Beint í efni

Stúlka með perlueyrnalokk

Stúlka með perlueyrnalokk
Höfundur
Tracy Chevalier
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Það sem er kannski mestur vandi við að semja sögulegar skáldsögur er að finna sjónarhorn á þá atburði sem lýst er. Hefðbundin mikilmenni sögunnar eru oft svo yfirþyrmandi í stærð sinni og sögurnar sem til eru af þeim svo margar að það kaffærir sögur að hafa þær í miðpunkti, það verður ekkert rými til að skálda. Algeng aðferð til að komast hjá þessum vanda er sú að gera óþekktar eða tilbúnar persónur sem standa í nánu sambandi við fræga einstaklinga að aðalpersónum og lýsa heimi fortíðarinnar frá sjónarhóli þeirra sem eru í aukahlutverki í mannkynssögu mikilmennanna.

Hugmyndin að skáldsögu Tracy Chevalier, Stúlku með perlueyrnalokk, er af þessu tagi og hún er nokkuð snjöll. Aðalsöguhetjan, Griet, er fátæk stúlka í Amsterdam á sautjándu öld. Þegar faðir hennar lendir í slysi verður hún að sjá fyrir fjölskyldunni og gerast vinnukona. Heimilið sem hún hafnar á er ekki af verri endanum, húsbóndinn er einn af frægustu listamönnum listasögunnar, málarinn Vermeer. Griet er góðum gáfum gædd, hún hefur augljóslega hæfileika sem myndlistarmaður og Vermeer kemur auga á þetta. Skömmu eftir að hún kemur inn á heimilið er hún þess vegna farin að aðstoða hann við að búa til liti og halda vinnustofu hans í lagi. Slík upphefð venjulegrar vinnukonu er auðvitað fáheyrð og afleiðingin verður sú að á heimilinu skapast mikil spenna milli Grietar annars vegar og húsmóður hennar, barna hjónanna og eldri vinnukonu hins vegar. Þessi spenna og samband Grietar við Vermeer eru aðalefni sögunnar, en út við sjóndeildarhring er slátrarasonurinn Pieter, jarðbundinn og góður maður sem tilbiður Griet og býður henni líf sem er öruggt en skortir þá spennu sem tengist snillingnum Vermeer og samvinnu þeirra Grietar í listinni.

Það er ástæðulaust að rekja frekar gang sögunnar, en hann er ofurlítið fyrirsjáanlegur. Persónurnar, aðrar en Griet sjálf, eru kunnuglegar og samskipti þeirra fara eftir þekktum brautum, það er galli á sögunni að aukapersónurnar eru flestar litlausar týpur fremur en margbrotnar persónur. Meginkosturinn við Stúlku með perlueyrnalokk er á hinn bóginn lýsingin á hlutskipti vinnukonunnar í stéttskiptu samfélagi sautjándu aldarinnar og lýsingin á sambandi Grietar og listamannsins Vermeer. Griet vinnur öll þau slítandi og erfiðu störf sem vinnukonu eru ætluð og örlög hennar eru lík örlögum milljóna annarra. Það sem gerir hana áhugaverða er að hún fær innsýn inn í annan heim, þar sem hún ætti með réttu heima fremur en margir þeirra sem voru fæddir inn í hann.

Persónlulýsing Grietar er vel heppnuð, hún verður lifandi og margbrotin persóna, alls ekki gallalaus og á bæði til stórlæti og hofmóð, þótt hún sé lágt sett. Á baksíðu íslenskrar útgáfu sögunnar kemur fram að eftir sögunni hefur verið gerð kvikmynd með Colin Firth í aðalhlutverki; væntanlega búningadrama frá Amsterdam sautjándu aldarinnar. Það kemur ekki á óvart. Þetta er slétt og felld saga, ástarsaga og tímabilslýsing, sambland af sögulegri skáldsögu og svolítið kitlandi rómönsu, algerlega skothelt efni í rómantíska bíómynd. Sem er hið besta mál. Stúlka með perlueyrnalokk er kannski ekki frumleg bók en það sem hún ætlar sér tekst henni vel.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003