Ég var svo heppin að fá í hendurnar handrit af nýrri glæpasögu Ævars Arnar Jósepssonar, Svartir englar. (Lesist: sem gagnrýnandi var ég beðin að koma með komment, ef ég væri nægilega hrifin!). Með glóðheitt handritið settist ég svo niður fyrir framan MTV sjónvarpsskjáinn (sem ég nota sem útvarp) og hellti mér í lesturinn. Þetta er önnur glæpasaga Ævars Arnar, en sú fyrri Skítadjobb, kom út í fyrra og fékk góðar viðtökur gagnrýnenda, enda afskaplega skemmtileg bók. Stalla mín í Kastljósinu, Þorgerður Sigurðardóttir, tók sérstaklega til þess hvað persónusköpunin hefði verið skemmtileg og þar er ég henni alveg sammála: það var gaman að sjá hvernig snúið var upp á hið hefðbundna löggupar, gamli kallinn með reynsluna, Stefán, sem yfirleitt er pirraður og svartsýnn er í meðförum Ævars hamingjusamlega giftur góðlegur náungi, og ungi maðurinn, Árni, sem yfirleitt er metnaðargjarn og menntaður er klaufi og hálfgerður auli sem er engan veginn með sjálfan sig og sína stöðu á hreinu. En slampast samt oft á réttu svörin.
Sama huggulega teymi er mætt til leiks í Svörtum englum, og nú kynnumst við betur öðrum úr flokknum, Guðna, gamalli löggu af harða skólanum, Friðriki, sem er ungur, menntaður og metnaðarfullur (sumsé hefðbundna lögguparið, nema bara í aukahlutverki), og Katrínu, einu konunni, sem er 'kvótakona' og stendur til að setja yfir flokkinn meðan sá gamli, Stefán, fer í frí. Allt eru þetta ánægjulegar viðbætur í perónugalleríið og gerir bara ekkert til þó þau séu svoldið stereótýpísk.
Sagan segir svo frá því að þessi fríði flokkur er að leita að týndri konu, Birgittu (!), sem mikil áhersla er lögð á að finna, en rannsóknarlögreglufólkið fær ekki að vita hversvegna. Fyrri hluti skáldsögunnar er því lagður undir ýmis viðtöl og rannsóknir sem enginn veit almennilega af hverju hann er að vinna að, og er það vel heppnað bragð og virkar skemmtilega. Jafnframt sinnir Árni með hálfum huga öðrum rannsóknum, reynir að hafa upp á stolnum tölvum (undir dulnefninu Erlendur (!)) og veltir fyrir sér af hverju róni á Hlemmi er lostinn skelfingu. Inn í þetta blandast svo átök milli Guðna og Katrínar, en sá fyrrnefndi telur að freklega sé framhjá sér gengið þegar yngri manneskja og kona í ofanálag er yfir hann sett. Jafnframt því koma fram nokkrar umræður um stöðu kvenna í lögreglunni. Þetta er málefni sem er mjög vinsælt um þessar mundir, enda áhugavert og mikilvægt og Ævari tekst að taka á þessu án þess að detta í of miklar kynjaklisjur. Þessi kynjaumræða er svo spegluð í kynórum Árna, unga klaufans, sem álítur sig femínista og skammast sín voðalega fyrir að sjá allar konur í kynferðislegu ljósi. Á stundum fannst mér kynórar Árna helst til þreytandi, en það var kannski bara af því að MTV var á, og þar skóku sig endalausir kvenmannskroppar.
Svo fer málið að flækjast, bráðskemmtileg samsæriskenning dúkkar upp og allt fer á fullt. Þó er ekki hægt að segja að hraðinn sé almennt mikill, Ævar skrifar ekki það sem kallað er á ensku 'fast-paced' sögur, enda engin ástæða til þess að allar glæpasögur séu þannig.
Íslenskar glæpasögur eru nú orðnar staðreynd, loksins, og er það fagnaðarefni. Höfundar eins og Arnaldur Indriðason, Birgitta Halldórsdóttir, Viktor Arnar Ingólfsson og Ævar Örn Jósepsson hafa sýnt klárlega framá að íslenskar glæpasögur þurfa ekki að vera klaufalegar og ótrúverðugar, þrátt fyrir smæð samfélagsins. Þessi nýja bók Ævars er gott dæmi um örugga stöðu glæpasögunnar, þetta er tilgerðarlaus og hressileg saga, rennileg og skemmtilega skrifuð, í stuttu máli afbragðs afþreying. Stíll Ævars er í léttari kantinum, með dágóðum skammti af slettum og slöngrum, sömuleiðis eru persónur hans afslappaðar og vel saman settar. Ég hlýt að mæla hiklaust með Svörtu englunum.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003