ekki talað við gömlu vinina í langan tíma. Birta er þannig ein í Reykjavík en deilir íbúðinni í Miðtúni með fjórum ókunnugum og meðleigjendur hennar virðast helst eiga það sameiginlegt að vera nokkuð utanveltu í samfélaginu eins og hún sjálf. Tveir pólskir verkamenn deila einu herberginu og í hinum tveimur búa tvær erlendar konur sem Birta veit engin nánari deili á. Íbúarnir halda sig mest fyrir sig og í herbergjunum sem konurnar leigja staldra leigjendur yfirleitt stutt við. 

Birta vill helst láta sem minnst fyrir sér fara á meðan hún nær áttum og það reynist ekki erfitt í Reykjavík þar sem henni tekst auðveldlega að hverfa í fjöldann. Þó hún umgangist fáa hefur hún engu að síður eignast bestu vinkonu í bænum, Blæ, sem er líka trans en ólíkt Birtu hefur Blær stuðning fjölskyldu sinnar og vina. Blær er sjálfsörugg, opin og hress og er auk þess bæði sæt og stelpuleg, sem Birtu finnst hún sjálf eiga langt í land með. Hún er sjálf mjög hlédræg og leggur sig fram um að kynnast hvorki þeim sem hún deilir íbúð með né samnemendum sínum í skólanum.

Henni bregður því nokkuð þegar Jóhanna, sem er með henni í forritunartímum, biður hana um að vera með sér í hópverkefni. Jóhanna er bæði sæt og skemmtileg og Birta er hissa og ánægð með hvað þær ná vel saman, bæði í verkefninu og utan þess. Jóhanna virðist líka hafa áhuga á meiru en bara vináttu og Birta er bæði spennt og svolítið óörugg með framhaldið. Skömmu áður en félagslíf Birtu tekur óvænt við sér fer hana að gruna að ekki sé allt með felldu hjá einni af konunum sem leigir herbergi á móti henni. Þegar konan hverfur og Birta finnur blóð á veggnum á klósetti íbúðarinnar stendur henni ekki lengur á sama. Konan í hinu herberginu hefur heldur ekki sést lengi og Birta er hrædd um að eitthvað slæmt hafi komið fyrir þær. Hún finnur að hún verður að grennslast fyrir um málið, þó að hana langi mest til að halda áfram að loka sig af og láta eins og ekkert sé. Hún fær Blæ með sér í lið og þær komast fljótt að því að horfnu konurnar tvær eru bara toppurinn á ísjakanum. Birta er allt í einu flækt í hættulega atburðarás sem gæti stofnað bæði henni og þeim sem henni þykir vænt um í mikla hættu.

Sterk er sannkölluð Reykjavíkursaga, þar sem borgin kemur mikið við sögu. Birta leigir í Miðtúni, gengur í Tækniskólann á Skólavörðuholti, hittir Blæ á Hlemmi og labbar með henni upp í Brautarholt, og fer svo í Bónus í Skipholti til að versla í matinn. Miðpunktur atburðarásarinnar er í upphafi heima hjá Birtu í Miðtúni en færist svo í hið löngu yfirgefna Baðhús í Brautarholti, þegar Birta og Blær fara að leita að vísbendingum um konurnar. Húsið er sérlega vel til fundinn vettvangur glæpa og myrkraverka, það er risastórt og hefur staðið autt í nokkurn tíma (þangað til nýlega), á besta stað í bænum, útkrotað með neglt fyrir glugga og ekki erfitt að ímynda sér að eitthvað gruggugt hafi farið fram þar í skjóli myrkurs.  

Sagan hverfist annars vegar um Birtu og nýtt líf hennar í borginni og hins vegar um rannsókn hennar á því hvað hefur orðið um konurnar tvær. Lesandinn fær innsýn í hugarheim Birtu, fortíð hennar og væntingar til framtíðarinnar, meðal annars í gegnum upprifjanir hennar á uppvextinum á Ísafirði, samskiptum við foreldrana og gömlu vinina, en líka í gegnum samband hennar við Blæ og síðar Jóhönnu þegar hún er komin til Reykjavíkur. Hún veltir fyrir sér líkamanum, klæðaburði og útliti og því er lýst á afar næman hátt hvernig hún fikrar sig áfram og prófar hvað hentar henni. Hugsanir Birtu fléttast saman við hversdagslegt líf hennar í skólanum og í vinnunni sem Blær reddar henni með náminu, en Blær er í kokkanámi og kemur Birtu í uppvaskið á veitingastaðnum þar sem hún er sjálf í starfsþjálfun. Þó að þær nái ekki að hittast mikið eða spjalla saman í vinnunni leitar Birta mikið til Blævar þegar eitthvað kemur upp á og Blær gefur henni ráð og reynir að stappa í henni stálinu. Áhyggjur af konunum tveimur vega strax í upphafi þungt á Birtu. Hún veltir mikið fyrir sér hvað gæti hafa komið fyrir þær og notar ýmis ráð til að leita að upplýsingum. Blær og síðar Jóhanna taka þátt í rannsókninni með henni en það kemur í ljós að málið er flóknara og hættulegra en þær grunaði. Sagan endar í mjög dramatísku og spennandi lokauppgjöri þar sem reynir á útsjónarsemi og styrk Birtu, bæði andlegan og líkamlegan. 

Hvarf kvennanna tveggja hefur ýmis áhrif á líf Birtu og verður meðal annars til þess að hún fer að spjalla við pólsku meðleigjendur sína. Þeir reynast hinir almennilegustu og tekst ágætis vinátta með þeim þremur þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og svolitla tungumálaerfiðleika. Þeir félagarnir hafa innsýn í heim sem Birta veit ekkert um enda reynsluheimur erlends vinnuafls á Íslandi fjarri veruleika hennar. Þeir hafa ákveðnar kenningar um konurnar sem leigja með þeim og meðal annars í gegnum lýsingar þeirra fær Birta, og lesandinn með henni, smjörþefinn af skuggalegum heimi mansals og vinnuþrælkunar, sem hefur verið töluvert í umræðunni undanfarin ár. 

Sterk er marghliða og grípandi saga. Þar er skyggnst inn í veruleika Birtu, sem hefur þurft að takast á við höfnun og útskúfun fjölskyldu og vina og er að reyna að ná áttum í lífinu á sínum eigin forsendum. Sagan er einnig æsispennandi glæpasaga af horfnu meðleigjendunum tveimur, konum sem eiga engan að og sem enginn skiptir sér af. Þó að Birta vilji helst gleyma þeim og láta eins og ekkert hafi gerst, nær samviska hennar yfirhöndinni og hún getur ekki horft framhjá því að eitthvað hræðilegt gæti hafa komið fyrir þær. Á sama tíma og hún reynir allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa konunum, og er líklega eina manneskjan sem lætur sig hvarf þeirra einhverju varða, þarf hún að reyna að ná jafnvægi og fótfestu í sínu eigin lífi. Eftir viðbrögðin sem hún fær frá foreldrum sínum og gömlu vinunum þegar hún kemur út sem trans reynir hún að vera eins ósýnileg og hún mögulega getur en í gegnum söguna má sjá hvernig hún eflist og styrkist. Hún kemur smám saman út úr skelinni og kynnist nýju fólki. Hún sættist auk þess að einhverju leyti við fortíðina og þá sem hafa komið illa fram við hana og undir lokin má sjá glitta í von um bjartari framtíð þrátt fyrir allt sem hefur gengið á.

María Bjarkadóttir, júní 2021