Beint í efni

Þýska húsið

Þýska húsið
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Daisy Neijmann

Tímabil hernámsins og seinni heimstyrjaldar hefur verið áberandi í sögum Arnaldar Indriðasonar frá upphafi og er honum greinilega hugleikið. Þetta ætti í sjálfu sér kannski ekki að koma mikið á óvart þegar við skoðum það út frá glæpasagnaforminu. Glæpasagan hefur lengi tengst stríðsbókmenntum að mörgu leyti. Stríðsástand býður upp á margar þær forsendur sem liggja glæpasögunni til grundvallar: ofbeldi, manndráp, morð, feluleiki og njósnir – sem allt myndar ógn við lög og hugmyndafræði samfélagsins og þarf því að afhjúpa og vinna á móti til þess að endurheimta það siðferði sem samfélagið byggist á. Í stríði verða til öfgakenndar aðstæður sem reyna á siðferðiskennd manna og sýna hvaða mann hver og einn hefur að geyma. Það er ekki síst í stríðsástandi, þegar lög og reglur fara á skrið og ekkert er lengur eins og áður var, að sérstök þörf skapast fyrir staðfestingu á því hvað sé rétt og hvað sé rangt, andstæðum sem samfélagið sækir merkingu sína í. Andstæðurnar birtast annars vegar í þeim sem brjóta reglurnar sem liggja samfélaginu til grundvallar og hins vegar í þeim sem viðhalda þessum reglum. Í sakamálasögum og stríðsbókmenntum skiptir því öllu máli hvorum megin hver er við mörkin, hver er óvinurinn eða afbrotamaðurinn og hver samfélags- eða lagavörðurinn, því þó að margir lendi í raunveruleikanum oft á gráa svæðinu þar á milli á samfélagið allt undir því komið að mörkin séu skýr í huga fólks og andstæðurnar raskist ekki.

Staðan á Íslandi í seinni heimsstyrjöld var öðruvísi en annars staðar í Evrópu. Hér voru uppgangstímar og vinveittur her í staðinn fyrir þær hörmungar sem urðu erlendis. Þó má segja að hernámið hafi valdið miklu umróti í íslensku samfélagi, ekki aðeins vegna þess að það er í fyrsta skipti sem stríð berst upp á strendur Íslands og tugþúsundir vopnaðra erlendra manna ganga um göturnar, heldur einnig af því að í kjölfar hernámsins heldur nútíminn innreið sína af fullum krafti. Allt hafði þetta í för með sér byltingu á lífsháttum, menningu og gildum almennings. Þjóðfélagið tekur stakkaskiptum, efnahagslegar framfarir eru gríðarlegar, en afleiðingin er rótleysi og ringulreið. Allt er eins og á hverfandi hveli, og losið sem orsakast af þessu er kjörið efni í glæpasögu, og bókmenntir almennt. Reyndar vekur furðu hve fáir rithöfundar hafa notfært sér þetta tímabil og þessar aðstæður hér á landi. Í Evrópu leiddu kaldastríðslok á tíunda áratugnum til algjörrar endurskoðunar á seinni heimsstyrjöldinni sem hafði meðal annars í för með sér mikla grósku í skáldsögum þar sem yngri kynslóðir rithöfunda brjóta niður gamlar mýtur og fást við seinni heimsstyrjöld og afleiðingar hennar á nýjan hátt fyrir nýja tíma. Hér á landi hafa hernámsárin hins vegar lítið verið endurskoðuð eftir bylgju ástandssagna frá kaldastríðsárunum nema í fáeinum smásögum („Tilberi“ eftir Þórarin Eldjárn, „Endurkoma“ eftir Svövu Jakobsdóttur, „I“ eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur), í þríleik Guðrúnar Helgadóttur handa börnum,  og í skáldsögunum Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson og Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason. Skáldsögur Sindra Freyssonar (Flóttinn og Dóttir mæðra minna) sýna aftur á móti fram á að sumir yngri rithöfundar virðast fastir í gömlum viðhorfum til þessa tímabils.

