Stolnar raddir er fyrsta skáldsaga Hugrúnar Hrannar Kristjánsdóttur og samkvæmt Gegni, samskrá bókasafna, hefur ekkert annað komið út eftir hana. Ég vissi því ekkert á hverju ég átti von þegar ég hóf lesturinn. Eins og nær allar aðrar nýjar bækur sem ég hef lesið fyrir þessi jól hefst sagan á dagsetningu sem er þægileg leið til að ramma inn sögutímann. Söguhetjan, Sóllilja, fylgist með ömmu sinni koma heim og fer í framhaldi af því að rifja upp atburði sem áttu sér stað nokkrum mánuðum áður.
Sóllilja er rúmlega tvítug háskólastúdína og býr í kjallaranum hjá ekkjunni ömmu sinni. Í húsinu býr einnig dóttir hennar, sem hún eignaðist á unglingsaldri, og heyrnarlaus móðurbróðir. Sóllilja er nýbúin að fara í fóstureyðingu, er spennt fyrir eldri manni og að guggna á náminu í háskólanum. Mitt í öllu þessu fer hún að fikta í trúlofunarmynd af ömmu sinni og afa og finnur þá aðra mynd þar á bak við. Á þeirri mynd er amma hennar með ókunnum manni. Sóllilja, sem ekki veit annað en að afi hennar og amma hafi lifað í hamingjusömu hjónabandi, verður forvitin og fer að grennslast fyrir um óþekkta manninn. Inn í söguna fléttast svo fjölskylda Sóllilju, mamma hennar, stjúpi og hálfsystkini. Vinkonan Klara og miðaldra elskhuginn, Krummi, leika líka stór hlutverk. Saga Sóllilju er öðru hvoru brotin upp af sögu ömmu hennar frá því hún var ung stúlka í tilhugalífinu og síðar eiginkona og móðir.
Það er gamalkunnugt þema í bókmenntum að söguhetjan finnur mynd sem síðan verður til þess að upp vakna spurningar um leyndardóma fortíðarinnar. Hér verður fundurinn til þess að Sóllilja fer að hugsa um samband afa síns og ömmu og örlög afans, en hann lést af slysförum þegar hún var barn. Hins vegar fæst aldrei nein skýring á því af hverju aukamyndin er geymd á bak við trúlofunarmyndina. Hún er eingöngu tæki höfundar til að koma atburðarrásinni af stað.
Stolnar raddir er skemmtileg reykvísk samtímasaga. Sóllilja er hæfilega frökk og lesendur eru ekki alltaf sammála skoðunum hennar og sýn á heiminn. Hún minnir á stundum á sögupersónur bresku skáldkonunnar Lauren Henderson sem hefur m.a. skrifað bækur sem falla undir það sem Bretar (og kannski fleiri) kalla Tart Noir.
Að lokum verð ég að fá að kvarta yfir kápunni. Margumræddri trúlofunarmynd er lýst nákvæmlega í sögunni, og það oftar en einu sinni. Því finnst mér að ef nota á hana sem útgangspunkt á bókarkápu sé ekki nóg að skella þar upp einhverri svart-hvítri ljósmynd frá Getty Images. Þetta er sama umkvörtunarefnið og varðandi kápuna á bók Jónínu Leósdóttur Allt fínt ... en þú. Hvoru tveggja skemmtilegar bækur eftir vel ritfærar konur sem eiga það fyllilega skilið að útgáfan leggi metnað í að gera kápur bóka þeirra þannig að til sóma sé fyrir alla aðila.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2010.