Beint í efni

Týndi hellirinn, Flóttinn frá París og Rafmagnsmorðið

Týndi hellirinn, Flóttinn frá París og Rafmagnsmorðið
Höfundur
Valur Vestan
Útgefandi
Frum
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Týndi hellirinn, Flóttinn frá París og Rafmagnsmorðið
Höfundur
Valur Vestan
Útgefandi
Frum
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Týndi hellirinn, Flóttinn frá París og Rafmagnsmorðið
Höfundur
Valur Vestan
Útgefandi
Frum
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fréttirnar af endurútgáfu sagna Vals Vestan glöddu mig ákaflega, en glæpasögur frá fyrri hluta aldrarinnar eru flestar ófáanlegar nema á lestrarsölum bókasafna. Valur Vestan var dulnefni Steingríms Matthíasar Sigfússonar og bækurnar voru upphaflega gefnar út á árunum 1948-1950, sú fyrsta var Týndi hellirinn, henni fylgdi Flóttinn frá París og sú síðasta var Rafmagnsmorðið.

Fyrstu tvær sögurnar eru hreinir reyfarar úr seinni heimsstyrjöld. Við kynnumst jarðfræðingnum og auðuga ævintýramanninum Krumma Jónssyni og félaga hans og aðstoðarmanni, Tóka. Krumma er lýst sem sannri hetju, með yfirbragð ljósra víkinga, meðan Tóki er all hversdagslegri í útliti. Í fyrstu bókinni eru þeir í leit að helli sem Krummi hefur haft spurnir af og grunar að þar felist gull. En þeir fá ekki frið til jarðfræðirannsókna, því stríðið er í fullum gangi, Bretar gruna Krumma um græsku, meðan hann gerir sitt besta til að gera Þjóðverjum skráveifu. Allt endar þetta svo á því að hetjan fréttir af því að konan sem hann elskar er illa stödd í klóm innrásarhers nasista í París. Flóttinn frá París kemur því í beinu framhaldi af Týnda hellinum, en þar æðir Krummi af stað, fyrst til Lundúna, þarsem gata hans er greidd vegna hetjudáða fyrri bókarinnar, og síðan er hann sendur í dulargerfi, sem hálfþýskur njósnari, til Parísar. Þar er stúlkan fagra ritari hjá nasistadólgi og nú æsist leikurinn.

Þriðja sagan gerist á bannárunum og er mun meiri glæpasaga en hinar tvær. Í fyrstu sögunni kemur fram að Krummi hefur oft aðstoðað lögregluna við ýmis mál en það er ekki fyrr en í Rafmagnsmorðinu sem við hittum hann fyrir í þeim ham. Ung kona finnst myrt á heimili sínu í miðbænum, hún hefur orðið fyrir raflosti. Í fyrstu virðist sem um slys sé að ræða, en Krummi er alltaf glöggur og rekur augun í tilkynningu um að rafmagnið muni hafa verið tekið af, einmitt þegar stúlkan átti að hafa látist. Fer svo í hönd heilmikil rannsókn, í fyrstu er saklaus maður ásakaður og handtekinn, en stúlkan hafði komið óheiðarlega fram við hann. Krummi veit hins vegar betur og beinir rannsókninni á réttar brautir. Hér er meira að segja dæmi um tæknilega rannsókn, því meðal annars finnast þræðir úr kápu sem ráða úrslitum við lausn málsins.

Það væri ofsögum sagt að segja að hér séu mikil bókmenntaleg verðmæti á ferðinni, hvað varðar gæði á texta. Hinsvegar eru sögurnar ákaflega fróðleg og áhugaverð innsýn í hulduheima íslenskrar bókmenntasögu, auk þess að vera smart og vel heppnuð atlaga að því að skrifa íslenska reyfara. Sögurnar gefa að auki skemmtilega innsýn í þetta tímabil og teikna upp andrúmsloft sem ekki er að finna annarsstaðar. Sem slíkar eru þær ómissandi lesning fyrir alla aðdáendur og áhugafólk um íslenskar glæpasögur og fyrir aðra lesendur ættu bækurnar einnig að vera forvitnilegur fengur.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2005