Beint í efni

Þessi eilífi núningur

Þessi eilífi núningur
Höfundur
Elín Edda
Útgefandi
Nóvember
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Smári Pálmarsson

Þessi eilífi núningur

„Ég hugsaði um samfélagið – illskuna og óréttlætið – og skyndilega langaði mig ekki lengur að vera manneskja.“

Þessi tilvitnun í Plöntuna á ganginum (2014), fyrsta útgefna verk Elínar Eddu, fangar ágætlega rauða þráðinn í verkum hennar þar sem samband manns og náttúru er í fyrirrúmi. Hún er ljóðræn í myndlýsingum sínum en ljóðin hennar eru jafnframt myndræn. Sögurnar í senn persónulegar og heimspekilegar, snerta á erfiðu sambandi við hinn manngerða heim og tilfinningatengslum við náttúruna og annað sem lætur ekki undan stjórnsemi og skipulagsáráttu mannanna.

Á ferli sínum hefur Elín Edda gefið út fjórar myndasögur, tvær ljóðabækur og myndlýst einni eftirmyndasögu. Allar fjalla þær á einstakan hátt um þessi málefni sem eru höfundi hugleikin og hrífa lesendur með í ljóðrænan myndheim hennar. Þrjár af myndasögum hennar, Gombri (2016), Glingurfugl (2018) og Gombri lifir (2019) gerast í sama söguheimi en þar eru átök milli manns og náttúru í algjöru fyrirrúmi.

Elin Edda er í senn teiknari, skáld og grafískur hönnuður. Auk þess að skrifa og teikna sögur sínar hefur hún einnig séð um hönnun og uppsetningu bókanna af mikilli alúð sem gerir heildarupplifunina af verkum hennar enn ánægjulegri.

Í sinni annarri ljóðabók, Núningur (2022), kafar Elín Edda enn dýpra í samband manneskjunnar við náttúruna og hið manngerða; hliðstæður og andstæður þessara tveggja heima. Tiltill bókarinnar er ef til vill sprottin úr árekstrum þar á milli, eða þá árekstrum manneskjunnar við hvort tveggja. Mannvirki geta speglað tilfinningar okkar og andlega líðan alveg eins og náttúran.

Þegar við slípum sparsl finnum
við líklegast veika bletti

Sterku blettirnir skipta ekki máli
Sparslið molnar, veggurinn molnar

og við finnum veika bletti á okkur líka
við molnum

(„Iðnaðarljóð 1“)

Í bókinni er að finna sex Iðnaðarljóð. Þau birtast lesendum með reglulegu millibili á svörtum síðum. Þau marka kannski ekki beinlínis kaflaskipti en þjóna þeim tilgangi að gefa bókinni heilstætt yfirbragð, skapa ákveðinn takt og renna sterkum stoðum undir viðfangsefni hennar. Iðnaðarljóðin lýsa ákveðinni sjálfsvinnu og viðleitni til að friðþægja okkar innra sjálf með því að fínpússa hinn ytra heim. Slípa og sparsla þar til allt er spegilslétt. En ljóð Elínar Eddu eru á sama tíma í stríði við spegilslétta fleti og beinar línur.

Það er réttskeið inni hjá mér. Réttskeið á að vera þráðbein  en mér sýnist hún vera örlítið skökk. Líklega er það vegna þess að að eru til tvær tegundir af réttu: Það sem er rétt samkvæmt mælingum og það sem manni finnst vera rétt

[...]

