Beint í efni

Tilfinningarök

Tilfinningarök
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Áður en ég tók mér nýjustu ljóðabók Þórdísar Gísladóttur í hönd hafði ég lifað við þann misskilning að hún bæri titilinn Tilfinningabók en ekki Tilfinningarök. Mér fannst fyrri titillinn vera í fullkomnum takti við fyrri stef höfundar og var viss um að þarna væri hún að leika sér með hugmyndina um tilfinningablogg sem var gott og gilt form hér á árum áður – blogg þar sem höfundur kom orðum að tilfinningum sínum á degi hverjum.  Miðað við fyrri efnistök Þórdísar fannst mér bara alls ekki ólíklegt að hún myndi nýta sér annað eins dægurefni sem uppsprettu að yrkisefni fyrir ljóð sín og ég ímyndaði mér að hér væri komin tilfinningabók með kaldhæðnislegum og skemmtilegum útúrdúrum.

En Tilfinningarök skal það vera, sem hefur yfir sér ef til vill svipaðan merkingarblæ og hugmynd mín um tilfinningabókina, því hér kannar ljóðmælandi hugarheim ólíkra einstaklinga við ólíkar aðstæður. Vangaveltum þeirra og hugmyndum um lífið og tilveruna mætti ef til vill lýsa með orðinu tilfinningarök, sem skilgreinir hvernig við metum aðstæður okkar hverju sinni út frá tilfinningum okkar og upplifunum og beitum þeim sem rökum til að halda vegferðinni áfram. Þetta hljómar ef til vill alvöruþrungið og hér má vissulega finna tregablandnari tón en áður í ljóðum höfundar. Sá tregi er samt sem áður matreiddur með hæfilegri gommu af kaldhæðni og húmor, þó að galsinn sé ekki eins áberandi og í fyrri verkum.

Segja má að Þórdís hafi slegið í gegn í fyrra með ljóðabókinni Velúr sem bæði var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut jákvæð viðbrögð almennings. Sjálf lýsti Þórdís því nýverið í viðtali hvernig margir hefðu komið að máli við hana og þakkað henni fyrir að yrkja skemmtileg ljóð. Ljóð hennar eru aðgengileg, hafa mikið skemmtanagildi, hitta oft naglann á höfuðið og þess vegna kjörin til þess að beina sjónum þeirra lesenda að ljóðum sem hafa ef til vill ekki lagt það í vana sinn að lesa ljóð áður. Eins og höfundur benti á í viðtalinu er þetta sennilega með betra lofi sem skáld getur fengið og Þórdís, eins og svo margir aðrir höfundar, á heiður skilinn fyrir sitt ötula starf til varnar ljóðinu, bókmenntunum og bara tungumálinu í heild. (Blikk blikk herra forseti og aðrir sem sjá um dreifa Fálkaorðum.) Þá er vert að taka það fram að Þórdís er, eins og kemur fram innan á bókarkápu, stórvirkur þýðandi sem hefur einnig samið barnabækur. Ljóðabækur hennar eru nú orðnar þrjár en sá ferill hófst með útgáfu Leyndarmála annarra en fyrir hana hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010.

Í Tilfinningarökum eru þrjú ljóð sem eru töluvert lengri en þau ljóð sem finna má í fyrri bókum Þórdísar og lýsa mætti sem ljóðabálkum. Fyrsti ljóðabálkurinn ber afar Þórdísarlegan titil: „Laghentur maður leitar að lífsförunaut“ og er rammaður inn af tveimur ljósmyndum. Sú fyrri sýnir strætóskilti í Mjódd en sú seinni birtir strætóstoppistöðina við Hlemm í allri sinni dýrð. Að sama skapi hefst ljóðið og endar á skáletruðum línum sem gefa til kynna ákveðinn stað og ákveðinn tíma. „08:06 Mjódd“ í  upphafi og „08:27 Hlemmur“ í lokin vísa þannig til þess að bálkurinn er frásögn sem verður til á leiðinni milli þessara tveggja staða og er í raun hugrenningar laghenta mannsins á meðan hann situr í strætó og bíður eftir því að komast á leiðarenda. Strætóferðin endurspeglar innra ferðalag þar sem hugsunum er leyft að flæða en lesendur þekkja það vafalaust flestir hvað það getur verið gott að hugsa í strætó eða öðru faratæki sem er á ferð, þá sérstaklega þegar maður er einn og engin ytri samskipti trufla innra samtalið. Maðurinn í ljóðinu, sem lýst er í þriðju persónu af ljóðmælanda, veltir fyrir sér kvenkostum og skoðar sjálfan sig í leiðinni. En eins og á við um okkur flest er hann meðvitaður um líkamlega vankanta sína og ófullkomleika. Í leiðinni veltir hann fyrir sér hvernig það væri að vera í öðrum líkama, til dæmis í líkama konu. Strætóferðin gefur honum þannig tækifæri til að hugleiða og sökkva dýpra í hugleiðingar sínar en undir öðrum kringumstæðum.

Annar ljóðabálkurinn í bókinni ber titilinn „Skyndimyndir“ og hefur að geyma sextán örljóð eða smáprósa sem minna um margt á fyrri ljóð höfundar. Hér verður hvert ljóð að ákveðinni karakterstúdíu sem minnir að vissu leyti á portrettmyndir raunsæismálara. Það er þó ekki ytra útlit persónanna sem birtist lesendum heldur innra líf þeirra og hugsanir við ákveðnar aðstæður. Hér fáum við glefsur úr lífi sögupersóna sem við gætum kannast við. Það á við um konuna sem keyrir langt undir löglegum hraða á Reykjanesbrautinni, konuna sem býr með draugi sem lítur út eins og Jerry Seinfeld, og manninn sem stöðugt þarf að sanna karlmennsku sína með mannalátum. Á eftir ljóðabálknum fylgir ljósmynd af tælenska veitingastaðnum Ban Thai sem er ekki svo langt frá fyrrnefndum Hlemmi og þar sem maðurinn með mannalætin pantar sér sterkasta réttinn á matseðlinum til að ganga í augun á samstarfsfélögum sínum.

Ljóðabókinni er svo lokað með ljóðabálki sem ber titilinn „Til huggunar“ og einkennist af þyngri stefjum en fyrri ljóðin en hefur engu að síður sömu skírskotanir til samtímans. Hér er það miðaldra kona sem verður að vitundarmiðju ljóðsins. Hún finnur hvernig aldurinn færist yfir og veltir fyrir sér spurningum, sem eru allt að því tilvistarlegar, um hinn óbærilega léttleika sem stundum einkennir tilveruna en að sama skapi þær hindranir sem verða á vegi þeirra sem leita að hamingjunni.

Það liggur að sjálfsögðu beinast við, og er um leið afar freistandi, að lýsa því yfir að hér sé höfundur að gefa okkur vísbendingu um ákveðna þróun í höfundarverki sínu og að næst komum við til með að sjá hana spreyta sig á lengri frásagnarformum, til dæmis smásagnaforminu eða jafnvel skáldsögunni. Það þarf þó alls ekki að vera heldur vitnar til um þá fjölbreytni sem einkennir ljóðformið og möguleikana sem það býr yfir. Ég ætla samt sem áður að leyfa mér að segja að það væri mjög gaman að fá að lesa smásögusafn með sögum eftir Þórdísi, til dæmis um fólkið sem býr í Norðurmýrinni, ekki svo langt frá áður greindum Hlemmi og Ban Thai. Hún hefur nú þegar sannað það, til dæmis með hinum bráðskemmtilegu barnabókum um Randalín og Munda, að hún á í fullt erindi við lengri frásagnarform.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2015