Það er fyrst og fremst Arnaldur sem brýtur blað í íslenskri  bókmenntasögu með því að gera seinni heimstyrjöldina að tíðu viðfangsefni í sögum sínum og að nota glæpasöguformið til að varpa nýju ljósi á hernámsárin, og það sem er ekki síður mikilvægt: á afleiðingar þeirra í nútímanum. Er hægt að hugsa sér áhrifaríkari og meira afgerandi umskipti á ástandssögunni en í Grafarþögn? Hann endurtekur leikinn í Skuggasundi, og þó svo að endurskoðunin á ástandinu sé ekki alveg eins mögnuð í þeirri sögu og í Grafarþögn, þá kemur á móti að Skuggasund er víðfeðmari, því hún fæst einnig við önnur atriði sem tengjast stríðsreynslu Íslendinga á afar snjallan og áhrifaríkan hátt (sjá ritdóm Gunnþórunnar Guðmundsdóttur á Bókmenntavefnum). Það er einnig í þessari sögu að Arnaldur vefur upphaf glæpasagnaformsins sjálfs inn í persónu Flóvents. Glæpasögur eins og við þekkjum þær eru afurð nútímavæðingar og borgarmenningar, en í henni er ekki hægt að halda glæpastarfsemi í skefjum á sama hátt og í litlum sveitasamfélögum fyrri tíma, á meðan vísindalegar aðferðir og tæknilegar framfarir nútímans eru forsendur glæparannsóknarferlisins. Flóvent er fyrsti rannsóknalögreglumaðurinn á Íslandi: hann er menntaður erlendis en flytur þekkingu sína á þessu sviði heim til að beita henni í Reykjavík sem er að þróast í borg á þessum tíma þegar nútíminn heldur innreið sína. Þannig sameinar Arnaldur upphaf nútímavæðingar og borgarmyndunar annars vegar og hins vegar upphaf glæparannsókna hér á landi.

Flóvent er mættur aftur til leiks í Þýska húsinu, en þessi saga gerist reyndar nokkrum árum fyrir atburðina í Skuggasundi, á öðru ári hernámsins þegar Ameríkanar eru að taka við af Bretunum. Tímasetningin er því afar vel valin því eftir allt umbrotið í kjölfar hernámsins valda þessi umskipti enn á ný óvissu og óreiðu þegar önnur hermenning tekur við. Og félagi Flóvents frá Manitóba, Vestur-Íslendingurinn Thorson sem er fulltrúi herlögreglunnar, er honum aftur til aðstoðar. Arnaldur er ekki óvanur því að flakka í tíma með lögreglumennina sína, t.d. mætum við yngri Erlendi í Kamp Knox, en honum tekst þó ekki alveg eins vel í þessu tilfelli. Ef til vill er það vegna þess að lesendur hafa aðeins fengið að kynnast Flóvent og Thorson í einni sögu á undan og því erfiðara að fara aftur í tíma með þeim. Maður hefði þó haldið að það væri einmitt tækifæri til að setja kjöt á beinin, en það gerist ekki, þvert á móti vitum við ekkert meira um manninn Flóvent í lok sögunnar en í upphafi. Lesandinn finnur ennþá meira fyrir því þegar kemur að Thorson, en við vitum úr Skuggasundi að hann er samkynhneigður á tíma sem slíkt þurfti að fara leynt. Í Þýska húsinu eru fáeinir kaflar þar sem Thorson byrjar á því ferli að skilja kenndir sínar. Nú mynda hernámsárin einmitt einnig tímamót á þessu sviði, en koma hersins gjörbreytti aðstæðum og möguleikum þeirra sem ekki fylgdu norminu í kynferðismálum. Því er erfitt að skilja af hverju ekki er unnið meira og betur úr þessu, nema þá að Arnaldur hugi að framhaldssögu með þessum mönnum. Í umsögnum um Þýska húsið hefur þegar komið fram að Thorson hefði mátt vera „meiri“ Vestur-Íslendingur (sbr. umsögn í Kiljunni 4. nóv. 2015), og ég er alveg sammála því. Eins og er virðist bakgrunnur hans vera aðallega leið til þess að leyfa honum að flakka auðveldlega á milli setuliðs og Íslendinga.

