Beint í efni

Súrrealískt ferðalag um eyjur skáldskaparins

Súrrealískt ferðalag um eyjur skáldskaparins
Höfundur
Jakub Stachowiak
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð,
 Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Jakub Stachowiak braust fram á sjónarsvið íslenskra bókmennta með fyrstu bók sinni Næturborgir sem kom út hjá Sæmundi 2021 en fyrir hana hlaut hann Nýræktarstyrk. Þótt einungis tvö ár séu liðin frá því hefur Jakub verið mikilvirkur í útgáfu og árið 2022 sendi hann til að mynda frá sér bæði ljóðabókina Úti bíður skáldleg veröld (Páskaeyjan) og ljóðakverið flæði 3 (Pastel-ritröð) auk þess sem hann hefur birt ljóð og esseyjur í ýmsum tímaritum og safnritum. Jakub er pólskur að uppruna en skrifar alfarið á íslensku og er hann partur af öflugri bylgju innflytjendahöfunda sem stigið hafa fram í íslenskum bókmenntum undanfarin ár. Jakub er firnasterkt skáld og því verður það að teljast mikill fengur fyrir íslenskar bókmenntir að jafn hæfileikaríkur höfundur skuli velja íslensku sem sitt skáldamál, fram yfir móðurmál sitt pólsku, sem hefur alið af sér fjölmörg stórskáld í gegnum tíðina.

Í nýjustu bók sinni Stjörnufallseyjur, sem kom út fyrir skemmstu hjá Dimmu, tekst Jakub á við prósaformið en gerir það með sinni einstöku blöndu af lýrískum súrrealisma svo útkoman er verk á mörkum prósa og ljóða. Bókin er ríkulega myndlýst af Mörtu Maríu Jónsdóttur með svarthvítum teikningum og vatnslitamyndum en Marta María er auk þess höfundur kápumyndarinnar. Myndlýsingar Mörtu Maríu ýta undir textana og gefa bókinni aðra vídd en eru þó stundum full bókstaflegar.

Ævintýri og dystópía

Í fyrsta texta bókarinnar setur Jakub tóninn með eins konar sköpunarsögu sem útskýrir bæði sögusviðið og titil verksins: Stjörnufallseyjur. Næturgyðjan og guð morgunsins svífa saman á festingu himinsins og elskast í sex daga í ástríðufullum faðmlögum. En þegar elskhuginn birtist ekki á sjöunda degi sest næturgyðjan á dimmt tunglið, grefur andlitið í höndum sér og grætur.

Kjökrið bergmálaði um alla veröldina. Umbreyttist í vind. Sum stjörnulaga tár storknuðu á himni, önnur féllu í hafið og urðu að eyjum. Þær eru nú þekktar sem Stjörnufallseyjur. (7)

Þar á eftir fylgir lýsing á staðháttum fyrstu eyjunnar, sem er sögusvið bókarinnar, en hún er uppfull af ævintýralegu umhverfi á borð við „tjörn sem frýs ekki“ og byggingu sem er í laginu „einsog opin mannshönd með fimm turnum í stað fingra.“ Ljóðmál Jakubs er mjög myndrænt og minnir stundum á ævintýraleg og ógnvekjandi málverk landa hans, pólska súrrealistans Zdzisław Beksiński, þar sem niðurbrotnir mannslíkamar eigra um í dystópísku landslagi innan um leifar mannlegrar siðmenningar.

Í sex textum lýsir Jakub hverjum turni mannshandarinnar fyrir sig og íbúum þeirra. Í þumalfingrinum býr véfréttarkona sem starir út yfir eyjuna og mælir af vörum leyndardómsfulla spádóma: „Nóttin er einsog opin bók. Virðist skuggalaus, en er í raun smáskuggasafn“ (11). Í vísifingursturninum er listræn residensía þar sem rithöfundar og skáld skrifa ljóð og sögur „í þeirri von um að þeir dragi fram ljósið, því orðin gleyma ekki birtu sem eitt sinn er sáð ofan í þau, ólíkt himninum“ (12). Í löngutangarturninum dvelja sorgmæddir elskendur og í baugfingursturninum hýrast ástvinir þeirra við heldur hrörlegar aðstæður, innilokaðir í málmbúrum. „Fangarnir vita að þeir þurfa að elska heitt, annars frjósa þeir í hel. Yfir þeim, á efstu hæðinni, stendur leðurklæddur maður með prik í hendi“ (14). Í smæsta turninum, litlafingrinum, dvelja svo óelskuð börn sem þrífa og skrúbba allan liðlangan daginn undir þrumandi skipunum hælisstjórans.

