Hún er fótviss á svellinu, verðlaunaskáldkonan Gerður Kristný, og hefur greinilegan meðbyr. Strandir er hennar fimmta ljóðabók og býr yfir öllum því sem einkennt hefur skáldskap Gerðar til þessa: öguðu og knöppu myndmáli, nokkurri hörku í bland við húmor, og tilvísunum í skáldskap, skáld og goðafræði.
Bókin skiptist í fjóra hluta, en síðasti hlutinn er í raun eitt langt ljóð eða ljóðabálkur sem nefnist „Skautaferð“. Fyrsti hlutinn gerist á Íslandi og er sá sem ber titil bókarinnar uppi, en fyrsta ljóðið heitir einmitt „Strandir“. Í næsta hluta erum við komin til útlanda og í þriðja hlutanum er brugðið upp ýmsum smámyndum sem hafa yfir sér yfirbragð minninga og persónulegra hugleiðinga.
Sum ljóðanna þar eru afar áhrifarík, eins og „Kleinur“, en þar steikir amman kleinur þegar hún fréttir af láti dóttur sinnar. Þegar henni er svo sagt lát sonar síns, löngu síðar, er hún „orðin háöldruð / og utan við sig“, og skilur ekki fréttirnar: „„Er búið að segja / mömmu hans það?““
Henni varð hugsað
til konunnar
sem steikti kleinurnar
hér um árið
og óskaði þess þá
af öllu hjarta
að vera einhver önnur
Þrátt fyrir harminn sem ljóðið lýsir örlar einnig á húmor sem styrkir myndina enn. Tvö næstu ljóð fjalla svo um dauðann, í því fyrra, „Níð“, birtist vel þessi harðneskja sem svo oft umlykur ljóð Gerðar: „Þorpinu gef ég glænýja höfuðátt // Handan við suður / ofan við norður / stefni ég í / dauður // Á eftir þér, / vinkona“. Hér er hvergi slakað á taumunum og leikurinn með tungumálið herðir tökin á myndinni sem brugðið er upp. „Veisla“ fjallar enn um dauðan, en þar er hann „dama á rauðum skóm“ sem býður til veislu. Tónninn er léttari og húmorinn drepur niður fæti í línum eins og „puntar með postulíni“ og „tertunum og trakteringunum“, en grimmdin er samt sem áður greinilega til staðar.
Annar kaflinn, sá sem gerist í útlöndum, finnst mér veikastur. Þó þar séu vissulega mörg skemmtileg augnablik, þá er eins og eitthvað vanti og ljóðin virka dálítið jafnvægislaus, jafnvel umkomulaus. Best heppnaða ljóðið þarna finnst mér vera „Skór Marie-Antoinette“ sem segir frá ljósmynd sem tekin var ólöglega á safni en er nú týnd. Þar nýtur sérstæð kímnigáfa Gerðar sín vel, í lýsingunni á því þegar verðirnir eru „reiðubúnir að / fleygja sér í veg fyrir / myndavélaleiftrið“.
Í „Stranda“-kaflanum er skáldkonan meira á heimavelli (afsakið), og þrátt fyrir að ljóðin séu ekki öll jafnsterk þá er heildarmyndin falleg og vel heppnuð. Þessi hluti er nokkuð í anda fyrri bóka skáldkonunnar. Titilljóðið er glæsilegt dæmi um þann kraft sem kallaður er fram í vandlega tálguðu og fægðu myndmáli:
Að vetri
er aðeins fært
hugleiðinaSængurhvít sveitin
breiðir úr sér
innan við augnlokinBjarndýr snuddar í snjó
nær síðasta jaka
til baka
Skiptin milli hins hlutlæga og huglæga eru ör, og viðkoman í hvítu líni rúmsins spannar hvorttveggja, hið efnislega og flug hugarins. Við endum svo í einhverskonar ævintýraheimi þar sem bjarndýrin ferðast á sinn hátt, þrátt fyrir ófærðina.
„Maðurinn með ljáinn“ birtist óvænt á gamalli ljósmynd og er með hnausþykk gleraugu, í fjöru á Snæfellsnesi eru hræ höfrungs og kindar sem hafa háð þar bardaga, ljóðmælandi veðjar á kindina: „glottið ber vott um / glæstan sigur“. Tjaldurinn færir vorið í „Vor í Skerjafirði“ og á Vestdalseyri fæðist stjarna á skondinn hátt. Þarna eru tvö jólaljóð, annað heitir „Kjötkrókur kemst í feitt“ og er skemmtilega skörp – og myrk – úttekt á kynjamyndum sveitarómantíkurinnar.
Það sem stendur þó upp úr er ljóðabálkurinn „Skautaferð“ sem er með því besta sem skáldkonan hefur sent frá sér. Í honum má sjá skyldleika við verðlaunabókina Blóðhófni (2010), en jafnframt er hann gerólíkur því ljóði. Þegar hafa birst í bókinni þemu dauða, sorgar og söknuðar, en þetta nær hámarki í ljóðabálkinum, sem lýsir einhverskonar aðskilnaði, á þann hörkulega og nístandi hátt sem einkennir ljóð Gerðar. Það er ekki gott að gera grein fyrir ljóðinu, en í upphafi virðast tvær konur sitja við útsaum þegar kuldi kemst inn í stofuna og vök opnast í gólfinu sem sú sem ávörpuð er stingur sér niður í. Ljóðmælandi vaktar vökina, „bind vonir í vönd / og varpa ofan / í myrkrið“.
Sorgin hringar sig
í hugskoti mínubýr sig undir
langa dvöl
ratvís og reyndÁ dauða þínum
á ég von
Svo kemur Miðgarðsormurinn við sögu, „rís / úr opinu // Skrápurinn gljáandi / augasteinn // Ugginn myrkvað segl“. Konan kemur upp úr vökinni og tekur til við saumaskapinn á ný, nema nú saumar hún í húð ljóðmælanda:
Þú hefur
spyrt mig við þig
bráðum fennir
okkur inniHingað berst
aldrei hjálpÁ milli okkar
þráður snúinn úr
þörf fyrir ástvið hvert
skref
tekur í saumana
En vökin opnast á ný og ormstungan stingst út, „Nafn þitt / er nefnt“. Aftur kastar konan sér í vökina og sporin í húð ljóðmælanda rakna upp. Og þar með hefst sjálf skautaferðin, „Ísinn er heldur!“ „Það gneistar undan / flugbeittum járnunum / á fótum mér“ og þrátt fyrir að sólin skíni eykst ógnin enn, það sést til hafs og „Jakar / skjóta kryppu / upp úr haffletinum“. Ljóðmælandi sneiðir hjá sprungum og leiðir hjá sér „dimman / yminn / úr djúpinu“ en „Undir ísnum“ er „skuggi af ugga“.
Napur kuldinn leikur um þau tilfinningalegu átök sem þarna er lýst og heljartök myndmálsins gefa ekkert eftir. Ljóðið lýsir greinilegri ógn, en uppspretta hennar er ekki ljós, er ljóðmælanda ógnað eða er hún sú sem ógnar? Ísinn er burðarásinn í ljóðinu og birtist bæði sem lifandi vera og frosinn fasti, í senn skil milli heima og spegill. Eins og svo oft áður nýtist ísinn Gerði vel til að kalla fram tvíeggjaðar myndir, skapa ískalda, en þó glerjaða – næstum fíngerða – umgjörð og knýja fram átakanlega togstreitu hörku og viðkvæmni.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012