Persónusköpun almennt er ekki alveg eins sterk og hún hefði getað verið í þessari sögu. Atburðarásin snýst aðallega um fjölskyldu af þýskum uppruna sem upphaflega sýnir hugmyndum nasista áhuga og viðheldur tengslum við þýska sendiherrann á Íslandi, Werner Gerlach – sem var eins og kunnugt er ákafur nasisti. Þegar á líður hættir faðirinn að trúa á áróður nasista en ekki sonurinn. Þetta er í sjálfu sér kjörið efni í stríðssögu þar sem mannleg átök eru í brennidepli: fólk lendir í örlagaríkum og að mörgu leyti ófyrirsjáanlegum aðstæðum út af stríðinu, þar sem jafnvel náskyldir lenda hvoru sínu megin við víglínuna. Íslenskar skáldsögur um seinni heimsstyrjöld skera sig margar úr vestrænni hefð stríðsbókmennta að því leyti að í þeim er oft fjallað um örlög Þjóðverja, ekki síst þeirra sem voru sjálfir á flótta undan nasistum en voru dæmdir þjóðernis síns vegna. Þetta gerist einnig í Þýska húsinu, en þó með þeim greinarmun að hér er ekki um mjög geðfellt fólk að ræða, og lesandinn fær aldrei nægilega mikla innsýn í feðgana til þess að öðlast mikinn skilning á þeim, sálarlífi þeirra og gjörðum. Svipað er að segja um aðalkvenpersónurnar. Eftir að hafa fordæmt hvernig farið var með „ástandskonur“ á áhrifaríkan hátt í fyrri verkum sínum vekur það sérstaklega athygli að þessu er öðruvísi farið hér. Vera má að Arnaldur sýni hér að hann sé ekki hræddur við að draga fram í dagsljósið að „á þessum furðulegu tímum“ (eins og hernámsárin kallast í Skuggasundi) hafi bæði karlar og konur gert sig sek um annaðhvort að græða og upphefja sig á kostnað annarra eða að láta blekkjast af vafasamri hugmyndafræði. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni, því jafnvægi ber að gæta í öllu. Mér þykir þó miður að aðalkvenpersónurnar í þessari sögu séu staðalkenndar og vel þekktar týpur úr glæpa- og stríðssögum, unga tálkvendið (e. „vamp“) annars vegar og eldri, ógifta nasistakerlingin hins vegar. Þetta eru staðalmyndir sem eiga uppsprettu sína í feðraveldi þar sem ungar konur eiga að vera hreinar meyjar og eldri konur giftar og mæður. Og þó að þær fylgi bókmenntagreininni og tímabilinu býst maður ekki alveg við þessu frá sagnameistara eins og Arnaldi.

Glæpasagan í Þýska húsinu er afar „Arnaldarleg“ í upphafi, með líkfundi sem vekur viðbjóð og furðu, en það er ekkert flakk milli fortíðar og nútímans í þetta skipti, og morðið hverfur fljótlega í bakgrunninn. Í nýlegu viðtali í Pressunni hefur Arnaldur orð á því að morð séu aukaatriði í sögum hans, og það má heita satt svo langt sem það nær: í verkum hans eru morð jafnan tilefni til að grafa upp gömul leyndarmál, afhjúpa misgjörðir og vekja þar með upp spurningar um samfélag okkar, siðferði þess og óréttlæti. Miðað við það afhjúpunarferli og þær spurningar eru morð ef til vill aukaatriði en þau eru þó á sama tíma kveikja og kjarni þessa ferlis. Líkið er jafnan tákn um lagabrot og óréttlæti af einhverju tagi (annaðhvort saklaust fórnarlamb eða afleiðingu hefndar sem bendir á að lögum hafi ekki verið framfylgt áður). Í þessari sögu fer morðið þó svolítið út um þúfur og verður of mikið aukaatriði í bókstaflegum skilningi, en það má ekki gerast í góðri glæpasögu, sem verður að bjóða upp á ‚kaþarsis‘ (eða hreinsun) af einhverju tagi: ef réttlætinu er ekki framfylgt í lok sögunnar, þá ætti hún alla vega að bjóða upp á tilfinningarlegt uppnám vegna þess. Ef hún gerir það ekki þurrkast fyrrnefnd mörk laga og óreiðu út og sagan, og samfélagið sem hún sprettur úr, eru skilin eftir í uppnámi.

Þetta þýðir þó alls ekki að Þýska húsið sé ekki góð bók. Hún er mjög skemmtileg aflestrar, enda Arnaldur afburðagóður sagnamaður. Þó að sagan gerist eingöngu á árinu 1941 er ýmislegt í henni sem talar til okkar tíma, eins og oftast í verkum Arnaldar: Íslendingar sem dragast að hugmyndafræði nasista, leynilegar erfðafræðilegar rannsóknir, og tækifærissinnar sem nota vald sitt í eiginhagsmunaskyni til að stýra þeim sem minna mega sín. Arnaldi tekst sérstaklega vel að skapa tíðarandann og bregður upp nákvæmri, lifandi og sannfærandi mynd af borginni á hernámsárum. Miðað við það hversu fáar skáldsögur gerast á þessum tíma og hvað Arnaldi tekst vel að gæða hann lífi finnst mér líklegt að það muni reynast aðalaðdráttarafl Þýska hússins.

Daisy Neijmann, desember 2015