Kona er barin til ólífis á heimili sínu á Kleppsvegi, maður hverfur á gönguferð við Svörtuloft í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, drykkjumaður heldur eldri manni föngnum og ráðgerir að koma honum fyrir kattarnef með óvenjulegri aðferð. Það er ýmislegt í gangi í nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar; morð, fjárkúgun, hefnd, peningaþvætti, eltingaleikir og meira að segja er reynt að finna dagblaðaþjóf sem stelur Mogganum úr pósthólfi konu nokkurar. Í síðustu bók Arnaldar var Elínborg aðalsöguhetjan, hér er það Sigurður Óli. Erlendur ekki enn kominn af fjöllum eða hvar það nú er sem hann heldur sig, einhvers staðar austur á landi. Þessi saga gerist reyndar á sama tíma og Myrká. Elínborg er þá að fást við sitt mál og samskipti þeirra Sigurðar afar lítil. Mestallan tímann fylgist lesandinn með Sigurði Óla og hvernig hann ber sig að við að leysa málin sem eru nokkur og tengjast mismikið. Við fáum innsýn í fjölskyldulíf hans, það litla sem það er. Foreldrar hans skilin fyrir löngu, afakaplega ólík og hann veltir því fyrir sér hvað í ósköpunum leiddi þau saman nú þegar brokkgengt samband hans sjálfs við kærustuna, Bergþóru, virðist loks á enda runnið.
Sigurður Óli er hrokafullur náungi sem fer sínar eigin leiðir við rannsókn mála. Þótt hann sé svolítill leiðindapúki er samt ekkert endilega leiðinlegt að lesa um hann. Í því er kannski fólgin list Arnaldar. Honum tekst alltaf að vekja áhuga manns á sögupersónum sínum og söguflétturnar ganga upp. Þótt manni finnist eitt og annað nokkuð fyrirsjáanlegt er lesandanum komið nægilega mikið á óvart til að leiðast ekki. Æsingslaus frásögnin rímar líka vel við íslenskan veruleika. Þessi saga gerist fyrir hrun og þar með ekki nauðsynlegt að hafa hrunadansinn með í frásögninni. Einn angi sögunnar fjallar þó um tilraunir nokkurra bankamanna til að græða fé á vafasaman hátt. Titillinn, Svörtuloft, vísar líka til Seðlabankans. Samskipti fólks virðast alltaf í stirðara lagi í sögum Arnaldar. Það er lítið um innileika og fagurt fjölskyldulíf þótt stundum geti örlað á slíku. Starfsfélagar eru líka hornóttir í samskiptum hverjir við aðra, bæði innan lögreglunnar og utan. Svo er það persónan Andrés sem birtist í Vetrarborginni og dúkkar nú upp aftur hér. Hann er talsvert fyrirferðarmikill í þessari sögu og hefur vissulega komið illa út úr samskiptum við annað fólk. Sigurður Óli vill sjaldnast við það kannast að fólk eigi bágt, sé í óreglu, berji annað fólk og steli frá því, vegna þess hvernig farið var með það í æsku. Bara aumingjaskapur, vill hann meina. Hann getur þó ekki annað en fundið til með Andrési. Það hefur oft verið tíundað hversu mikið Arnaldur og aðrir íslenskir og norrænir glæpasagnahöfundar sækja til fyrirmyndanna Sjöwall og Wahlöö. Einnig má ætla að þeir hafi sótt sitt af hverju til Makkanna, John D. MacDonald, Ross MacDonald og Ed McBain sem allir skrifuðu raunsæjar, dálítið myrkar, glæpasögur þótt ekki sé hægt flokka þær beinlínis sem rökkursögur (noir). Það er of mikið líf í þeim til þess. Samt alltaf einhver undirliggjandi óhamingja. Margt sem upp kemur er alveg glatað, glæpirnir, manneskjurnar og hvernig úr öllu leysist svo langt sem það nær.
Arnaldur er orðinn duglegastur manna við gera Reykjavíkurborg fræga, meðal krimmalesenda að minnsta kosti. Þeir fara líklega að flykkjast hingað frá útlöndum til að skoða sögusvið bókanna. Er ekki þegar farið að sýna ferðamönnum Norðurmýrina? Stíll Arnaldur er fremur þurr og allt að því virðulegur á stundum, sem virðist henta viðfangsefnunum vel. Ekki mikið um slanguryrði. Aðferðin eða formúlan virkar alveg, eins og fádæma vinsældir innanlands og utan sanna. Bækurnar um Erlend og félaga eru misgóðar, en munurinn á þeim samt það lítill að varla er orð á gerandi. Ég held að þessi í betri kantinum. Alla vega er hún er ekki eins þunglyndisleg og þær hafa verið sumar hverjar. Maður sporðrennir þessu bara eins og venjulega og hefur gaman af. Saknar Erlends svo sem ekki neitt. Enn einu sinni tekst Arnaldi að koma með fyrsta flokks glæpasögu.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009