Beint í efni

Stúlkan hjá brúnni

Stúlkan hjá brúnni
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Forlög koma ofan að,
örlög kringum sveima,
álögin úr ýmsum stað
en ólög fæðast heima.

 

Þessi vísa Páls Vídalíns kom upp í hugann við lestur á nýjustu skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, Stúlkan hjá brúnni. Þar kemur hann víða við í sögu sem fléttar saman atburði úr fortíð og nútíð, vísar til drauga fortíðar, forlaga, örlaga, álaga og þó sérstaklega ólaga. Segja má að grunnstefin séu spurningar um trú, traust og trúnað sem birtast á ólíkan hátt. Áherslan er þó á stöðu kvenna og heimasmíðuð ‚ólög‘ karla sem misnota þær á einn eða annan máta og komast upp með það í skjóli valds og samfélagsstöðu.

Bókin hefst á því að ungur maður finnur stúlkulík í Reykjavíkurtjörn. Árið er 1961 og ekki löngu síðar verður hin tólf ára Eygló fyrir því að sjá svip stúlkubarnsins, sem leitar einhvers. Næst er lesandanum kippt inn í samtímann þar sem Konráð, lögreglumaður á eftirlaunum, er næstum þvingaður til að aðstoða virðuleg hjón við að leita að dótturdóttur þeirra sem er háð eiturlyfjum. Í kjölfarið hefst svo atburðarás leitar og rannsókna þar sem við sögu koma upprifjanir Konráðs á lífi og dauða föður síns sem var svikamiðill og myrtur þegar Konráð var rúmlega tvítugur. Hluti þessara upprifjana tengist svo Eygló sem nú er orðin fullorðin kona. Hún er dóttir manns sem faðir Konráðs starfaði með, en sá hafði miðilshæfileika sem hann misnotaði – og arfleiddi dóttur sína að. Eygló segir Konráð söguna af stúlkunni og biður hann að reyna að grafast fyrir um það mál, sem Konráð gerir, sér þvert um geð, en hann hefur enga trú á hinu yfirnáttúrulega. Stúlkan hafði birst Eygló á ný og nú kom hún því á framfæri að hún saknaði brúðu sinnar. Inn í mál þessara tveggja týndu stúlkna blandast svo tilraunir Konráðs við að leysa mál föður síns, en morðingi hans fannst aldrei.

Líkt og svo margar skáldsögur Arnaldar gerist Stúlkan hjá brúnni á tveimur tímabilum, fyrri hluta sjöunda áratugarins og í nútímanum. Ennfremur er vísað til stríðsáranna, en móðir drukknuðu telpunnar bjó í braggahverfi á Skólavörðuholti og var meðal síðustu íbúa þar. Lesendur Arnaldar þekkja einnig forsögu Konráðs úr fyrri verkum höfundar, en hann birtist fyrst í Skuggasundi (2013). Skuggasund gerist einnig á mismunandi tímum, stríðsárunum og nútímanum, með viðkomu á sjöunda áratugnum þar sem fyrst er sagt frá svikastarfsemi föður Konráðs og dauða hans. Í þeirri bók var nokkur áhersla lögð á að segja sögu Skuggahverfisins og í Stúlkunni hjá brúnni er saga Reykjavíkur enn ríkur þáttur verksins, meðal annars hittast þau Eygló og Konráð á sýningu loftmynda frá ýmsum tímabilum borgarinnar. Þar segir Eygló Konráði aðra bernskusögu þar sem svipur látinnar konu birtist henni. Einn þáttur skáldsögunnar er því spíritismi á Íslandi sem tengist forsögu þeirra Eyglóar og Konráðs.

Auk Konráðs er Marta lögreglukona virkur þátttakandi í rannsókn þessara mála, en hún kom einnig við sögu í Skuggasundi. Marta er gömul samstarfskona Konráðs og þau halda sambandi, bæði sem einskonar vinir og einnig þegar Konráð fær Mörtu til liðs við sig eða öfugt, þegar kemur að ýmsum málum. Þetta samband fóstrunar milli lögreglufólks minnir nokkuð á samskipti Marion Briem og Erlendar og Arnaldur notar þessi tengsl til að þétta og styrkja persónusköpunina.

