Beint í efni

Þrumulostinn

Þrumulostinn
Höfundur
William Boyd
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Það getur haft skelfilegar afleiðingar að vera á röngum stað á röngum tíma. Því kynnist loftslagsfræðingurinn Adam Kindred svo sannarlega þegar að hann lendir fyrir tilviljun á vettvangi morðs án þess að eiga þar nokkra aðkomu að verki. 

Í kjölfarið beinast spjót yfirvalda sem og undirheima Lundúna  að því að ná í skottið á honum. Hann, sem einmitt var í þann mund að leggja drög að blómlegri framtíð sem virtur háskólamaður neyðist nú til þess að má út öll spor um tilveru sína og láta sig hverfa. Hann felur sig hér og þar í dimmum skotum heimsborgarinnar og tekur upp ný auðkenni og nýjar venjur. Honum tekst þó ekki að fela sig fyrir öllum, leigumorðingi rennur á slóð hans, hvattur áfram af valdamiklum peningaöflum sem er mikið í mun að losna endanlega við hið óheppilega vitni, Adam Kindred. Öllu þessu er lýst í Þrumulostinn, spennusögu Williams Boyd þar sem lesandinn fær nána lýsingu á fjölmörgum skuggahliðum Lundúna. Þær tengjast ekki bara glæpum og undirheimum, heldur líka fátækrahverfum borgarinnar og þeirri félagslegu eymd sem þar ríkir. 

Slíkir staðir falla vafalaust undir það sem stundum er kallað „fjórði heimurinn“ með vísan til þeirra sem lifa við örbirgð í ríkum vestrænum samfélögum. Lýsingar í bókinni á tilverunni þar fá stundum á mann, eins og lýsingin á vændiskonu sem veldur móðurhlutverki sínu einstaklega illa og notar svefnlyf og romm út á morgukorn sem barnapíu fyrir unga drenginn sinn meðan hún fer út til að afla sér viðurværis. 
Lundúnir eru því frekar kaldranalegur staður, séð frá botninum með augum Adams Kindreds. Stundum dettur manni í hug sögusvið Charles Dickens, heimfært upp á nútímann.

Þrumulostinn er miðlungs spennusaga, heldur manni ekki nema rétt sæmilega við efnið og er að mestu gleymd um leið og lestri lýkur. Vissulega tekst hún á við ýmis álitaefni, eins og félagslega stöðu verst settu hópa samfélagsins, breytileika sjálfsmyndar, hverfulleikann, ofurvöld lyfjafyrirtækja og hagsmunapot þeim tengd og hið sígilda minni úr bókmenntum síðari tíma um smæð einstaklingsins í stórborginni. Sumt af þessu er vel gert, annað kannski dálítið útjaskað. Mestmegnis eru þetta þó kunnugleg stef úr spennu- og glæpabókmenntum síðustu ára og áratuga þar sem einstaklingurinn berst við ofurafl óréttlætisins.

Þrumulostinn sætir því engum sérstökum tíðindum. Þetta er ágætis afþreying, en það er ekkert sem greinir hana frá þeim hafsjó af spennubókmenntum sem kemur út árlega um allan heim. 

Það er kannski einmitt þess vegna sem maður undrast nokkuð að bókaútgáfan Bjartur hafi ákveðið að gefa bókina út í Neon-bókaflokk sínum, sem helst hefur helgað sig nýlegum erlendum gæðabókmenntum. Þrumulostinn telst nefnilega varla til þess hóps. 

Sigurður Ólafsson, desember 2010.