Hótelsumar
Það er varla hægt að hugsa sé meiri andstæður en útvarpsþáttinn Zombí, þarsem Gunnar Hjálmarsson og Sigurjón Kjartansson fara mikinn, og hæglætisbækur Gyrðis Elíassonar, Tvífundnaland og Hótelsumar. Samt fylgist þetta að hjá mér þennan morguninn. Gyrðir er líklegast okkar afkastamesti höfundur, allavega hvað varðar fjölda bóka, en allt frá árinu 1983 hefur hann gefið út bók árlega – næstum því. Mér sýnist hann hafa misst út ein þrjú ár úr, nú síðast 2002, en í fyrra saknaði ég þess mjög að fá engan Gyrði í hendurnar. Það er helst glæpasögudaman Birgitta Halldórsdóttir sem stenst Gyrði snúning hvað útgáfu varðar, en hún á einmitt 20 ára útgáfuafmæli í ár. Gyrðir bætti hinsvegar snarlega úr bókarleysinu í fyrra með því að gefa út tvær bækur þetta árið, ljóðabókina Tvífundnaland og skáldsöguna Hótelsumar. Kannski er það vegna þess hversu hljóðlátar bækur Gyrðis eru og hógværar; þær hafa dálitla tilhneigingu til að fara lágt og næstum með veggjum, að þær fá sjaldnast þá athygli sem þær eiga skilið. Þó gat ég ekki annað en hugsað með mér þarsem ég renndi mér gegnum Hótelsumarið og svo Tvífundnalandið á eftir að betra gerðist þetta nú tæplega. Bækur Gyrðis eru aldrei minna en meiriháttar, sumar frábærar og aðrar hefja sig enn hærra: Íkornasögurnar og Vatnsfólkið eru mér sérlega minnistæðar, svo og ljóðabókin Hugarfjallið, og nú þessar tvær nýju. Í gegnum árin hefur Gyrðir haldið áfram að fága sinn stíl, hann vinnur með sömu minnin og sviðsetningarnar, fágar og pússar, kannar nýjar hliðar, en fer aldrei of langt frá – svolítið eins og bandaríska skáldkonan Emily Dickinsson sem fór víst aldrei langt út fyrir garðinn sinn en hefur skrifað ein eftirminnilegustu ljóð sem ég hef lesið. Með þessu móti hefur Gyrðir náð að skapa sér sína stöðu, svo notuð sé sú klisja, og sú staða í dag hlýtur að vera sterk, allavega í fagurfræðilegum ef ekki markaðslegum skilningi: já, lesendur góðir, ég er að hugsa um að lýsa því yfir að Gyrðir sé einn af okkar albestu núlifandi rithöfundum, jafnvígur á ljóð, smásögur og skáldsögur, þá nær hann stöðugt að hrífa, reyndar svo að það fer alltaf dálítill ánægjuhríslíngur um mig þegar ég fæ Gyrðisbók í hendurnar.
Hótelsumar var engin undantekning þar á. Sagan segir frá nýfráskildum manni sem fer til heimabæjar síns til að sleikja sárin og sest þar að á hóteli en ættingjar hans í bænum eru burtfluttir og látnir. Þrátt fyrir að hafa lesið sögu sem segir frá vonbrigðum með slíka ferð á heimaslóðir er sögumaður ákveðinn í að láta þetta ganga, og svo lýsir sagan því hvernig hann kannar bæinn og uppgötvar hann á nýjan leik, og lendir í ýmsum dularfullum atburðum, sem aðallega felast í mannshvörfum. Það er dálítið annar blær yfir þessari sögu Gyrðis en mörgum öðrum, að mörgu leyti mætti hugsa sér að hún sé nærgöngulli eða persónulegri en aðrar sögur hans, án þess þó að vera í einhverjum afhjúpunarstíl; kannski kemur þetta bara af því að nú er höfundurinn sjálfur orðinn eldri (miðaldurinn nálgast), og ákveðinn bernskublær sem svo oft einkennir stíl og efnistök er hér að mestu horfinn. Sögumaður rifjar ekki mikið upp frá fortíð sinni, heldur sér bæinn og líf sitt með augum fullorðins manns. Eins og fyrr er textinn fullur af húmor, en kímnigáfa Gyrðis er oft vanmetin finnst mér. Vissulega geta Zombíarnir mínir verið skemmtilegir og gleðigjafar í morgunsárið (þó þeir geti líka verið óþolandi), en það er Gyrðir bara líka (nema aldrei óþolandi), ég hlæ oft upphátt yfir bókum hans og hef aldrei skilið fólk sem ekki nær húmornum í Gyrði (kannski er þetta bara almennt vandamál, hinn íslenski húmor er jú alltaf fyrst og fremst nautslegur). Húmorinn kemur hvað ljósast fram í þeim margvíslegu pínlegu aðstæðum sem persónurnar lenda í en er einnig til staðar í sjálfu tungumálinu, myndmáli og hreinlega orðanotkun. Svona álíka og sést oft í verkum Laxness (þótt húmor hans virðist sárlega lítið til umræðu, þó ekki veitti af einmitt nú). Annað einkenni á myndmáli Gyrðis er hvernig hann notar það til að færa lesandann á milli staða – nú er ég orðin kunnug þessu trikki sem ég myndi kenna við módernisma; skyndilega er dregin upp mynd sem síðan heldur, að því er virðist á eigin vegum, áfram og skyndilega er sögumaður/lesandi staddur í öðrum heimi. Einfalt dæmi um þetta er þegar gardína vefst um höfuð sögumanns og honum líður andartak eins og Araba – og mér líka. En þó ég sé farin að þekkja þetta, þá gleður það mig alltaf mikið að fylgja þessum krákustígum eftir.
