Sumarið framundan virðist ekki lofa góðu fyrir Eddu og allt stefnir í að það verði bæði langdregið og leiðinlegt. Pabbi hennar hefur ákveðið að leigja heimili þeirra til túrista yfir sumarið og þau feðginin ætla að búa í Skálholti á meðan ásamt litla stjúpbróður Eddu, honum Úlfi, sem Eddu kemur ekkert allt of vel saman við. Pabbi Eddu hefur nefnilega tekið að sér sumarvinnu sem kokkur í Skálholti, þrátt fyrir að kunna ekkert að elda. Eina bjarta hliðin er að í Skálholti vinnur amma Eddu og nafna, en hún er fornleifafræðingur og er bæði stórskemmtileg og helsta fyrirmynd barnabarnsins.
Þegar komið er í Skálholt verður Úlfi og Eddu þó strax ljóst að þar er eitthvað mjög vafasamt á seyði. Ekki líður á löngu þar til grunur þeirra er staðfestur, brotist er inn á skrifstofu ömmu Eddu og dýrmætum forngrip stolið. Þau ákveða að hjálpa ömmu að endurheimta gripinn, því án hans er margra ára rannsóknarstarf hennar að engu orðið. Þau systkinin grunar strax hver þjófurinn sé enda hefur ákveðinn aðili í Skálholti hagað sér afskaplega undarlega síðan þau komu. Systkinin ákveða að elta hann uppi og þegar hann hverfur ofan í dularfull jarðgöng sem enginn annar virðist vita um fylgja þau fast á eftir. Við hinn enda ganganna bíður þeirra staður sem eru engu líkur. Þar er allt risastórt og forneskjulegt og eftir að hafa litast um átta þau sig á því að þau eru stödd á stað sem þau þekkja bæði en héldu að væri ekki til í alvöru; þau eru í Ásgarði þar sem æsir ráða ríkjum og mannabörnum er bráð hætta búin. Markmiðið að finna gripinn og koma honum aftur til ömmu Eddu snýst fljótlega upp í æsilegan eltingaleik við þjófinn. Þau verða að hafa sig öll við til að lifa af því goð og garpar eru ekki til að leika sér við og þeim er yfirleitt alls ekki treystandi. Úlfur og Edda eru ekki ein um að leita forngripsins og þau verða að leggja sig öll fram til að finna hann og komast með hann aftur heim.
Þau Úlfur og Edda eru afar ólíkar persónur en eru hvort á sinn hátt nokkuð dæmigerð nútímabörn. Úlfur er hvatvís og orkumikill, óhræddur við að taka áhættu og er stundum full fífldjarfur að mati Eddu. Á sama tíma er hann einlægur og tryggur og gerir allt sem hann getur til að standa við loforð, þó hann rasi stundum um ráð fram í þeim efnum. Edda er hins vegar róleg og yfirveguð, hún er vísindalega þenkjandi og leggur sig fram um að rannsaka umhverfi sitt og skilja það. Hún er eftirtektarsöm og athugul en stundum einræn og lokuð að mati fjölskyldu sinnar. Þau Úlfur vega hvort annað upp á margvíslegan hátt og persónuleikar þeirra beggja, hvatvísi Úlfs og forvitni Eddu, hafa mikil áhrif á ævintýri þeirra í Ásgarði. Þrátt fyrir að bæði skipi þau mikilvæg hlutverk í sögunni er Edda samt sem áður aðalpersónan. Sagan fylgir henni að mestu leyti og segir frá lífi hennar, hugsunum og tilfinningum. Þau Úlfur verða reyndar viðskila á ákveðnum tímapunkti og þá er sagt frá afdrifum beggja, sitt í hvoru lagi, enda kemur í ljós að ævintýrin sem þau lenda á meðan þau eru aðskilin eru mikilvæg framvindu sögunnar.
Sögusviðið er, líkt og persónusköpunin, byggt upp af andstæðum, annars vegar Íslandi nútímans og hins vegar Ásgarði, þar sem æsir og ásynjur ráða ennþá rikjum, algerlega ómeðvituð um að enginn í mannheimum trúi á þau lengur. Stór hluti atburðarásarinnar fer fram í Ásgarði, þar sem ýmislegt óvenjulegt og framandi ber fyrir augu barnanna. Upplifun þeirra, og þá sérstaklega Úlfs, á umhverfinu er oft sérlega skemmtileg og dregur fram hversu framandi þessi heimur er fyrir þeim. Risatré verða í hans huga eins tré á sterum og leðurblökur verða hættulegar vampírur, svo dæmi séu tekin. Klæðaburður Úlfs er reyndar kannski skondnasta atriðið en hann er megnið af sögunni íklæddur Spiderman búningi, sem er nokkuð eðlilegur klæðnaður fyrir nútímabarn en hlýtur að stinga ansi mikið í stúf í Ásgarði.
Úlfur og Edda er bæði spennandi og skemmtileg aflestrar. Í Ásgarði lenda systkinin í miðjum norrænu goðsögunum sem flestir kannast við og margir hafa heyrt eða lesið sjálfir. Goðsögurnar eru í stórum dráttum samkvæmar því sem við þekkjum fyrir en eru hér í frumlegu ljósi, þar sem er sýnt fram á það hvernig forneskjulegur hugsunarháttur, tilætlunarsemi ásanna og sjálfselska hefur átt þátt í stöðnun sem er að verða þeim að falli. Úlfur og Edda læra hins vegar að sættast við breyttar aðstæður í lífinu og gleðjast yfir því sem þau eiga. Samband þeirra þroskast og dafnar eftir því sem líður á og þau átta sig á því að þau séu í raun bæði bara nokkuð heppin að eiga hvort annað að.
María Bjarkadóttir, desember 2016