Beint í efni

Þankaganga 2

Þankaganga 2
Höfundar
Vala Þórsdóttir,
 Agnieszka Nowak
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Þankaganga 2 er önnur bók þeirra Völu Þórsdóttur og Agnieszku Nowak um hina pólsk-íslensku Súsönnu. Í fyrri bókinni glímir Súsanna við það vandamál að geta ekki sagt „s“. Þar snúast vandræði hennar síst um það að hún er nýbúi eða útlendingur, hvorki „alvöru“ Íslendingur né Pólverji. Þvert á móti er lögð áhersla á að allir geti fundið sig í vandamálum Súsönnu – enda erum við, þegar allt kemur til alls, meira og minna eins.

Í Þankagöngu 2 er tekist á um það sem greinir okkur að, gerir okkur öðruvísi og framandi í augum annarra. Þetta er hins vegar vandamál eða áskorun sem allir standa frammi fyrir og snerta okkur öll í fjölþjóðlegu samfélagi nútímans. Þá vaknar líka spurningin um það hvar við eigum heima og hverjum, eða hvaða stað, við tilheyrum. „Heimilið“ er áberandi þema í barnabókmenntum allra þjóða og alla jafna tákn öryggis og ástúðar en þetta þema er sífellt að verða flóknara.

Eins og undirtitillinn gefur til kynna snýst Þankaganga 2 um heimsókn Súsönnu og fjölskyldu hennar til Póllands. Allir hlakka til fararinnar og sagan hefst á því þegar Súsanna aðstoðar ömmu sína við að kaupa teppi – eða „typpi“ eins og amma kallar það Súsönnu til mikillar skelfingar – til að færa ættingjum að gjöf. Amma og afi eru mjög spennt fyrir ferðalaginu og ljóst að þeim finnst þau að sumu leyti vera að fara „heim“. Margt er þó öðruvísi í raunveruleikanum en minningunni eins og sést þegar amma sekkur tönnunum í langþráð brauð úr pólsku bakaríi. Í minningunni jafnaðist ekkert á við pólskt brauð en það reynist svo að mestu bragðlaust.

Súsönnu finnst ákaflega gaman í Póllandi en margt er líka skrýtið og öðruvísi en hún hafði ímyndað sér og hún kemst að því að hún er engu minni „útlendingur“ í Póllandi en á Íslandi. Þetta finnur hún til dæmis á því að stundum er hlegið að henni þegar hún talar pólsku og hún á það til að blanda íslenskum orðum inn í pólskar setningar. Henni sárnar þegar „fjólubláa frænka“ sakar hana um að vera ekki alvöru Pólverji og um þetta ræðir hún við afa sinn og segir:

Stundum þegar ég er hér finnst mér ég vera íslensk, en stundum pólsk þegar ég er heima á Íslandi. Heima er alltaf verið að segja að ég sé útlendingur og hérna er ég líka útlendingur (61).

Það er ekki skrítið að Súsanna skuli hugsa með sjálfri sér „hvað allt er flókið“ (61) en við þetta sama vandamál glíma fjöldamörg börn á Íslandi, börn sem eiga heima hér og þar – alls staðar og hvergi – og tilheyra öllum stöðum og engum. Þetta er áskorun sem nútímasamfélagið stendur frammi fyrir en afi, rödd viskunnar í bókinni, bendir á að þetta sé samt ekki glænýtt vandamál og vísar til Sovétríkjanna gömlu máli sínu til stuðnings.

Þótt allt sé flókið þá er líka gaman í Póllandi. Brugðið er upp hlýlegri og einlægri mynd af þessu landi og þessari þjóð. Súsanna leikur við nýja félaga, fer á ströndina, málar hænsnakofa og skoðar kastala svo fátt eitt sé nefnt. Það er meiri söguþráður í Þankagöngu 2 en fyrri bókinni, stuttir kaflarnir mynda enn sem áður sjálfstæða heild en það er meiri tenging á milli þeirra en í Þankgagöngu 1.

Sagan um Súsönnu í Póllandi er sett upp með sama hætti og sagan af Súsönnu sem gat ekki sagt „s“. Textinn er á tveimur tungumálum, pólski textinn er á vinstri síðu en sá íslenski á hægri síðu. Hver kafli þekur eina síðu og er frásögnin því ansi knöpp en engu að síður lífleg og skemmtileg. Á eftir hverri textaopnu kemur opna með mynd eftir Agneiszku, sem er hluti af sjálfri sögunni. Þar eru orð óþörf og myndirnar skiljanlegar öllum, hvort sem þeir hafa íslensku, pólsku eða annað tungumál að móðurmáli. Myndaopnurnar eru glæsilegar, svartar og hvítar, og uppfullar af litlum smáatriðum sem hægt er að gleyma sér heillengi við að skoða. Á hverri myndaopnu er að finna litla kanínu en lesandinn þarf stundum að rýna vel og lengi í opnuna áður en hann kemur auga á dýrið. Tekið skal fram að undirrituð hefur ekki komið auga á þær allar – þrátt fyrir langa leit.

Þessar snjöllu og fallegu myndir Agneiszku hefði ég viljað sjá á kápu bókarinnar. Umbrot bókarinnar er með sama hætti og Þankagöngu 1 en höfundar hefðu að ósekju mátt endurskoða valið á kápumynd og jafnvel velja bókinni meira spennandi titil. Að útliti minnir bókin mig einna helst á kennslubók, ekki rífandi skemmtilega sögu um mikilvæg málefni fyrir stálpaða krakka – eins og raunin er.

Helga Birgisdóttir, desember 2011