Tvífundnaland
Ljóðabókin Tvífundnaland er greinilega úr sama heimi og Hótelsumar, og er auðvelt að sjá ákveðin félagablæ á þeim bókum, þó ekki væri nema vegna allra gulu stráanna sem stingast út úr myndmálinu víðast hvar (prófið að telja stráin). Líkt og í Hótelsumri, og jafnvel enn meira en þar, er dauðinn reglulegt stef, og bókin endar á einskonar kveðjuljóði, ,,Hinstu kveðju", en þar hverfur ljóðmælandi í þoku og haf og eru lesendur sem sakna hans beðnir að láta Veðurstofuna njóta þess. Þrátt fyrir þetta er bókin, líkt og Hótelsumar, full af húmor og gleðinni sem finna má í einföldum hlutum, bókum og náttúru. Þó er meiri ógn yfir ljóðunum en í skáldsögunni, en sem fyrr eru miklar vísanir í þjóðsagnaheima og yfirnáttúru og dulúðin ríkjandi. Húmorinn kemur til dæmis fram í ljóðinu ,,Næturflug", en þar þýtur rauðeygð flugvél í gegnum myrkrið og ber við tunglið, hún minnir á mölflugu sem laðast að loga gaslampa og brennur upp með háu snarki. Hí hí, hvað snarkið er skemmtilegt orð. Í ,,Bilun í leitarstöð" minnir hvítur hundur á Moby Dick og ljóðmælandi pjakkar með stafnum eins og hann sé að leita að krókódílaeggjum á norðurslóðum: ,,Eiginlega er ég að því". Dulúðin birtist svo í ljóði eins og ,,Svefnleysi" en þar ríkir myrkur í hömrum fjallsins, ljóðmælandi fer í ugluham og flýgur upp á brún. Sem fyrr er myndmálið einfalt og samspil myndanna, sem oft mætti líkja við samklipp í kvikmyndum, sláandi. Dæmi um það er notkunin á hinu klassíska tákni, ljánum, í ljóðinu ,,Eyðilandið". Þar er lýst gömlum eyðilegum bæ, og ljóðmælandi gengur inn í smiðjuna og sér úti í horni, ljáinn ,,– og hvað sé ég: splunkunýtt ferðaútvarp/sem flytur án afláts fréttir af mannfalli/úti í heimi". Þetta ljóð minnir mig á eitt af albestu ljóðunum úr Hugarfjalli, ljóðinu um gamla manninn sem talar um fornsögur Grikkja og Rómverja, en hann hefur lesið mikið síðan konan hans dó. Hann talar um stráfellda menn, og horfir yfir nýslegin túnin, svo talar hann um Egyptaland og við blasir fjall sem er eins og grafhýsi og að lokum segir hann ,,Ég hef/séð múmíur" og rís upp. Í myndmálinu skiptist stöðugt á dauði og upprisa, stráfelldir menn speglast í nýslegnu grasi og pýramíðar í íslenskum fjöllum, en að lokum kemur alltaf upprisan. Vissulega verð ég að játa að ekki eru öll ljóðin í Tvífundnalandi jafnsterk, sum eru dálítið fálmandi, og fannst mér sérstaklega vísanir í virkjanaumræðuna ekki ná máli. En það er kannski bara vegna þess að þó ég álíti að skáldskapur geti verið – og jafnvel eigi að vera – pólitískur (og hér skilgreini ég pólitík á mjög víðan hátt), þá finnst mér það vera erfitt jafnvægi, og er iðulega ósátt við það sem ég kalla áróðurstón. Sjálfsagt skilgreini ég bara þetta jafnvægi of þröngt. En í heildina séð er Tvífundnaland bæði sterk og heillandi, það er fallegur stígandi í bókinni og sömu stefin, þaklausa kirkjan og stráin, stinga upp kollinum og skapa flæði. Á stundum mætti hugsa sér að ljóðin séu eins og himinninn í ,,Púsluspili fyrir lengra komna", en þar glampar sólin á himinbláum húsþökunum ,,einsog himinninn/hafi brotlent/og brakið/dreifst yfir allt". Lesið þetta aftur og sjáið púsluspilið fyrir ykkur: þökin eru púslið og svo er bara að raða þeim saman í himin. Það hefur því ekki farið fyrir Gyrði eins og rithöfundinum sem situr í ,,Sumarhúsi við Hjaltastaðarþinghá", en það hús stendur á stólpum í mýrinni, þarsem brunnklukkur ,,bylta sér gremjulega/í botnleðjunni". Blöðin eru óskrifuð því orðin sökkva í mýrina áður en þau nást.
Sjálft ,,Tvífundnalandið" minnir dálítið á heim bóka Þorvaldar Þorsteinssonar um Blíðfinn, en það er land ævintýra, dimmra skóga og djúpra dala, landið sem börnin finna og týnist en finnst óvart á ný, ,,áður en silfur-/þráðurinn slitnar". En lýsingin á þessu landi á fullt eins við um verk Gyrðis sjálfs sem einmitt dvelja mikið í þessu landi sem tilheyrir bernsku og þeirri sérstöku sýn á umhverfið sem bernskan býður upp á, sýn sem einkennist af því að sjá hlutina upp á nýtt og frá óvæntum sjónarhornum og að sjá hið einfalda í umhverfinu, og það er land sem Gyrðir hefur hreint ekki týnt.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003