Tjörnin, nýjasta bók Ránar Flygenring er önnur bókin þar sem hún gegnir bæði hlutverki texta- og myndhöfundar. Áður hafði hún myndskreytt fjölda barnabóka, en með Eldgosi, fyrstu barnabókinni sem hún bæði skrifaði og myndskreytti, festi hún sig í sessi sem einn af áhugaverðustu barnabókahöfundum landsins. Líkt og Eldgos hefur Tjörnin sópað að sér viðurkenningum og hefur hlotið bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin í flokki barnabóka.
Sagan byggir á persónulegri reynslu höfundar og segir sögu Spóa og Fífu, tveggja barna sem búa í sama húsi og umhverfis húsið er garður. Rán byrjar á að segja að garðurinn sé mjög venjulegur en síðar kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist og lokaorð bókarinnar eru „Garðurinn okkar er nefnilega enginn venjulegur garður.“
Einn daginn finna börnin dæld í garðinum og eftir að hafa grafið og fundið alls kyns hluti í holunni kemur í ljós á botninum er steyptur tjarnarbotn. Börnin fylla tjörnina af vatni og í kjölfarið fyllist garðurinn þeirra af forvitnum gestum, bæði dýrum og mönnum, sem ganga vægast sagt illa um. Umganginum mætti líkja við ágang ferðafólks á íslenska náttúru eða frekju mannkynsins á auðlindir jarðar.
Börnunum líst ekki á blikuna og neyðast til að setja strangar reglur, þau girða tjörnina af og á endanum er ekkert gaman lengur. Við það skapast spenna milli Fífu og Spóa þegar hún á erfitt með að deila stjórninni. Spói fer og Fífa verður ein eftir. Þegar hún skammar fugl sem sest á tjörnina dettur hún ofan í. Þá við taka blaðsíður þar sem enginn texti er til staðar. Lesendur fylgjast með Fífu falla dýpra og dýpra ofan í tjörnina. Að lokum sjá þeir heilan helling af atburðum úr lífi Fífu; fóstur í móðurkviði, ungabarn í sínu fyrsta baði, barn og föður í ungbarnasundi og lítil börn sem líkjast Fífu og Spóa sem sitja með fæturna ofan í tjörninni. Þessar síður hafa drungalegan blæ sem ýtir undir upplifun Fífu af því að vera bjargarlaus á móti vatninu.
Að lokum er Fífu bjargað frá drukknun af fuglum sem hífa hana upp á yfirborðið, þrátt fyrir að hún hafði bannað þeim að sulla og synda í tjörninni. Hún spyr þá ringluð hvar hún sé stödd og þeir svara „Þú ert bara hér í garðinum okkar“. Spói kemur aftur og Fífa segir honum allt sem hún sá og þau sættast enda eru þau bestu vinir. Þau ákveða að hætta að reyna að stjórna tjörninni, „það er ekkert hægt að stjórna svona tjörn hvort sem er“. Börnin og lesendur átta sig á því að sumu er ekki hægt að stjórna. Náttúran og vatnið eru öfl sem eru ofar okkar mætti og við þurfum að bera virðingu fyrir. Þó að mannfólkið leggi eignarhald á svæði eru samt aðrar lífverur sem við deilum plássi með og eiga alveg jafn mikið í umhverfinu og við.
Rán leikur sér skemmtilega með orðaforða og þegar börnin eru að leita að vísbendingum um dældina í garðinum fara þau niður í kjallara til þess að finna verkfæri og tól til að nota við verkið. Þau róta í skápum og hirslum og á myndinni sjást þau umvafin alls kyns verkfærum og dóti og drasli og við hvern og einn hlut stendur skrifað hvað er þar að sjá. Þar læra litlir lesendur orð eins og múrskeið, spíssskófla og vírbursti. Það sama er uppi á teningnum þegar börnin byrja að grafa, nema þá eru upptalningar á skordýrum í garðinum og öllu því sem börnin finna á meðan þau moka.
Hver opna er heil mynd með texta og talblöðrum í bland. Margar myndanna sýna garðinn frá sama sjónarhorni en á mismunandi árstímum og í mismunandi mikilli óreiðu. Stundum brýtur Rán formið upp með klassískri myndasögu uppbyggingu með mörgum römmum.
Rán leikur sér líka með lítil smáatriði sem bæta skemmtilegri dýpt við umgjörð sögunnar. Í garðinum er stytta af hafmeyju sem svipar til Litlu hafmeyjunnar í Kaupmannahöfn eða Hafmeyjunnar í Reykjavíkurtjörn . Á fyrstu síðunum sjá lesendur hafmeyjuna fylgjast með atburðunum í kringum sig af stalli sínum en þegar fjör færist í leikinn og nýtir hafmeyjan tækifærið og yfirgefur stallinn. Hún stingur sér í tjörnina á meðan mikið fjaðrafok er í garðinum og enginn veitir henni athygli. Síðan má sjá glitta í sporð á meðan Fífa er á botni tjarnarinnar. Á síðustu opnunni rekur Fífa augun í tóman stallinn og þá vilja litlir lesendur ólmir fletta til baka og fylgjast með því hvað hafmeyjan er að gera á meðan atburðarrásinni vindur fram. Með þessari hliðarsögu vísar Rán skemmtilega til þessara frægu hafmeyja sem hafa hvorug fengið að vera í friði á stöllum sínum og orðið fyrir skemmdarverkum - eflaust myndu þær frekar vilja synda frjálsar.
Tjörnin er frábær barnabók þar sem hægt er að uppgötva ný smáatriði við hvern lestur. Það er mikil kúnst að skrifa barnabækur sem börn vilja lesa aftur og aftur, en þegar vel tekst til er það dýrmætt því börn læra svo margt með endurtekningu. Rán nær að fanga forvitni þeirra með því að hafa myndir og texta lifandi með ýmsum smáatriðum sem gera það að verkum að stöðugt er hægt að finna nýja hluti og merkingu í frásögninni. Kjarni sögunnar er jafnvægi, bæði milli mannkynsins og náttúrunnar og milli vina sem þurfa að læra að deila ábyrgð og vinna saman. Rán er svo sannarlega framúrskarandi barnabókahöfundur sem skapar dásamlegan söguheim með einstökum myndum og stórskemmtilegum texta.
Kristín Lilja, mars 2025