Það var með mikilli eftirvæntingu að ég hóf lesturinn á Undantekningunni, fjórðu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Fyrri bækur höfundar, og þá sérstaklega skáldsagan Afleggjarinn frá 2007, eru mér einfaldlega að skapi; efnistökin eru lágstemmd, stíllinn vandaður og textinn myndrænn og skrifaður af næmni. Þá drógu fréttir af tilnefningu Undantekningarinnar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna ekki úr áhuganum en þetta er í fyrsta skipti sem verk eftir Auði Övu kemur þar við sögu. Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að sagan stóðst allar mínar væntingar og gott betur.
Undantekningin hefst af krafti þegar Flóki, eiginmaður aðalpersónunnar Maríu og sérfræðingur í óreiðukenningunni, tilkynnir eiginkonu sinni rétt fyrir miðnætti um áramót að hann sé samkynhneigður og ætli að yfirgefa hana fyrir samstarfsmann sinn sem heitir líka Flóki og er líka sérfræðingur í óreiðukenningunni. Þetta kemur að sjálfsögðu miklu róti á tilfinningalíf Maríu sem nýtur ráðlegginga frá nágrannakonu sinni, dvergnum Perlu sem býr í kjallaranum og er bæði sálgreinir og rithöfundur. Saman reyna þær að kryfja vandamál Maríu um leið og Perla veltir fyrir sér skrifunum sem hún er að fást við hverju sinni. María rifjar upp atburði í sambandi þeirra Flóka til þess að reyna að skilja það orsakasamhengi sem að lokum leiddi til sambandsslitanna, jafnframt því að leika hlutverk sitt sem móðir tveggja barna og dóttir foreldra sinna. Þema undantekningarinnar er því í stuttu máli óreiða lífsins, hvernig lífið getur breyst á svipstundu, hvernig megi takast á við hið ófyrirsjáanlega og ekki síst hvernig megi gera grein fyrir þessu öllu saman í frásögn. Eða eins og Perla segir: „Reynslan hefur þó kennt mér að mannleg hegðun er tilviljunarkennd, duttlungafull og ófyrirsjáanleg. Ef maður ætlar að sjá fyrir viðbrögð manna þarf að gera ráð fyrir öllum möguleikum sem er ómögulegt. Útkomurnar verða óendanlega margar.“ (37)
Undantekningin gæti verið stúdía í táknrænu gildi nafna í skáldsögum. Flókarnir tveir flækja líf Maríu óneitanlega og beina sjónum að mætti nafngiftar – hefur nafnið sem þeim var gefið eitthvað að gera með áhuga þeirra á óreiðukenningunni? Perlan í kjallaranum minnir á einskonar sálgreiningarlega djúpsjávarperlu og er afar mikilvæg í frásögninni. Hún gefur aðalpersónunni ekki aðeins ráð, og á köflum írónískt mat á aðstæðum hennar, heldur leynist í henni einnig ákveðin frásagnartækni sem hefur mikilvæg áhrif á frásögnina í heild. María og Flóki eiga saman tveggja ára gamla tvíbura og sonur þeirra, sem upphaflega heitir Björn, er afar lítill í sér og viðkvæmur. Hann kallar sjálfan sig Bamba en oft er minnst á að það sé orðið tímabært til að kalla barnið sínu rétta nafni sem gefur ákveðna hugmynd um tengsl vaxtar, þroska og (gælu)nafna. Þá er María afar dæmigert nafn á skáldsagnakvenpersónu og þrungið merkingu sem rekja má til Biblíunnar og hinnar kaþólsku guðsmóður. María á reyndar ýmislegt sameiginlegt með henni, hún er móðir sem vill þar að auki bjarga öllum börnum heimsins og vinnur m.a. við hjálparstörf til að koma því til leiðar.
Sagan sver sig að mörgu leyti í ætt við fyrri sögur höfundar. Hér er boðið upp á ríkulegt persónugallerí og afar næmt fagurfræðilegt sjónarhorn á lífið og hversdagslega atburði. En hér kennir þó einnig nýrra grasa og með Undantekningunni skrifar Auður sig inn í hefð svokallaðra „pómó-prakkara“ og rithöfunda sem skrifa sjálfvísandi eða sjálflýsandi texta til að draga athygli lesandans að frásagnarforminu sjálfu og sköpun þess. Undantekningin er öðrum þræði „metafiksjón“ eða sjálfsaga eins og það hefur m.a. verið nefnt á íslensku. Í grófum dráttum felur sjálfsagan í sér sögu sem lýsir tilurð sinni og vísar í skáldskap og skáldskaparskrif almennt. Íslenskir höfundar hafa margir hverjir spreytt sig á formi og tækni sjálfsögunnar. Þar á meðal má nefna Elías Mar, Vigdísi Grímsdóttur, Hermann Stefánsson, Gyrði Elíasson og Braga Ólafsson.