Af öðrum athyglisverðum smáatriðum sem reynast leika lykilhlutverk er að ungi maðurinn sem fann stúlkuna átti sér skáldadrauma og einnig má nefna innkomu sögu lögreglurannsókna og krufninga. Hér kemur Arnaldur að gagnrýni á lögregluna, líkt og í bókinni Myrkrið veit (2017), en vegna þess að Konráð er fyrrum lögreglumaður er fjarlægðin við lögreglustarfið meiri. Og loks er nútímaheimur eiturlyfja og ofbeldis sem tengist stúlkunni sem Konráð leitar að og finnur látna með sprautu í handleggnum. Öllum þessum atriðum, stórum sem smáum, er afar vel haldið saman og það hvernig þau tengjast innbyrðist á ýmsan hátt er einnig sérdeilis vel gert.

Eins og áður kom fram eru það spurningar um trú og traust sem einkenna verkið. Þetta tengist annarsvegar hinu yfirnáttúrulega sem Konráð trúir ekki á, en getur þó ekki hafnað, því samskipti hans og Eyglóar byggja á því að hann trúi henni. Trú og traust eru svo atriði sem snúa mjög eindregið að samskiptum kvenna og karla í sögunni, en þar kemur misnotkun víða við. Misnotkuninni er ekki trúað, hún er ósögð eða það er reynt að þagga niður í henni á allan mögulegan hátt. Þetta birtist hvað skýrast í einni hliðarsögunni af stjúpbróður drukknuðu telpunnar, en hann er ofbeldismaður sem hefur ítrekað ráðist á konur. Nágrannakona hans óttast hann og hefur kært hótanir hans til lögreglunnar, en án árangurs. Samskiptum þeirra lýkur svo með því að hann gengur harkalega í skrokk á henni.

Það er ekkert nýtt að Arnaldur fjalli um veika stöðu kvenna í verkum sínum, en þau fjalla öll á einhvern hátt um þau sem mega sín minna og verða fyrir barðinu á ofbeldi og valdi. Strax í annarri skáldsögu sinni, Dauðarósum (1998), kemur við sögu stúlka sem er illa farin af eiturlyfjaneyslu, en lík hennar finnst undir leiði Jóns Sigurðssonar í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Í Mýrinni (2000) leynist lykill lausnarinnar í nauðgunum og afleiðingum þeirra (þó sá þáttur hafi af einhverjum orsökum verið gerður viðaminni í kvikmyndinni) og í Grafarþögn (2001) er bæði fjallað um heimilisofbeldi og misnotkun. Og þannig má rekja sig áfram gegnum höfundarverkið og telja til konur sem farið var illa með og þeim ekki trúað af yfirvöldum, eða að sögur þeirra fundu sér ekki farveg. Í dag hefur netið opnað alveg nýjan farveg fyrir sögur kvenna af ofbeldi með #metoo byltingunni, og Arnaldur vísar að sjálfsögðu til þessa og notar sér enn á ný sögu og viðhorf tveggja tíma til að draga upp áhrifaríkar myndir.

Það er ekki úr vegi að nefna hér að lokum að annar höfundur sem hefur einnig fjallað um ofbeldi gegn konum í skrifum sínum, og hlotið fyrir það refsingu, sendir á þessu ári frá sér ljóðabók sem byggir á frásögn konu um kynferðislega misnotkun. Þetta er skáldkonan Gerður Kristný og bók hennar Sálumessa. Við fyrstu sýn virðast þau Arnaldur og Gerður Kristný ekki eiga margt sameiginlegt, en þó er ljóst þegar höfundarverk þeirra er skoðað að bæði nota þau skáldskapinn, myndmál, tungumál, frásagnir, fortíð og nútíð, til að skapa áhrifamikil verk sem takast á við ýmis málefni samtíma og sögu, jafnframt því að halda fullkominni tryggð við gildi skáldskaparins. Bæði búa yfir þeirri hæfni að skrifa góð skáldverk, sem þjóna því margþætta hlutverki að gleðja, bjóða upp á fagurfræðilegar upplifanir og vekja til umhugsunar.

 

 

úlfhildur dagsdóttir, 2018