Náttúran gerir þetta fyrirhafnarlaust
Þess vegna hefur aldrei neinn hugsað:
Það er eitthvað rangt við þetta fjall

(„Mér líður ekki vel í nýjum húsum“)

Fegurðin felst í óreiðunni, náttúrunni og þeim öflum sem uppfinningar mannsins eru máttvana gegn. Fegurðin sem Elín Edda dregur fram í hinum manngerða heimi felst frekar í því sem tíminn hefur heimt eða náttúran endurheimt. Að sama skapi felst fegurð hins mannlega ekki í rökhugsun eða mælingum, heldur tilfinningum og öðrum eiginleikum sem við fáum ekki fyllilega stjórnað.

húsin liðast í sundur
faðma hvert annað

leðjan sækir fram
veggirnir og parketið
og
litirnir
úr landslagsmálverkunum
hlykkjast aftur í blómin

(„Pípulagnir“)

Í ljóðinu „Pípulagnir“lýsir höfundur á ljóðrænan hátt því sem gerist þegar mannkynið deyr út. Náttúran endurheimtir allt sem við höfum byggt og reynt að hafa einhverja stjórn á. Í ljóðinu „Uppskrift að jafnvægi“ er að finna sambærilega hugmynd. Við reynum að taka eitthvað úr náttúrunni og móta það að eigin ósk en það varir ekki lengi.

Steypan harðnar með tímanum og breytist í náttúru. Það er fjörugrjót í veggjunum. Húsin skekkjast, loftin síga, veggirnir teygja sig í allar áttir. Viðurinn er lifandi.

Og ef mannfólkið hverfur blandast
hið manngerða landslaginu,
augnablik í jarðsögunni

(„Uppskrift að jafnvægi“)

Í ljóðinu „Myndir“ gerir höfundur grín að sambandi okkar við náttúruna og hvernig við reynum að aðskilja hina ósnortnu fegurð frá mannlegum veruleika:

Fólk með myndavélar í landslagi

tekur myndir af landslagi án fólks með myndavélar

[...]

Rafmagnslínurnar mega ekki sjást
ekki heldur staurarnir
skiltið
ekki kamrarnir

Í bókinni er einnig að finna tvö myndljóð sem brjóta skemmtilega upp á formið og setja viðfangsefnið í myndrænt samhengi. Í ljóðinu „Hljóð“ lýsir Elín Edda misháværum hljóðum (eða fjarveru þeirra) – frá „Ekki væl“ til „Ekki sög sem ristir í sundur viðinn“ og aftur til „Ekki tif“ – og raðar setningunum lóðrétt neðst á síðunum svo úr verður mynd sem minnir á hljóðbylgjur. Ljóðið „Þrír bjórar, eitt skot og eitt freyðivínsglas“ raðar orðunum þannig að þau mynda útlínur um drykkjarílátin; drykkina sem höfðu í för með sér misgóðar ákvarðanir.

Núningur lýsir hversdagslegum veruleika á tilfinningaríkan og oft mikilfenglegan hátt. Bókin upphefur hversdagsleikann og gerir hann íþyngjandi, en brýtur hann einnig niður í öreindir og gerir grín að honum. Núningur tekur föstum tökum þær tilfinningar og upplifanir sem móta okkur, slípa okkur til, og breyta lögun okkar með einum eða öðrum hætti – jafnvel án þess að við veitum því eftirtekt í amstri dagsins.

Punkturinn yfir i-ið er þó prentuð reglustika sem fylgir bókinni og nýtist ágætlega sem bókamerki. Ætti maður kannski að athuga hvort hægt sé að mæla lífsgleðina eftir allt saman?

Tenging okkar við náttúruna er mikilvæg en oft er rofin. Samband okkar við hinn manngerða heim er óhjákvæmilegt en flókið og oft og tíðum óheilbrigt. Þetta samband – þessi eilífi núningur – er einkennandi í verkum Elínar Eddu. Með myndum sínum segir hún sögur þar sem orð eru óþörf og með vandlegu orðavali málar hún myndir sem oft eru ljóslifandi og litríkar. Verk hennar fjalla ýmist á hversdagslegan eða ævintýralegan hátt um málefni sem snerta okkur öll. Það er óhætt að segja að þau hreyfi við manni frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu.

Endirinn sést ekki
og þú lokar bókinni einhvers staðar

(„Iðnaðarljóð 4“)

 

Smári Pálmarsson, nóvember 2022


Athugið að þessi umfjöllun er hluti af yfirlitsgrein um verk Elínar Eddu sem finna má hér á Bókmenntavefnum.