Undirtitill sögunnar, de arte poetica eða „um skáldskaparlistina“, slær strax tóninn fyrir sjálfsögulega eiginleika sögunnar og í tilvitnun í Hin hýru vísindi, sem birt er í upphafi, dregur Nietzsche tengsl á milli lífs og frásagnar, skáldskapar og veruleika. Hin sjálfsögulegu einkenni koma fyrst og fremst fram í gegnum frásagnarspegilinn Perlu og hugleiðingar hennar um skáldskap, frásagnir og skrif. Perla undirstrikar hlutverk sitt sem frásagnaspegill með því að tengja sig við málverkið Las Meninas eftir Velazques sem er með frægari meta-málverkum og sýnir málarann að störfum mitt í málverkinu: „Þótt hún [móðir Perlu] vildi ekki segja mér hver faðir minn væri, var hún með eftirprentun af Las Meninas eftir Velazques í stofunni. „Til þess að ég vissi hvaðan ég kæmi“, eins og hún orðaði það.“ (140) Þar að auki skapar Perla tengsl á milli sálgreiningar og frásagnar sem er uppsretta að frjórri og margræðri greiningu, en uppbygging sögunnar minnir á aðferð sálgreiningar þar sem hægt og rólega er reynt að fletta ofan af frásögninni og vandamálum aðalpersónunnar. Í þeim anda væri einnig hægt að færa rök fyrir því að Perla sé í raun uppspuni aðalpersónunnar, eins konar fulltrúi undirmeðvitundar hennar eða viðbót við hana sem tekst á við að smíða frásögn úr óreiðukenndum veruleikanum. Þess utan er Perla ákaflega skemmtilegur karakter og veitir oft meinhæðið og húmorískt sjónarhorn á vandamál og flækjur Maríu.
Matur og matargerð gegna mikilvægu hlutverki í skáldskap Auðar Övu. Ég minnist þess að hafa lesið viðtal þar sem hún lagði áherslu á skyldu hennar sem rithöfundar að gefa skáldsagnapersónum sínum að borða. Hún hefði mátt bæta við mikilvægi þess að gefa þeim gott að borða því hér eru engin svið, sem virðast vera aðalfæða einnar þekktustu skáldsagnapersónu á Íslandi um þessar mundir. Þessi áhersla á matargerð og góðan mat hefur ef til vill eitthvað að gera með hversu góðar viðtökur bækur höfundar hafa fengið í matarkistum Frakklands og Ítalíu. Þegar Rigning í nóvember kom upphaflega út árið 2004 fylgdi henni lítil uppskriftabók sem geymdi uppskriftir að réttunum sem vísað var til í sögunni og í Afleggjaranum fylgjumst við með aðalsöguhetjunni, ungum manni, stíga sín fyrstu skref í eldamennsku. Í Undantekningunni eru vísanir í mat og matargerð svo margar að ég týndi tölunni um miðjan lestur en eftirfarandi tilvitnun gefur e.t.v. hugmynd um vægi þeirra í textanum:
Ég vanmet ekki færni mína þegar kemur að flóknum og tímafrekum veislumáltíðum, er á heimavelli þegar villibráð og fyllingar í fugla sem ég fæ í hamnum beint á vaskaborðið eru annars vegar. Þegar við höldum matarboð geri ég oft marga eftirrétti; fjögurra hæða ístertu með heimatilbúnum botnum, súkkulaðimús, creme brulée. (67)
Mat í skáldsögum myndu ef til vill sumir flokka sem smáatriði en hér eru vísanir í mat ekki einungis til þess að skapa stemningu heldur verða þær hluti af persónusköpuninni; María er heimsborgari sem eldar og snæðir framandi og spennandi mat eins og Osso bucco og fennel á meðan Perla á neðri hæðinni er afar hrifin af eggjum og beikoni. Vísanir í mat auka bæði sannfæringarmátt frásagnarinnar og stuðla að innlifun lesandans. Lýsingunum tekst jafnvel að kitla bragðlauka og lyktarskyn lesandans en það verður að teljast nokkuð áhrifamikið að geta kallað fram bragð og lykt við lestur.
Ég ætla að ganga svo langt og segja að Auður Ava toppi sig í nýjustu skáldsögu sinni, Undantekningunni, sem eins og fyrr segir sver sig í ætt við fyrri bækur höfundar en bætir líka nýju við; frásagnarspeglarnir og hin sjálfsögulegu einkenni veita frásögninni aukna dýpt og margræðni. Ég vona innilega að Auður Ava haldi áfram að leyfa sér að kafa víða í væntanlegum skáldsögum sínum og textum – skáldsögum sem innihalda sjálfsvísanir og eilítið duldar vangaveltur um heimspeki ber ávallt að fagna! Þá er vert að geta þess að umbúnaður bókarinnar og frágangur er afar fallegur en það er ekki hægt að segja um allar bækur sem út koma í jólabókaflóðinu þetta árið. Bjartur og Ragnar Helgi Ólafsson eiga hrós skilið fyrir fallega og smekklega hönnun á bókum sínum.
Vera Knútsdóttir, desember 2012