Undrarýmið er sjöunda ljóðabók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur og lesendur merkja strax að hér er reyndur höfundur á ferð. Ljóðin eru sett fram af miklu öryggi og bókin skemmtilega heilstæð hugmynd. Þema verksins eru undrun og sköpun og þau rými sem tengjast því.
Í fyrsta ljóðinu „Að undrast“ segir meðal annars:
allar minningar
tengjast rými
undrun
stöðvar tímann
Það má segja að þetta sé einskonar leiðarstef í gegnum verkið, en þar leitast höfundur við að stoppa og rannsaka þau rými sem tengjast undrun og sköpun. Það getur verið sá staður sem froskar fjölga sér eins og í ljóðinu „Selva oscura“ eða líkt og í ljóðinu „Smásjáardramað“ þar sem heilu veraldirnar birtast undir smásjánni. Í ljóðinu „Bleiktunga, blóðtunga“ safnast allt sem ljóðmælandi hefur sagt saman á tungu hennar, en líka orðin sem eru ósögð, þannig verður tungan rými þess sagða og ósagða. Í ljóðinu „Vöxtur“ lýsir ljóðmælandi því efnislega sem á sér stað þegar barn þroskast í móðurkvið, en líka því sem á sér stað andlega:
skömm (eitruð)
sektarkennd (slímkennd)
ónot (undarleg)
reiði (herpandi)
sársauki (skerandi)
blinda hungur þrá
Þannig beinir ljóðmælandi sjónum að öllu því sem líka verður til við æxlun og barneign án þess að fylgst sé sérstaklega með því hjá hvorki mæðravernd né verðandi foreldrum sem hvort um sig einblína á að telja tær og fingur og sýna t.d. þeim sársauka og áföllum sem leynast í erfðaefninu lítinn áhuga. Höfundur vinnur þannig með mörk náttúru og andans, líkamleika og hugmynda, staðreynda og filda, innan rýmis sköpunarinnar. Eins og sést í ljóðinu „Fósturvísavísa“ þar sem ljóðmælandi hefur leik á tali um líkamlegar staðreyndir en svo segir:
Jafnvel í dauðanum
er einsemdin sár
og betra að vera saman
Þannig er Sigurlín óhrædd við að afhjúpa hugsjónir í ljóðum sínum, draga ályktanir og gefa lesanda innsýn í sína persónulegu hugsun og gildismat. Það sést einna best í ljóðinu „Mannhelgikvæði“, þar sem stendur:
Frá og með deginum í dag
er mannhelgin færð
úr hafmílum í hugmílur
Ljóðið er ákall um mannhelgi, en líka leikur að samsvörunum og hlutföllum, sem er einkennandi fyrir verkið. Eins og í ljóðinu „Eplið“ er jörðin er holdið: eplið er bölvað / og þar með jörðin líka / og holdið. En hér er jafnframt aftur unnið með mörk erfðaefnis og andans, þar sem höfundur vinnur úr syndafallinu með því að teikna upp mynd af „langalangalangalangalangalangalangömmu“ sem bítur í eplið og kallar yfir sig bölvun, þetta aldagamla minni blandast í meðförum höfundar við hversdaginn hjá bæði guði og mönnum og marið eplið rennur saman við mar á sköflungi.
Síðasta ljóð bókarinnar nefnist „Vor“ og lýsir því hvernig hljóð breytist í tón og tvístígandi vor breytist í sumar. Þannig verður líka hugmynd af ljóðum, að bók sem lesandi er búin að lesa. Þetta er flottur lokapunktur á þessu verki, þar sem það sem var verðandi er orðið en á sama tíma heitir ljóðið „Vor“ og skilur þannig eftir rými fyrir það sem koma skal.
Bókin er skreytt myndum úr gömlum líf og læknisfræði ritum, sem tengjast ljóðunum beit og óbeint. „Fósturvísavísu“ fylgir skýringarmynd af beinagrindum af fóstrum, en hjá ljóðinu „Að undrast“ er mynd af kólibrífugli. Ljóðinu „Nokkur orð um fegurðina“, þar sem segir: „Hlátur og grátur hljóma eins / úr vissri fjarlægð“ fylgir mynd af sjö höfða skrímsli frá 16. öld. Myndirnar eru dæmi um einhverskonar undrarými náttúrunnar sem á hverjum tíma eru talin hluti raunvísinda en birtast hér sem rými skáldskaparins. Þannig er verk Sigurlínar áframhald á ríkjandi sögulegri hefð íslenskra skálda sem flétta saman náttúrfræðum og skáldskap. En hér er áherslan ekki á ægifegurð né dulda krafta heldur þetta „undrarými“ sem fyrirfinnst á milli náttúru og andans. Bókin er falleg áminning til lesanda um að staldra við og rannsaka þau undur sem umvefja okkur og hvernig slík athugun getur verið forboði sköpunar.
Rósa María Hjörvar, desember 2019