Úlfur og Edda : Drekaaugun er beint framhald af Úlfur og Edda : Dýrgripurinn sem kom út í fyrra. Sagan hefst skömmu eftir að sú fyrri endar, eða sama sumar, og ekki er langt liðið síðan þau stjúpsystkinin Edda og Úlfur sneru aftur úr Ásgarði eftir átök við Æsi og ýmsar aðrar misalmennilegar verur. Pabbi Eddu og mamma Úlfs hafa nú ákveðið að selja húsið og minnka við sig til að reyna að rétta úr fjárhagnum, búið er að tæma allt úr gamla húsinu og fjölskyldan heldur af stað í hringferð um landið áður en þau fá nýtt heimili afhent. Áður en ferðin hefst fyrir alvöru ætla þau að hafa viðkomu í Skálholti hjá ömmu Eddu (sem heitir líka Edda), en hún er fornleifafræðingur sem bæði býr og starfar í Skálholti. Flutningar og ferðalög leggjast misvel í börnin; Úlfur er alsæll og hlakkar til en Edda er alls ekki ánægð. Henni finnst nóg komið af breytingum og nóg komið af því að laga sig að nýju samsettu fjölskyldunni sinni.
Þegar komið er í Skálholt kemur í ljós að þar er ekki allt með felldu. Dýrmætum forngrip hefur verið stolið af Þjóðminjasafninu og amma Edda liggur undir grun. Hún er auk þess horfin og lögreglan leitar að henni. Börnin átta sig fljótt á því að forngripastuldurinn og hvarf ömmu hljóta að tengjast Ásgarði á einhvern hátt og ákveða að snúa aftur niður í gegnum göngin til að finna ömmu og hjálpa henni að sanna sakleysi sitt. Í Ásgarði er eitthvað undarlegt á seiði og allt virðist vera í upplausn. Krakkarnir komast á spor ömmu en til að finna hana þurfa þau að fara um hættulegar slóðir og glíma aftur við hin óútreiknanlegu og hvatvísu goð.
Sagan sækir sem fyrr innblástur og efnivið í norrænar goðsögur. Hér er nútímabörnunum Úlfi og Eddu skutlað á mjög hugmyndaríkan og vel úthugsaðan hátt inn í fornan heim sem á við fyrstu sýn ekkert skylt við nútímann. Með kynnum barnanna af íbúum Ásgarðs er kafað dýpra undir yfirborð á persónum goðanna og varpað ljósi á hversu breysk þau eru, þrátt fyrir stöðu sína og vald. Í Dýrgripnum fengu lesendur að kynnast þeim Freyju og Þór, ásamt Loka hinum lævísa, Fenrisúlfinum (Fúffa) og fleirum, en hér eru það æskugyðjan Iðunn, Óðinn sjálfur, Frigg og Hel meðal annarra sem eru í aðalhlutverkum. Loki kemur auðvitað við sögu og á jafnvel, eins og svo oft, sökina að því að allt stefnir í óefni í Ásgarði enn eina ferðina. En eins og Loki er lævís og slóttugur er börnunum, og lesandanum, þó alveg ljóst að hann á ekki einn sökina að því hvernig komið er fyrir Ásunum í þetta sinn heldur hafa þeirra eigin hégómi og sjálfselska heilmikið með vandræðin að gera.
Með goðunum og vandamálum þeirra má svo sjá ákveðna hliðstæðu með vandamálunum sem Edda stendur frammi fyrir. Goðin vilja ekki breytingar af neinu tagi, þau vilja ekki eldast og þau vilja halda því jafnvægi sem þau hafa komið á. Þegar Loki fer enn eina ferðina að rugga bátnum með slóttugheit og undirferli stefnir í að allt fari algerlega úr skorðum því goðin eru stíf og ósveigjanleg eins og þau eru skapmikil og stolt. Edda glímir einnig við breytingar sem hún er lítið hrifin af, fjölskyldan hennar er orðin ólík því sem hún var og inn á heimilið kemur bróðir sem er mjög ólíkur Eddu og passar alls ekki inn í rólegt líf hennar. Hún er hæglátur grúskari en hann er uppátækjasamur, hvatvís og hávær. Hann hlakkar til breytinga en hún kvíðir þeim og vill halda í fortíðina líkt og goðin. Ólíkt goðunum sér Edda hins vegar á endanum að breytingar þurfa ekki að vera alslæmar og það er hægt að halda í fortíðina á sama tíma og framtíðinni er tekið opnum örmum, eitt þarf ekki að útliloka annað. Samband stjúpsystkininanna er mikilvægt þema í sögunni því þó að hún fjalli um goðsögur og ævintýralega atburði er sagan líka frásögn af því hvernig samband barnanna þroskast og breytist og þau læra að meta hvort annað.
Drekaaugun er bæði fræðandi og spennandi í senn, án þess að lesandinn sé mataður á þekkingu. Frásagnarstíllinn er öruggur og sagan flæðir áfram hnökralaust bæði í æsilegum eltingarleikjum um Ásgarð og í samskiptum barnanna sín á milli og við aðra. Í lokin er gengið snyrtilega frá öllum lausum endum, án þess að lokað sé á mögulegt framhald, enda enginn skortur á vandræðum þegar Loka tekst að etja Ásum hverjum gegn öðrum. Sagan heldur tryggð við goðsögurnar og veitir á sama tíma nýtt sjónarhorn á þær, þar sem þau eru skoðuð með augum nútímabarna. Hugmyndir Úlfs og Eddu stangast oft verulega á við heimsmyndina í Ásgarði og þessi menningarmunur, ef svo mætti að orði komast, kemur þeim oft í hættu en sýnir þeim á sama tíma hvað er mikilvægt í lífinu.
María Bjarkadóttir, desember 2017