Beint í efni

Svuntustrengur

Svuntustrengur
Höfundur
Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Útgefandi
Nykur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það ríkja undarleg litabrigði í bók Sigurlínar Bjarneyar Gísladóttur, Svuntustrengur. Bókin er safn smáprósa, örsagna og smásagna og þar skiptast á bjartar stundir og myrkraverk með ákaflega skemmtilega andstyggilegum perralegum undirtónum, og svo er nokkuð um gráa tóna í bland. Yfir öllu sveiflast svo hvítar svuntur, ef ritdómara leyfist að nýta sér lýsingu aftaná kápu.

Sigurlín hefur áður sent frá sér prósasafn, Fjallvegir í Reykjavík (2007). Sú bók var einstaklega skemmtileg og teiknaði upp bráðskondna mynd af borgarlandslaginu. Í Svuntustreng er ekki að finna samskonar heildarmynd (utan svuntustefið, sem er þó aðallega í fyrri hluta) sem kannski gerir það að verkum að þær sögur sem ganga ekki alveg upp virka óþarflega veikar. Á hinn bóginn er mikið af flottum og fyndnum prósum sem gera bókina fyllilega lestursins virði.

Svuntustrengur skiptist í tvo hluta. Í þeim fyrri eru styttri prósar, smámyndir af ýmsu tagi, bernskuminningar og vangaveltur eins og „Rif úr síðu minni”, en þar lýsir sögukona því yfir að hana vanti rjóðan mann sem segir sögur og spilar á harmóníku. Og hún tekur rif úr síðu sinni og hrópar: „„Guð, gefðu mér mann!”” Þó þessi viðsnúningur kynhlutverka sé ekkert endilega gasalega frumlegur þá nær hann skemmtilega skondnum slagkrafti í kómískum lýsingum líkt og þegar sögukona ætlar að sveifla rifinu „eins og slöngu”, sem kallar fram óvænta sýn á slönguvað og kúreka að eltast við kálfa.

Þessar örsögur eða prósaljóð eiga það sameiginlegt að bregða skemmtilegum furðusvip á hversdagsleikann, en það er einmitt nokkuð sem Sigurlín lét svo vel í Fjallvegunum. Annað dæmi, með svuntum, er sagan „Að fjúka í frelsinu” en þar veina svunturnar „undan fjötrunum, handjárnaðar við snúrurnar.” Þær eru „vængjaðar tilviljun vindanna. Vilja sjá heiminn úr fjarlægð og svífa inn í himininn sem þær geta ekki munað hvar byrjar og endar.” Og „þær hvísla sín á milli brugguðum ráðum og sannfæra klemmurnar um flóttaleið. Því glæpur þeirra er fyrir löngu fokinn úr þeim og þær muna ekki hvað þær gerðu.”

Í síðari hlutanum er að finna lengri sögur. Sú fyrsta, „Þjóðvegur eitt”, slær verulega andstyggilegan tón sem getur ekki annað en hrist hressilega uppí lesanda. Sagan vann glæpasmásagnasamkeppni Hins íslenska glæpafélags árið 2006, en hún lýsir vörubílsstjóra sem hatast út í konur sem hann kallar jússur. Eitt af því sem gerði Fjallvegina einmitt svo skemmtilega var hversu vel Sigurlín tekst þar að skapa karlmannsrödd - ekkert endilega ‘trúverðuga’ karlmannsrödd, heldur einmitt skemmtilega stórkarlalega og ýkta með hæfilegum rembingi. Síðasta sagan í þessari bók er líka sögð af karlmanni, bónda á einbýli sem er vel nettengdur og tæknivæddur en ákveður að leika skrýtinn einbúa fyrir blaðamann. Sagan byrjar virkilega vel með skondnum lýsingum á samskiptum milli bóndans, tilgerðarlegs blaðamanns og fremur þreytandi ljósmyndara, en nær ekki alveg lendingu. Á milli þessara sagna eru svo þrjár verulega flottar, ég hafði sérlega gaman af bréfasögunni „Í nótt ætla ég að forðast ískrið i hliðinu og klifra yfir girðinguna”, en þar sendir Sigga nokkur bréf til óþekkts lesanda og lýsir flótta um Ísland, væntanlega eftir að hafa framið glæp. Lesandi fær þó ekki að vita hver glæpurinn er og getur, í kjölfar andstyggðarinnar í fyrstu sögunni, vel ímyndað sér hitt og annað slæmt. Þjóðsagnastemningin sem birtist hér og þar í Fjallvegunum gengur aftur í sögunum „Lyftan” (sem er full af dánu fólki) og „Í bítið”, sem segir frá einum af þessum furðulegu gönguferðum sem fólk tekst á hendur um óbyggðir, í kulda og vosbúð.

En það er sumsé engin vosbúð að lesa sögur Sigurlínar, þvert á móti þá er bókin gott dæmi um lítinn hógværan gleðigjafa í þeim æsingaslag sem jólabókaflóðið er orðið. Líkt og Fjallvegina er nauðsynlegt að nota sem vegahandbók um Reykjavík er Svuntustrengurinn fyrirtak í huggulega húslestra yfir letilega jóladaga, í bland við konfekt, koníak - og uppvask og svuntuþvotta.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009