Sögusvið nýjustu bókar Brynhildar Þórarinsdóttur, Ungfrú fótbolti, er Breiðholtið. Árið er 1980 og alls staðar eru hálfbyggð hús og nýsteyptar gangstéttir. Allir sléttir fletir eru lagðir undir byggingarvinnu. Umhverfið er ekki kjörið fyrir leik en krakkarnir deyja ekki ráðalausir. Til að geta spilað fótbolta búa þau til keppnisvöll í götunni sinni, merkja vítateiga og miðju með krít, búa til markstangir úr úlpum og nota gangstéttirnar til að marka hliðarlínur. Svo loka þau götunni fyrir bílaumferð með skilti sem á stendur: „Varúð – krakkar að leik“.
Þegar sagan hefst er síðasti vetrardagur og sumarið allt fram undan. Gerða, aðalpersóna bókarinnar, miðar tímatal sitt við fótbolta en hún er búin að búa í Birkiselinu frá því sumarið 1978, þegar Argentína varð heimsmeistari í fótbolta. Það sumar kynntist hún einnig bestu vinkonu sinni Ninnu sem sést ekki án markmannshanska á höndunum. Vinkonurnar deila einlægum áhuga á öllu sem við kemur fótbolta og dreymir um framtíð þar sem stelpur geta æft með fótboltaliði og keppt á alvöru mótum.
Gerða fylgist vel með íþróttafréttunum í blöðunum og einn daginn sér hún að Albert Guðmundsson, fyrrum knattspyrnumaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta. Með því hefst áhugi Gerðu á forsetakosningunum. Fullorðna fólkið talar um lítið annað en Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konuna til að bjóða sig fram til forseta, og ekki líður á löngu þar til Vigdís kemst á listann yfir það sem Gerða „heldur með“, næst á eftir Liverpool. Gerða fer ósjálfrátt að bera baráttu Vigdísar saman við sína eigin baráttu. Báðar eru þær að berjast gegn staðalímyndum um konur: Í opinberum embættum, annars vegar, og fótbolta, hins vegar. Það er eftirminnilegt og áhrifaríkt hvernig bókin Ungfrú fótbolti segir samhliða sögu samfélags og einstaklings.
Saga Gerðu er í grunnin hefðbundin þroskasaga. Gerða er þrettán ára og á mörkum þess að vera barn og unglingur. Henni finnst leiðinlegt að vera seinni til að taka út líkamlegan þroska en jafnaldrar sínir. Ninna vinkona hennar er til dæmis hætt að kaupa skó og föt í barnadeildinni en sjálf passar Gerða ekki enn í nýju flottu unglingafötin. Þetta sumar útskrifast stöllurnar úr barnaskóla og fá sér sumarvinnu í fyrsta sinn, fara að keppa í fótbolta með fullorðnum konum og færa sig úr unglingabókum yfir í spennu- og ástarsögur. Þær upplifa ótal nýja hluti, komast í skrýtnar aðstæður og læra af mistökum sínum.
Sögupersónurnar eru marglaga; hegðun þeirra einkennist af mannlegum þversögnum. Gerða er til dæmis oft í andstöðu við sjálfa sig. Hún er með sterka réttlætiskennd þegar kemur að málefnum eins og kvennafótbolta en brýst inn í hús, stelst í tímarit systur sinnar, laumar sér í strætó án þess að borga og safnar fyrir fótboltatreyjum handa liðinu sínum með því að segja að það sé „til styrktar fátækum börnum“. Hún hneykslast á því að fólk skuli hafa fordóma í garð fótboltastelpna en er sjálf með fordóma fyrir pönkurum. Hún óttast líka að Kalda stríðið geti teygt sig til Íslands en er aftur á móti spennt að fylgjast með blóðugum bardaga á milli unglinga Fella- og Seljahverfisins. Samskipti Gerðu við foreldra sína eru sannfærandi og segja mikið um hana sem persónu. Foreldrar hennar eru vel upplýst og því fær um að útskýra ýmislegt fyrir henni. Þau hafa mikil áhrif á hana en hún hefur ekki síður áhrif á þau. Gerða ögrar hugmyndum foreldra sinna og vekur þau til umhugsunar um jafnrétti. Þó móðir Gerðu sé, til dæmis, mikil baráttukona fyrir jafnrétti kvenna hefur hún áhyggjur af því að dóttir sín sé með of mikið „vesen“ með sinni persónulegu uppreisn gegn kynjahlutverkunum. En eins og Gerða segir eru það verstu rök í heimi að eitthvað hafi bara alltaf verið svona (271).
Bókin Ungfrú fótbolti er auðlesin en skilur mikið eftir sig. Bygging bókarinnar er úthugsuð; það eiga sér stað spennandi atvik út alla bókina. Þetta er ekki aðeins unglingabók, heldur einnig fjölskyldubók. Foreldrar ættu að hafa gaman af því að lesa söguna með unglingunum sínum. Sagan er góð kveikja að umræðu um jafnrétti kynjanna, einkum hvað varðar kynjahlutverk og staðalímyndir. Breytingar eiga sér ekki stað af sjálfu sér. Það er gott að staldra við og skoða hvert við erum komin og velta fyrir sér hvert við viljum stefna. Einnig gæti verið gaman fyrir lesendur að ræða um það hvernig það er að vera unglingur: Hvernig var það þá og hvernig er það nú? Ungum lesendum á ef til vill eftir að koma spánskt fyrir sjónir að það hafi ekki verið sjónvarp í júlí, að einu sinni hafi íslenskir peningar verið með tveimur núllum meira en í dag og að krakkar hafi verið í skólanum annað hvort fyrir eða eftir hádegi, fengið berklaplástra og drukkið kók með lakkrísröri. Bókin er marglaga, líkt og sögupersónurnar, en um leið létt og skemmtileg og varpar ljósi á hið skondna í hversdagsleikanum.
Karítas Hrundar Pálsdóttir, nóvember 2019