Ljóðræna sem drífandi forsenda lífsins

Þegar Jakub hefur sett sviðið með ævintýralegum lýsingum sínum á fingurturnunum og umhverfi eyjunnar upphefst ljóðrænt ferðalag sem er ekki auðvelt að lýsa, enda er þar ekki beint um rökræna söguframvindu að ræða. Textarnir flakka um eyjuna og lýsa aðstæðum ýmissa persóna sem búa þar í borg einni en margir þeirra hefjast á orðunum „Á þessari eyju, í þessari borg…“ Lesendur fá meðal annars að kynnast gengilbeinu á krá, skúringastúlku á fimm stjörnu hóteli, ljóshærðum götustrák, stúlku með hnetubrún augu og skáldi sem býr í „hógværri kompu á efstu hæð hæstu blokkarinnar“. Lykilorðið fyrir lesendur hér er að reyna ekki að „skilja“ textann, heldur fyrst og fremst „skynja“ hann, því ljóðmál Jakubs er í senn auðugt, óvænt og dásamlega lýrískt. Þarna má finna ljóðlínur sem hægt er að lesa aftur og aftur á borð við:

Á þessari eyju, í þessari borg býr fólk sem er ljóðmerkt við fæðingu, orð skálda brennd inn í ofursmáa barnslófa, því skáldskapurinn seinkar dauðanum. (22)

Líkingamálið fjallar oft og tíðum um sjálfan skáldskapinn en verkinu verður þó alls ekki lýst sem sjálfsögu (e. metafiction) því framvindan, sem slík, gerist öll á eyju þar sem skáldskapur og ljóðræna virðist vera drífandi forsenda lífsins.

Tíminn vinnur með ljóðinu en á móti manneskjunni. (24)

Jakub hefur sjálfur lýst því í viðtölum að íslenska tungan hafi opnað honum leið inn í skáldskapinn og er ljóst af verkum hans að tungumálið sjálft spilar stóran þátt í sköpuninni enda yrkir hann gjarnan um kraft orða og skáldskaparins.

Þarna má til dæmis finna persónur sem nærast á eintómum bókum eins og sjá má í einum texta sem fjallar um mann sem er kallaður lestrarmús því hann gæðir sér á bókum „eins og mús á osti“.

Eins og langur og marglaga draumur

Um miðbik Stjörnufallseyja stígur fram sögumaður sem talar í fyrstu persónu og lýsir samskiptum sínum við ýmsa ættingja og vini, þar á meðal hina áðurnefndu lestrarmús. Ekki er ljóst hver þessi sögumaður er en hann (eða hún) lýsir ýmsum atvikum úr lífi sínu sem hverfast gjarnan í kringum upplifun hans af tónlist, skáldskap og náttúru, eins og til dæmis þegar hann fylgir mömmu sinni á næturgöngu þar sem þau hitta fyrir konu sem situr og spilar á flygil uppi á háum klettavegg:

Við komum að háum klettavegg. Á toppnum sat ung kona við flygil og leysti ljúffenga tóna úr læðingi. Hljóðfærið var gróið dökkgrænum plöntum. Meðan konan spilaði lak úr því vatn sem myndaði stóran foss. (44)

Ekki er alltaf auðvelt að fylgja þræðinum í Stjörnufallseyjum og lesendur sem eru ekki vanir framúrstefnulegum bókmenntum gætu lent í því að hrista höfuðið yfir háfleygum og súrrealískum textum Jakubs Stachowiak. Það er því kannski best að nálgast bókina eins og langan og marglaga draum, það er ekki endilega merkingin sem skiptir mestu máli, heldur ferðalagið sjálft. Því er um að gera að hrífast með og leyfa skáldinu að taka sig á óvæntar slóðir hinna dularfullu Stjörnufallseyja. Sem er einmitt það sem gerist undir lok bókarinnar, þegar hinn ónefndi sögumaður heldur af stað í leiðangur djúpt inn í skógarþykkni eyjunnar með leiðsögukonu sér til halds og trausts, sem ef til vill er hin goðsagnakennda næturgyðja sem minnst er á í blábyrjun bókarinnar.

„Inn í þennan skóg stígur maður berfættur af virðingu við moldina“, segir leiðsögukona mín um leið og hún afreimar fuglsbeinalétta fjallgönguskóna. Ég horfi á eftir henni hverfa milli dökkra trjánna. (57)

Stjörnufallseyjur er fallegt og hrífandi ferðalag um dýpstu dali og hæstu hæðir skáldskaparins eftir einn af okkar áhugaverðustu nýju höfundum.
 

Þorvaldur S. Helgason, október 2023